Þróunarsjóður sjávarútvegsins

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 14:37:38 (7966)


[14:37]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Í 16. gr. er afar umdeilt ákvæði þessa frv. á ferðinni. Þar segir að Þróunarsjóður sjávarútvegsins skuli vera undanþeginn fasteignagjöldum af fasteignum sem sjóðurinn kunni að eignast. Þessu ákvæði hafa sveitarfélögin og samtök sveitarfélaga um allt land mótmælt mjög harðlega og í raun og veru er vandséð að fyrir því standi nokkur rök að svipta sveitarfélög tekjum með því einu að Þróunarsjóður sjávarútvegsins, verði hann til, taki til starfa og fari að leggja undir sig fasteignir í viðkomandi sveitarfélögum. Það hafa engin frambærileg rök komið fram sem mæla með því að þessi aðili umfram aðra skuli vera undanþeginn gjöldum af þessu tagi. Því greiðum við atkvæði gegn þessu ákvæði.