Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 17:30:46 (7871)


[17:30]
    Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég leyfði mér að kveðja mér hljóðs um andsvar vegna þess að hæstv. ráðherra kom hér og sagðist halda að launamisréttið væri svipað og það hefði verið. Ég held að þeir menn sem ganga hér um og halda slíkt séu hálfblindir, nema verra sé, sem ekki sjá það að launamisréttið og ójöfnuðurinn hefur sjaldan eða aldrei verið meiri en nú er orðið. Það er orðin fátækt á Íslandi í dag. Svo alvarlegt er málið.
    Ég hef setið hér og hlýtt á umræður í dag. Það sem hefur vakið athygli mína er að það hefur engin von verið gefin um einhverja bjartari framtíðarsýn. Engin. ( ÓRG: Það er hætt að vora.) Ráðherrar hafa komið og talið það eðlilegt, ekki bara í dag heldur áður og fyrr, að það væri raunar ekkert óeðlilegt við það að á Íslandi byggjum við við hærra atvinnustig heldur en gerist í Evrópu þar sem það er 15--20%. Á hverju megum við eiga von, virðulegi forseti?