Stjórn fiskveiða

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 11:35:59 (7697)


[11:35]
     Gísli S. Einarsson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil í upphafi þessa seinna ræðutíma sem ég hef vekja athygli á því að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem talaði um að menn væru ekki viðstaddir umræðuna, kom inn í nokkrar sekúndur og hvarf út aftur.
    Varðandi það sem ég hef verið að segja þá er þetta áfangasigur til breytinga á því kerfi sem við erum með. Ég hygg að við munum búa við það í nokkurn tíma enn. En þetta er áfangasigur og ég tel að það beri að fagna honum með því að samþykkja þessi lög sem nú er verið að setja.
    Varðandi brtt. á þskj. 1287 frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni og fleirum þá hef ég fulla samúð með stöðu þessara manna, fulla samúð, en ég geri mér grein fyrir því að það er ekki hægt að ná öllu fram. Það eru fjölmargar brtt. sem ég hef verið að nefna í mínum ræðum sem ég hef ekki komið fram. Og ef það væri svo að menn næðu alltaf sínum ýtrustu óskum fram þá er ég hræddur um að lagabálkurinn væri lengri heldur en nú er um að ræða.