Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 17:52:46 (2431)

[17:52]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni orðaskipta sem fóru fram um hjúkrunarheimilið á Fáskrúðsfirði vil ég lýsa því yfir að sú stefnumörkun sem unnið hefur verið eftir, að gera samninga við heimamenn áður en verk er hafið, um framkvæmdatíma, verklok og greiðslutilhögun, er mjög skynsamleg. Ég hygg hins vegar að þingheimur og þar með hv. þm. Austurlands séu sammála um það, og ég er það líka, að næsta stórverkefni á sviði öldrunarmála á Austfjörðum sé Fáskrúðsfjörður. Til að taka af öll tvímæli og ná sátt um þau markmið vil ég lýsa því yfir að ég mun beita mér fyrir því strax á næsta ári að gera samning við heimamenn um verkið og einnig beita mér fyrir því í samráði við hv. fjárln. að tryggja nauðsynlegt fjármagn til þess, þannig að framkvæmdir geti hafist á árinu 1995.