Ferill 87. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 87 . mál.


90. Tillaga til þingsályktunarum endurskoðun slysabóta sjómanna samkvæmt siglingalögum.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón Guðmundsson.    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd til þess að endurskoða reglur um bótarétt íslenskra sjómanna vegna líkamstjóns. Í nefndinni skulu m.a. eiga sæti fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna, Siglingamálastofnunar, rannsóknarnefndar sjóslysa, Sambands íslenskra tryggingafélaga og fleiri.

Greinargerð.


    Samkvæmt 172. gr. siglingalaga ber útgerðarmaður ábyrgð á kröfum vegna lífs- eða líkamstjóns þeirra sem ráðnir eru í skiprúm hjá honum hafi slys borið að höndum þegar hlutaðeigandi var staddur á skipi eða vann í beinum tengslum við rekstur skips enda þótt slysið eða tjónið verði ekki rakið til sakar útgerðarmanns. Samkvæmt lagagreininni ber útgerðarmaður því hlutlæga ábyrgð (þ.e. ábyrgð án sakargrundvallar) með nánari skilmálum vegna lífs- eða líkamstjóns skipverja hans og er hann þá jafnframt með lagaráðstöfun hvattur til að kaupa tryggingar í þessu skyni.
    Í 2. mgr. 172. gr. segir að útgerðarmanni sé skylt að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum eftir nánari reglum. Í lagagreininni eru nefndar ákveðnar fjárhæðir en samkvæmt niðurlagi greinarinnar taka þær fjárhæðir breytingum í samræmi við laun Dagsbrúnarverkamanna.
    Samkvæmt 173. og 174. gr. siglingalaga hefur útgerðarmaður rétt til að takmarka ábyrgð sína eftir ákveðnum reglum. Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 175. gr. laganna nær þessi takmörkun ábyrgðar ekki til krafna vegna tjóns á mönnum eða munum sem þeir verða fyrir sem ráðnir eru hjá útgerðarmanni eða ábyrgðarmanni útgerðar og sem rækja starf í þágu skips eða í sambandi við björgun, þó þannig að verði lífs- eða líkamstjón á mönnum sem ráðnir eru í skiprúm hjá útgerðarmanni með þeim hætti sem frá er greint í 1. mgr. 172. gr. takmarkast hin hlutlæga bótaábyrgð útgerðarmanns við þær fjárhæðir sem um ræðir í 2. mgr. greinarinnar. Er í þessu efni byggt á sömu reglu og var í 2. mgr. 205. gr. eldri laga um hlutlæga ábyrgð útgerðarmanns á vinnuslysum. Hún veitti sjómönnum umtalsverða réttarbót frá því sem leiðir af almennum bótareglum.
    Með þessari hlutlægu ábyrgðarreglu var komið á samræmi milli sjómanna og landverkafólks. Hluti af bótarétti landverkafólks vegna lífs- og líkamstjóns byggir á ákvæðum kjarasamninga um hlutlæga ábyrgð atvinnurekanda, þ.e. hinni svokölluðu slysatryggingu launþega. Í siglingalögum, eins og í almennum kjarasamningum, er þeirri reglu fylgt að útgerðarmanni sé skylt að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum eins og áður segir. Hin hlutlæga ábyrgð eða slysatryggingin er hjá íslenskum launþegum í öllum tilfellum takmörkuð við þak eða hámarksfjárhæð en útilokar ekki frekari bótaábyrgð á grundvelli sakar ef sök sannast. Ábyrgð útgerðarmanns á sakargrundvelli á þess háttar tjóni lýtur hins vegar ekki takmörkun, sbr. 5. tölul. 175. gr., sem þýðir í raun að sjómenn verða eins og landverkafólk að sækja bætur umfram hina hlutlægu ábyrgð eftir reglum skaðabótaréttarins. Í þeirri stöðu verður launþeginn, sjómaðurinn, að sanna sök atvinnurekandans. Bótaábyrgð fellur ekki á útgerðarmann án sakar hans eða starfsmanna hans, þ.e. án ásetnings eða gáleysis eftir reglum skaðabótaréttarins. Takist launþega ekki að sanna þessa sök fær hann ekki tjón sitt bætt að öðru leyti en sem nemur hinni hlutlægu ábyrgðarreglu og er það oftast aðeins lítill hluti heildartjónsins. Undir óbætt tjón falla öll þau fjölmörgu tilvik þegar slys verða fyrir óhappatilviljun og gildir í því efni það sama á sjó og í landi. Vinnuslys starfsmanna vegna óhappatilvika eru aðeins bætt að litlu leyti samkvæmt íslenskum rétti. Hinir slösuðu verða þá að bera tjón sitt sjálfir.
    Það sem veldur því hins vegar að þessu máli er hreyft með þessari þingsályktunartillögu er að slys á sjó eru langtum algengari en slys í landi og miklu oftar verða þau rakin til óhappatilvika en í landi. Að sögn kunnugra verða vinnuslys í landi oftast vegna vanbúnaðar, leiðbeiningarskorts og gáleysis. Í sjómennsku er hins vegar meira um óhöpp sem eiga rætur að rekja til þess að sjómannsstarfið er hættulegra en störf í landi, vinnustaðurinn og hreyfing sjávarins er hættulegri lífi og limum sjómanna en vinnustaðir landverkafólks. Hlutlæg ábyrgð atvinnurekenda vegna hættulegs atvinnurekstrar hefur ekki verið viðurkennd í íslenskum skaðabótarétti til þessa. Venjulegt sakarmat er lagt til grundvallar hvort sem um er að ræða t.d. skrifstofustarf sem hefur engar sjáanlegar hættur í för með sér fyrir starfsmenn eða starf á skipi með tröllauknum og fjölbreytilegum vélbúnaði þar sem aðgátar er þörf við hvert fótmál.
    Tilgangur nefndarskipunar af því tagi sem hér er ráð fyrir gert er sá að kanna bótarétt sjómanna með framangreint í huga og leggja fram tillögur til úrbóta. Samkvæmt framansögðu er varla um annað en tvennt að ræða, annars vegar að hækka hlutfall hinnar hlutlægu ábyrgðar skv. 172. gr. siglingalaga, sbr. 5. tölul. 175. gr., eða með þeim hætti að gera ábyrgð útgerðarmanns vegna vinnuslysa hlutlæga að öllu eða verulegu leyti með breyttri skaðabótareglu vegna hættulegs atvinnurekstrar og breyttri sönnunarreglu vegna fjölda óhappatilvika sem ekki eru bótaskyld samkvæmt núgildandi reglu.