Fjárlög 1994

53. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 02:38:21 (2492)


[02:38]
     Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigbjörn Gunnarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson minntist á það snemma í ræðu sinni að formaður fjárln. heiðraði með nærveru sinni. Hv. þm. Svavar Gestsson heiðraði ekki formann fjárln. með nærveru sinni þegar framsöguræða var flutt hér fyrr í dag og þurfti þingmaðurinn að afhenda honum ljósrit úr ræðunni og reyndar saknaði sá sem hér mælir hv. þm. Svavars Gestssonar við umræðuna lungann úr deginum. En það er önnur saga.
    Hv. þm. Svavar Gestson hefur verið nokkur sporgöngumaður um það að bæta og efla samskipti nefnda þingsins, þ.e. fjárln. og fagnefnda. Það er vel og hefur nokkrum sinnum verið komið að þessu máli í dag. Hins vegar veldur það mér nokkrum áhyggjum að þingmaðurinn dró hér til baka tillögu í ræðu sinni áðan um 10 millj. kr. framlag til Stýrimannaskólans þar sem meiri hluti fjárln. hafði gert tillögu um 16,5 millj. E.t.v. er það svo að það er meira sem á skortir heldur en samskipti milli fagnefnda þingsins. Það kann að vera að í þingflokkum skorti á tengsl milli þeirra sem gegna embættum í einstökum nefndum þannig að eitthvað hafi farið á milli mála í þessu efni.
    Auk þess var það svo að álit iðnn. sem hv. þm. er formaður fyrir barst ekki fjárln. fyrr en 6. des. sem var hálfum mánuði síðar en álit flestra nefnda þingsins og í það minnsta sjö dögum síðar en sú síðasta nefnd sem skilaði þar á undan. Það var mjög miður þannig að fjárln. tókst ekki að fara yfir álit iðnn. áður en störfum nefndarinnar lauk.