Húsaleigubætur

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 22:53:54 (7344)



[22:53]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka skýrt fram að ég styð húsaleigubætur, en fyrirvarar okkar sem erum með brtt. á þskj. 1209, sem ég skrifaði undir ásamt Jóni Kristjánssyni og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, eru einmitt þeir fyrirvarar sem hér hefur verið rætt um í kvöld bæði af Birni Bjarnasyni og Vilhjálmi Egilssyni varðandi skattalega meðferð leigutekna. ( BBj: Ég talaði ekki um það.) Hv. þm. Björn Bjarnason talaði ekki um það, en það var fyrirvari Vilhjálms. Fyrirvari Björns var varðandi sveitarfélögin í landinu og ég tek undir þann fyrirvara líka. Það þarf auðvitað að nást samkomulag um það þar sem sveitarfélögin eiga að borga 40% af þessu, en það er greinilegt að það er ekkert samkomulag um þetta mál. En í þessari brtt. okkar er einmitt tekið á þessum skattalega þætti og þess vegna geri ég það að tillögu minni, ef það væri til samkomulags í þessu máli, að málinu yrði vísað til hv. félmn. aftur. Ég tel það mjög eðlilegt. Þess utan á þetta ekki að taka gildi fyrr en um áramótin 1995 þannig að við erum ekki að tefja málið, en við getum komist að samkomulagi um það. Það er greinilegt miðað við þá umræðu sem hér hefur farið fram.