Ávinningur iðnaðarins af GATT-samkomulagi

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:17:15 (1329)

[16:17]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir svör hans svo langt sem þau náðu. Hins vegar var það náttúrlega dálítill galli á málinu að ekki hafi verið gerð tilraun til að meta meira tölulega það sem gæti verið líkleg niðurstaða af þessum GATT-viðræðum. Þær hafa auðvitað staðið mjög lengi og maður skyldi ætla að almennar grófar línur væru farnar að myndast um það í hvað stefndi sem hugsanlega niðurstöðu af þessum viðræðum hvað varðar heilar atvinnugreinar eins og t.d. iðnaðinn í landinu. Ég nefndi tvo þætti iðnaðarins sem dæmi um iðngreinar sem gætu haft hugsanlega verulegan ávinning af því að viðskiptahindrunum yrði rutt úr vegi. Í þessu sambandi nefndi ég skipasmíðaiðnaðinn í fyrsta lagi, sem býr sérstaklega við það vandamál að þar er um að ræða samkeppni við ríki sem greiða niður sinn skipasmíðaiðnað. Og það er í sjálfu sér sú viðskiptahindrun sem íslenskur skipasmíðaiðnaður á fyrst og síðast við að etja. Þannig að nýjar leikreglur sem tækju á því máli á grundvelli GATT-samkomulagsins væru auðvitað mikill happafengur fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað.
    Síðan er hitt atriðið sem ég kom sérstaklega inn á í minni fyrri ræðu sem varðaði tölvuiðnaðinn og ýmiss konar þjónustuiðnað við sjávarútveg sem hefur verið að hasla sér völl víða, bæði sem hátækniiðnaður og eins alls konar búnaður sem verið er að vinna fyrir sjávarútveginn erlendis. Þar mæta mönnum helst viðskiptahindranir á sviði tollamála. Ég vildi gjarnan biðja hæstv. utanrrh. að fara frekari orðum um þessi mál sérstaklega. Annars vegar hugsanlegan ávinning skipasmíðaiðnaðarins og hugsanlega ávinning þessa vaxtarbroddar í okkar útflutningi, þ.e. útflutning á búnaði til sjávarútvegs og tölvubúnaði sem tengist sjávarútveginum sjálfum.