Nýting síldarstofna

31. fundur
Þriðjudaginn 09. nóvember 1993, kl. 16:30:26 (1168)

[16:30]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Vegna fyrirspurnar hv. 3. þm. Reykv. get ég sagt að sjútvrn. er fyrir sitt leyti mjög svo reiðubúið að vinna að því að Íslendingar geti tengst því samstarfi sem vitnað var til að er að takast með Evrópuþjóðum. Það er vissulega rétt að á því svæði sem hv. þm. nefndi er hin hefðbundna síldarneysla og mjög mikilvægt að við reynum að koma ár okkar þar fyrir borð.
    Það eru hins vegar ákveðnir erfiðleikar á því að selja síld til Evrópubandalagsþjóðanna m.a. vegna þess að þeir hafa með öllu bannað mjölvinnslu á síld sem leitt hefur til mikils offramboðs á manneldissíld og þar af leiðandi hefur verð verið mjög lágt. Í annan stað var það niðurstaða samninganna við EES að það tókst ekki með öllu að tryggja hindrunarlausan aðgang eða tollfrjálsan aðgang fyrir mikilvægustu vinnsluvörurnar úr síld og það urðu síldarútvegsnefnd nokkur vonbrigði að það skyldi ekki takast. En ég tek undir það með hv. þm. að það er mikilvægt að vinna að því að treysta okkar stöðu á þessum markaði og vinna áfram að þeim málum. Það er líka alveg ljóst, að því er síldarvinnsluna varðar, að markaðir eru vaxandi fyrir frysta síld og það er ekki síst á því sviði sem aukning á síld til manneldisvinnslu hefur farið fram og sölusamtökin hafa unnið þar mjög gott starf og verið að vinna ný markaðslönd í þessu efni.