Störf efh.- og viðskn. og allshn., verkfall meinatækna

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:21:05 (7562)


[09:21]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja að því hver getur svarað þingmönnum um það hvernig þessi deila stendur í dag. Það kann vel að vera að við leysum ekki þessa deilu í hér þingsölum en við þurfum að vita hvernig deilan stendur. Þetta er alvarlegt mál. Það er hálfur mánuður síðan hér var utandagskrárumræða um þetta mál og þá sagði hæstv. heilbrrh.: Deilan er að leysast. Þið skuluð ekki hafa áhyggjur af þessu. Hún er að leysast.
    Hér ræddi einn hv. þm. um að það væri ómaklega vegið að hæstv. heilbrrh. Það kann vel að vera að það hafi verið gert en hann leysir ekki þessa deilu í gegnum telefaxtæki eða síma. Hann gerði það ekki meðan hann stóð í þingsölum eða var í sínum embættisstörfum og þaðan af síður mun hann leysa þessa deilu í gegnum síma. En ég hlýt að spyrja aftur: Hver getur svarað þingmönnum um það hvar þessi deila er stödd og hver er að reyna að leysa þessa deilu?
    Því hefur verið lýst hversu alvarlegt ástandið er á sjúkrahúsunum. Það eru ekki einungis hjartasjúklingar sem bíða eftir aðgerðum eða sjúklingar sem bíða eftir alvarlegum beinaaðgerðum heldur eru að koma upp bráðatilfelli sem erfitt er að leysa úr vegna þess að það er skortur á þeim sérhæfða vinnukrafti sem eru meinatæknar. Þessa deilu verður að leysa og ég tek undir að það er ekki hægt að slíta þinginu áður en við vitum nákvæmlega um það hvar þessi deila stendur í dag.