Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 15:48:54 (1521)

[15:48]

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé full ástæða til þess að taka það fram og endurtaka það að hér er um að ræða tvö aðskilin mál. Það mál sem lýtur að sýslumannsembættunum, það má ekki gleyma því að það lýtur einnig að uppstokkun á starfi sýslumannsembættanna á höfuðborgarsvæðinu. Það er verið að leita leiða til þess að auka hagræðingu í framkvæmd þessara embætta og það er ekki hægt að segja annað en að sú skylda hlýtur að hvíla á herðum þeirra ríkisstjórnarflokka sem nú hafa í tvö og hálft ár reynt að ná utan um ríkisfjármálin að skoða þetta mál af fullri alvöru. Hitt er svo annað mál að þær tillögur, sem sú stjórnskipaða nefnd sem hér hefur verið til umfjöllunar setti fram, standa algjörlega fyrir sínu og halda sínu gildi. Þær eru í eðlilegum farvegi þannig að það er óeðlilegt með öllu að grípa inn í með þeim hætti sem hér hefur verið gert.