Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 15:34:35 (2271)




[15:34]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er rangt hjá hv. 5. þm. Suðurl. að hér sé verið að hverfa frá stuðningi ríkisins við þjóðkirkjuna og þjóðkirkjuskipulagið. Þvert á móti er verið að styrkja sjálfstæði kirkjunnar, færa kirkjunni meira áhrifavald og meiri sjálfstjórn í eigin málefnum. Og að er athyglisvert í þessari umræðu að allir þeir hv. þm. Framsfl. sem hér hafa talað hafa verið með úrtöluraddir. Sérstaklega hafa þeir gagnrýnt það að kirkjan sjálf fái að ráðstafa prestssetrunum. Þeir hafa lagt á það mikla áherslu að frv. fari í umræðu úti í sóknum landsins.
    Ég er alveg sannfærður um það að þegar sóknir landsins fara að meta þá umræðu hér, þá verður eftir því tekið að allir þingmenn Framsfl. sem hér hafa talað hafa gagnrýnt það að kirkjan sjálf fengi meira að segja um þessi efni, þeir hafa viljað halda hennar eigin málum í eigin höndum og talið það vera kirkjunni til framdráttar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé meira virði að kirkjan sjálf fái að hlutast til um eigin málefni eins og kveðið er á um í þessu frv. Það styrki kirkjuna og auki sjálfstæði hennar en hitt dragi úr sjálfstæði hennar að þingið sé að véla um hin smæstu mál sem lúta að stjórnsýslu kirkjunnar. Því miður hefur ekki annað komið fram hér eins og ræða hv. 5. þm. Suðurl. bar vott um en þeir hv. þm. Framsfl. sem hér hafi talað séu með úrtöluraddir einar um þessi tímamót sem miða að því að auka fjárhagslegt sjálfstæði kirkjunnar.