Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1994

54. fundur
Föstudaginn 10. desember 1993, kl. 17:23:14 (2575)


[17:23]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún ræddi hér nokkuð málefni fatlaðra og vitnaði til greinargerðar í fjárlagafrv. og spurðist fyrir um hvort það ákvæði sem hún tiltók kæmi í veg fyrir að veitt yrðu framlög til að koma á fót nýjum stofnunum. Ég lít svo á að svo sé ekki. Úthlutun úr Framkvæmdasjóðnum er fyrst og fremst í höndum ákveðinnar sjóðstjórnar. Þar eru ákvæði sem heimila að veita fjármagn úr sjóðnum til ákveðinna verkefna annarra en stofnkostnaðar, svo sem viðhald, svo sem aðgengismála fatlaðra og nú til liðveislu og það er fyrst og fremst í höndum sjóðstjórnar hvernig hún nýtir þá heimild og hvað hún lætur í stofnkostnað. En auðvitað verður hún að gæta að því að það sé til rekstur til þessa og t.d. varðandi Sólborg sem þingmaðurinn tiltók er gert ráð fyrir að koma á fót þremur sambýlum vegna útskriftar af Sólborg og til þess er til fjármagn í rekstur.