Vandi skipasmíðaiðnaðarins

29. fundur
Miðvikudaginn 03. nóvember 1993, kl. 16:13:54 (1059)

[16:13]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég nýti mér þessa heimild í þingsköpum til þess að ræða við virðulegan forseta um að það væri ástæða til þess að taka á því máli sem hér gerist hvað eftir annað, að hæstv. ráðherrar í utandagskrárumræðum sem hafa síðasta orðið nota það til útúrsnúninga og rangfærslna á því sem hefur komið fram hjá almennum þingmönnum sem hafa enga möguleika til þess að svara í umræðunni. Ég fer vissulega ekki á nokkurn hátt efnislega út í þetta, en ég get stutt þetta með því að skoða ræður þegar þær koma hér í þingtíðindum.