Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 14:44:08 (1578)

[14:44]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Nú virðast taugar hæstv. ráðherra vera orðnar svo þandar að það er ekki orðin undantekning heldur regla að hann svarar þeim sem til hans beina spurningum einhverju allt öðru og einhverju sem alls ekki er á dagskrá þannig að ég hlýt að lýsa mikilli undrun minni yfir því. Hæstv. ráðherra segir að Alþfl. hafi fyrir löngu tekið ákvörðun um að skipa menn ekki í bankaráð eða aðrar slíkar stofnanir. Ég spurði ekkert um slíkt. Ég spurði hvort það hefði verið ráðherraákvörðun og hvort það sé komið þannig fyrir Alþfl. að ráðherrar flokksins séu farnir að hlutast til um ráðningu manna langt neðar í starfsstiga en maður hefur heyrt um um langt árabil. Ef svo er komið að einstaka stöður eins og ráðningar tollvarða á Keflavíkurflugvelli þurfa að fara alla leið upp á borð ráðherra og hljóta pólitískan stimpil, þá gef ég nú ekki mikið fyrir siðbótartal þeirra sem þannig vinna.