Leikskólar

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 11:08:53 (7598)


[11:08]
     Tómas Ingi Olrich (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Vegna orða sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson lét falla hér áðan þá verð ég að taka það fram að þegar hann hóf að ræða hér um brtt. sem felld var í gær þá var hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir í forsetastóli og gegndi því mikilvæga embætti.
    Enn fremur er rétt að benda á að athugasemdir þingmanna um stjórn þingsins eru algerlega óháðar því hver situr í forsetastóli hverju sinni. Þingmenn hafa fullan rétt til þess að hafa skoðanir á því hvort farið er að þingsköpum eða ekki hver sem situr þar og fellst ekki í því nein vanvirðing við einstaka hv. þingmenn sem gegna því mikilvæga embætti. Ég tel að hér hafi verið endurtekin umræða sem fór fram í gær vegna brtt. við frv. til laga um leikskóla sem var felld og það er svo að frv. til laga um leikskóla gefur ekkert tilefni og gaf ekkert tilefni efnislega til þessarar brtt. Það er þess vegna alger óþarfi að endurtaka þau rök sem komu fram þá og miðar ekki að neinu öðru en að tefja störf þingsins.