Fjáraukalög 1993

23. fundur
Þriðjudaginn 26. október 1993, kl. 15:29:01 (654)


[15:29]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins eitt atriði sem ég kýs að taka núna og vil benda sérstaklega á en það eru afkomuhorfur í A-hluta ríkissjóðs í árslok 1993. Miðað við álit Ríkisendurskoðunar annars vegar og fjmrn. hins vegar, þá er það svo að að undanförnu hefur það sýnt sig að afkoma ríkissjóðs hefur reynst betri en menn áttu von á á haustin einmitt vegna þess að þegar uppgjörsfrumvörpin koma fram þá kemur í ljós að heimildirnar hafa verið tiltölulega rúmar og vonandi verður þannig einnig nú. Það sem þó skekkir aðeins myndina þegar við annars vegar lítum á niðurstöðutölur Ríkisendurskoðunar og hins vegar ráðuneytisins er gamall draugur eða gömul viðhorf sem eru ólík hjá þeim báðum og vonandi verður saminn friður um það í framtíðinni en það eru framlögin til Landsbanka Íslands. Þannig er að við lítum á þetta sem eignfærð framlög sem fara á efnahagsreiknig og munum færa greiðslur þegar greitt er af pappírnum sem lagður var inn í Landsbankann, þ.e. vextirnir koma inn í fjárlög og eins ef til þess kemur að greiða þarf af skuldabréfinu. Ríkisendurskoðun telur eins og áður að þetta eigi að gjaldfærast á árinu jafnframt þótt engar greiðslur eigi sér stað. Þetta skýrir kannski að nokkru þann mun sem kemur fram í niðurstöðutölum um lánsfjárþörf. Ríkissjóður eða fjmrn. segir: Það verður engin lánsfjárþörf til þó að við skrifum pappír og leggjum pappírinn inn í Landsbankann. Greiðslan sem þarf að nota kemur ekki til skjalanna fyrr en við þurfum að greiða af þessum pappír annaðhvort vexti eða afborganir. Þetta skýrir muninn.