Vegalög

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 14:12:10 (1021)


[14:12]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef nú ekki farið oft í undirdjúpið á milli lands og Eyja eins og hv. þm. Árni Johnsen virðist hafa gert. Við skulum aðeins ímynda okkur þessa leið hvað hún er ólíkleg í dag til þess að vera raunhæf.
    Ef þingmaðurinn Árni Johnsen væri staddur úti í Vestmannaeyjum og göngin væru komin, þá yrði sennilega að vera hringakstur niður eina 70 metra til þess að komast einhvers staðar undir botninn því að dýpið í álnum er yfir 70 metrar. Í Þykkvabænum þarf náttúrlega annan hringstiga upp til þess að honum geti skotið þar upp og hafið sönginn fyrir þá kartöflubændur. Það er nú önnur saga.
    En ég held að við eigum ekki að vera að rugla okkur í þessari umræðu. Hann lýsti því yfir hér sem ég fagna að Herjólfur núverandi væri fyrsta alvöruskipið á milli lands og Eyja. Ég er sammála honum í því og þess vegna hygg ég að hann hafi orðið jafnundrandi, hafi hann verið hér, á þeim ummælum og þeirri ræðu sem hæstv. samgrh. flutti yfir þingheimi í síðustu viku. Þau eru í andstöðu við allt sem hann hefur sagt á hátíðarstund og í andstöðu við öll rök málsins því að skipið varð ódýrara og hefur heppnast betur en menn gerðu ráð fyrir.