Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 17:29:21 (1613)

[17:29]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég veit mætavel að hæstv. landbrh. er ekki grasbítur og mér hefur aldrei dottið í hug

að segja það. Ég sagði að hann hefði lotið í gras.
    Ég sleit ekkert úr samhengi. Ég tek meira mark á aðstoðarmanni landbrh. heldur en hæstv. landbrh. sjálfum og ég tek miklu meira mark á þeim títtnefnda aðstoðarmanni heldur en utanrrh. Ég veit það að hæstv. landbrh. vinnur af bestu getu að sínu embætti, en hann náði bara ekki meiri árangri í þessari lotu heldur en þetta og það var hæstv. utanrrh. sem hrósaði sigri í viðureigninni og hann boðaði til sérstaks leynilegs blaðamannafundar til þess að koma sinni túlkun og sínum sjónarmiðum á framfæri, hvað hann hefði nú staðið sig vel, hvað hann hefði nú klárað hæstv. landbrh. rækilega, boðaði til sérstaks fundar með blaðamönnum á þriðjudaginn var í varnarmáladeild utanrrn.