Stjórn fiskveiða

149. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 01:38:42 (7212)


[01:38]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef fylgst nokkuð grannt með umræðum um sjávarútvegsmál í vetur og reyndar tekið nokkurn þátt í þeim og það hefur vakið nokkra athygli hjá mér að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur nánast forðast það eins og heitan eld í þessari umræðu í vetur að gefa nokkuð upp um það hver væri hans skoðun varðandi þær aðgerðir sem nú þyrfti að grípa til og hvað þyrfti yfir höfuð að gera enda dæsti hv. þm. og lýsti yfir miklum feginleika þegar hann var búinn að mæla fyrir nál. og brtt. þingmanna Alþb. í þessari umræðu.
    Nú gekk hv. þm. hins vegar lengra í þessari ræðu en áður þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að hann væri hvorki með eða á móti aflamarkskerfinu. Ég hlýt því að spyrja hv. þm. hvort þetta þýði það að hann hafi horfið frá þeirri stefnu Alþb. sem var birt í frumvarpsformi sem fylgirit með þáltill. þeirra um stjórn fiskveiða þar sem var sett fram alveg ákveðin stefna sem byggðist á flóknu samspili sóknarmarks og aflagjalda og hvort það beri að skilja þessi ummæli þingmannsins sem svo að hann hafi klofið sig frá samnefndarmanni sínum í sjútvn. Á hv. þm. Jóhanni Ársælssyni er enginn bilbugur á og það hefur sýnt sig í tveimur ræðum hér í dag. Á honum er enginn bilbugur hvað það snertir að í núverandi kvótakerfi sjái hann enga glætu.