Húsnæðismál Stjórnarráðs Íslands

27. fundur
Mánudaginn 01. nóvember 1993, kl. 15:17:05 (893)

[15:17]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Sú heimild sem hv. þm. vitnaði til hljóðar svo: Liður 45 í 6. gr. fjárlagafrumvarpsins heimilar fjmrh. ,,að kaupa húseignir og lóðir í nágrenni Arnarhváls í Reykjavík fyrir Stjórnarráðið og taka til þess nauðsynleg lán``. Heimildir sama efnis hafa verið í fjárlögum mörg undangengin ár. Stefnt hefur verið að því til lengri tíma að flytja skrifstofur Stjórnarráðsins sem mest á svæðið í nágrenni Arnarhváls. Því hefur þótt rétt að hafa heimild af þessu tagi til staðar ef aðstæður mundu skapast til að nýta hana.
    Eins og kom fram hjá hv. þm. þá hafa ýmis húsnæðismál Stjórnarráðsins verið til athugunar að undanförnu og einkum, eins og hv. þm. nefndi, hefur verið rætt um að koma starfsemi utanrrn. fyrir á einum stað. Í því sambandi hafa augun beinst að húsnæði því sem Byggðastofnun og Framkvæmdasjóður hafa haft yfir að ráða og þar er reyndar landbrn. einnig til húsa. Engar ákvarðanir hafa enn verið teknar í þeim efnum, en ég hygg að vel geti farið á því að utanrrn. verði þar staðsett, enda verði þá séð með sæmilegum hætti einnig fyrir þeirri starfsemi sem þegar er í því húsi og að eignaraðilinn sé við það sáttur.
    Varðandi landbrn., ef til þessara ákvarðana kæmi, þá hafa menn skoðað ýmsa kosti en engin niðurstaða fengist. Í því sambandi hafa menn m.a. horft á efstu hæð í nýbyggingu fjmrn. við Ingólfsstræti eða Sölvhólsgötu. Ég er ekki alveg klár á því hvernig þetta er staðsett, en menn vita hvaða hús það er. Það hefur heldur engin ákvörðun verið tekin í þeim efnum þannig að meginsvarið er þetta: Þessi heimild hefur á mörgum undanförnum árum verið til staðar og mönnum hefur þótt rétt að hafa þá heimild áfram ef aðstæður mundu skapast til að nýta þær.