Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 16:46:37 (1603)

[16:46]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Umburðarlyndir menn segja gjarnan að það séu tvær hliðar á hverju máli. Alla vega er það svo í utanríkisverslun að það eru tvær hliðar, það er útfutningsleið og það er innflutningsleið. Sá sem er svona frjálslyndur og frístefnuþenkjandi á útflutningsleið hlýtur að leiða að því hugann að ef við ætlumst til þess að aðrar þjóðir felli niður tolla, lækki tolla til að greiða fyrir útflutningsleiðinni okkar þá spyr ég: Á það þá við sem hv. þm. er að segja að þær séu að skaða sig vegna þess að það sem við flytjum út hljóti að verða á kostnað framleiðslunnar heima fyrir? Það er með öðrum orðum gott fyrir okkur en vont fyrir þá. Vegna þess að hin hliðin í málflutningi hv. þm. er sú að allur innflutningur til þessa lands sé --- ef hann er 5% hingað þá sé hann 5% tekinn af innlendri framleiðslu og það er skaðinn fyrir okkur. Þá er útflutningsleiðin nýja hjá Alþb. komin í ógöngur, hún er eiginlega ekki útflutningshæf. Þetta er brotalömin á hugsuninni, þetta er nefnilega hálfbökuð hugsun sem að lokum verður röng hugsun.