Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 16:44:44 (1602)

[16:44]
     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég gleðst yfir því að hæstv. utanrrh. hefur kynnt sér stefnumörkun okkar alþýðubandalagsmanna sem nýlega hefur verið lögð fram og að hann aðhyllist þá útflutningssókn sem þar er boðuð. En hann verður auðvitað að skilja það líka að sérhver þjóð þarf á því að halda að verja ýmsa

atvinnustarfsemi sem er kannski fyrst og fremst fyrir innlendan markað. Hann nefndi áðan kvikmyndirnar. Það vill svo til að í þessum GATT-viðræðum er það eitt af deilumálunum að Bandaríkjamenn vilja banna að kvikmyndir séu ríkisstyrktar, en Frakkar berjast hart fyrir því ásamt mörgum öðrum að það sé áfram heimilt að styrkja kvikmyndaframleiðslu. Ég ætla sannarlega að vona að hæstv. utanrrh. standi með Frökkum en ekki Bandaríkjamönnum í því stríði. Og þetta er auðvitað mjög hliðstætt svo aftur við landbúnaðinn að hættulegur undansláttur á því sviði getur verið mjög varhugaverður fyrir þá atvinnugrein. Hann þýðir ekki aðeins að mjög margir bændur geta komist á vonarvöl, hann þýðir líka minnkandi þjóðarframleiðslu, ef framleiðsla okkar á sviði landbúnaðar minnkar verulega þá minnkar líka úrvinnsla landbúnaðarvara í mörgum bæjum og þorpum og það skapar aukið atvinnuleysi í landinu. Það skapar aukinn halla á viðskiptum okkar við útlönd ef við þurfum að flytja meira inn. Þetta eru hliðar á málinu sem ekki er hægt að loka augunum fyrir. Við erum vonandi báðir sammála um að auðvitað er það kjarninn í nýrri stjórnarstefnu að stórauka útflutning. En við megum hins vegar ekki gleyma hinu að það þarf að vernda ýmsar atvinnugreinar sem fyrir eru í landinu og þar á meðal er landbúnaðurinn.