Flutningur tónlistar og leikhúsverka í sjónvarpi

17. fundur
Miðvikudaginn 20. október 1993, kl. 14:03:25 (464)


[14:03]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég get út af fyrir sig ekki svarað því í einstökum atriðum hversu miklir fjármunir eru þarna á ferðinni og heldur ekki því hvort þetta er dýrara eða ódýrara en eitthvað annað sem stöðvarnar eru með. Enda finnst mér að málið snúist ekki um það hér í þessari stofnun. Það er tæplega okkar hlutverk að hafa skoðun á því hvernig á að raða þessu saman. Ég hygg t.d. að ef menn ætluðu að senda út dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands þá yrði að senda út a.m.k. nokkrum sinnum heila dagskrá. Einhver skipti samsetta dagskrá. Eins gæti það verið með leikhúsin, þetta yrði að vera matsatriði hverju sinni. En ég hygg að ef sæmilega er að þessu staðið, þ.e. upptöku á einu leikverki með viðeigandi fjölda myndavéla og eðlilegri tæknivinnu við klippingu og vönduðum frágangi filmunnar, þá séu menn hér að tala um að því er varðar heils kvölds leikrit ekki mikið lægri tölu en 5--7 millj. kr.