Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 01:46:28 (2486)


[01:46]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þessu máli er þannig til að svara að að því hefur verið unnið ötullega af áhugasömum heimamönnum undanfarin ár. Þar hafa mjög margir komið að. Þetta safn hefur ekki síst verið tengt minningu Steins Emilssonar, eins kunnasta jarðvísindamanns sem uppi var fyrr á þessari öld og er látinn fyrir nokkrum árum. Ætlunin var raunar að safnið yrði opnað núna rétt fyrir jólin, en af því getur ekki orðið. Mér er hins vegar ekki kunnugt um hvort búið er að gera endanlegan samning um starfsemi safnsins. Það mun vera ætlunin að safnið opni á vordögum með myndarlegum hætti og þá tel ég sjálfsagt, eins og hv. 4 þm. Austurl. vék að, að formlegir samningar liggi þar fyrir og það liggi ljóst fyrir með hvaða hætti starfsemi safnsins verður. Ég held hins vegar að það fari ekkert á milli mála og það er auðvitað gefið til kynna með þessari litlu fjárveitingu, að hér er auðvitað verið að fara af stað af nokkrum vanefnum. Bæjarfélagið hefur lagt til nokkra fjármuni en einkanlega hefur þetta verið gert af áhugasömum einstaklingum sem hafa verið að safna til þessa munum og verið að undirbyggja það að hægt sé að opna þetta litla safn.
    Mjór er mikils vísir er stundum sagt og ég vona að það muni eiga við um þetta safn. Það hefur þegar eignast allnokkra gripi, m.a. fugla sem áhugasamur sóknarprestur, séra Sigurður Ægisson, hafði forgöngu um og ef fram heldur sem horfir og ýmis fyrirheit um safngripi munu rætast, þá efast ég ekki um að þar geti í framtíðinni risið býsna myndarlegt safn. En ég tek undir það með hv. 4. þm. Austurl. að ég held að þetta þurfi hins vegar þegar fram í sækir að gerast formlega og skipulega, m.a. til þess að tryggja það að ríkisvaldið geti með eðlilegum hætti komið þarna til liðs við heimamenn í uppbyggingu safnsins.