Húsbréfakerfið

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:29:30 (1333)

[16:29]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þannig háttar til hjá mjög mörgum einstaklingum um þessar mundir að fólk er að missa íbúðirnar sínar, það er að missa húsin sín, m.a. fólk sem gerði áætlanir í hinu alfullkomna kerfi hæstv. félmrh. en gerði að sjálfsögðu ekki ráð fyrir því að það mundi lækka í tekjum með því að yfirvinnan yrði skorin niður, lækka í tekjum með því að yfirborganir yrðu skornar niður eða lækka í tekjum vegna þess að vinna þessa fólks hvarf. Nú er verið að breyta til um hluti varðandi vaxtamál en í ræðu hæstv. ráðherra kemur ekkert fram hvernig á að koma til móts við þetta fólk sem lenti vitlausu megin við línuna. Ég hlýt að spyrja úr því að húsbréfakerfið er til umræðu hér: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að vaxtabætur til þess fólks sem er með þessa háu okurvexti af húsbréfum verði hækkaðar sérstaklega, eða fyrir því að ný húsbréf með lægri vöxtum verði endurútgefin?