Rannsóknir á umhverfisáhrifum vatnaflutninga

20. fundur
Mánudaginn 25. október 1993, kl. 18:34:13 (626)


[18:34]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er að mínu viti rétt að menn svari því áður en byrjað er að rannsaka ýmsa hluti eins og þessa hvort menn vilji yfir höfuð ráðast í framkvæmdina sem verið er að rannsaka. Það er til lítils að vera að eyða peningum í það ef menn eru fyrir fram ráðnir í því að þeir vilji ekki ráðast í þær framkvæmdir sem rannsóknirnar beinast að hvort mögulegar eru. Ég er því sammála því sem hér kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. að menn verða að byrja á því að svara þessari spurningu.
    Ég hef tekið eftir því að báðir ráðherrarnir, hæstv. umhvrh. og iðnrh., hafa vikið sér hjá því að svara því, svo ég skýri það þannig að þeir séu tilbúnir að fara í þessar framkvæmdir ef þeim lýst á fjárhagslega dæmið.
    Ég vil vegna þess sem kom fram hjá hæstv. umhvrh. þegar hann vitnaði í Náttúruverndarráð minna á það að aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Austurlands hefur einmitt varað við þessum hugmyndum og mótmælt áformum um virkjun af þessu tagi.