Flugmálaáætlun 1994--1997

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 16:53:20 (7308)


[16:53]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Flugmálaáætlun sem hér er til umræðu hefur verið til meðferðar í hv. samgn. og hlotið þar mjög ítarlega umfjöllun og því óþarfi af minni hálfu að hafa mörg orð um áætlunina. Það eru ekki gerðar miklar breytingar út af fyrir sig á áætluninni eins og hún lá fyrir en þó var í nokkrum atriðum, eins og vafalaust hefur komið fram í umræðunum, vikið til ýmsum verkum.
    Það sem ég vildi gera að umtalsefni við þessa umræðu er að það hafa orðið nokkrar breytingar á áætlunarflugi í landinu. Með bættum samgöngum um vegi hafa sumir flugvellir verið minna nýttir og í sumum tilvikum þar sem hafa verið byggðir upp ágætis flugvellir hefur áætlunarflugi verið hætt. Þetta hefur allt saman sínar skýringar en ég vildi að það kæmi fram við þessa umræðu að ég tel afar mikilvægt að á þeim flugvöllum sem ekki er gert ráð fyrir að sé unnið við eða séu framkvæmdir við á þessu áætlunartímabili, þeim flugvöllum sem flokkast undir aðra flugvelli og lendingarstaði, sé sinnt eðlilegu og nauðsynlegu viðhaldi og umsjón á vegum Flugmálastjórnar, ekki síst vegna þess að í sumum tilvikum eru þessir flugvellir nýttir vegna leiguflugs, leiguflugs sem er jafnt að vetri sem sumri en þó einkum og sér í lagi er um að ræða leiguflug sem tengist ferðaþjónustunni og má ég í því sambandi nefna flugvöllinn á Rifi á Snæfellsnesi og flugvöllinn í Stykkishólmi. Ég vildi að þetta kæmi fram við þessa umræðu vegna þess að ég hef vissar áhyggjur af því að áætlunarflug væri ekki lengur á þessa staði og á það einnig við um Blönduós, og þá kunni að vera sú hætta að ekki sé sinnt nægjanlega um umsjón og rekstur þessara valla.
    Þá eru gerðar nokkrar tilfærslur varðandi flokkun annarra flugvalla og lendingarstaða. Ég lýsi mig fylgjandi þessari skiptingu og tel að það hafi komið alveg fullnægjandi skýringar af hálfu Flugmálastjórnar og starfsmanna Flugmálastjórnar við þessari flokkun, en í nokkrum tilvikum er um að ræða flugvelli sem eru afar mikilvægir vegna sjúkraflugs og vegna öryggis sem tengist því og þess vegna er nauðsynlegt að halda þeim við.
    Það kom m.a. fram hjá fulltrúum Félags einkaflugmanna sem komu fyrir samgn. að þeir leggja mikið upp úr því að þessum lendingarstöðum sé vel og bærilega við haldið, það

megi treysta því að það sé hægt að lenda á þessum stöðum með sæmilegum hætti og ég held að þeir hafi fyrir nefndinni fært fullgild rök fyrir því.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Það hafa ekki komið fram aðrar breytingartillögur við flugmálaáætlun en sú sem nefndin stendur að. Að vísu hefur maður séð um það fjallað m.a. að það sé ástæða til þess að flytja Reykjavíkurflugvöll. Það er ekki gert ráð fyrir því í þessari flugmálaáætlun en sú hugmynd virðist vera einhvers staðar á sveimi. Ég held að hv. samgn. hafi ekki verið með það í huga.
    Virðulegi forseti. Ég lýsi að sjálfsögðu stuðningi við þessa áætlun og vænti þess að vel megi takast til með framkvæmd hennar.