Ferill 101. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 101 . mál.


104. Frumvarp til lagaum öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)1. gr.


    Nú er mál rekið fyrir héraðsdómstóli þar sem þarf að taka afstöðu til skýringar á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum er getið og getur þá dómari í samræmi við 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls kveðið upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því atriði málsins áður en málinu er ráðið til lykta.
    Hvort sem aðili máls krefst að álits verði leitað skv. 1. mgr. eða dómari telur þess þörf án kröfu skal dómari gefa aðilum kost á að tjá sig áður en úrskurður verður kveðinn upp.
     Kæra má úrskurð héraðsdómara skv. 1. mgr. til Hæstaréttar eftir almennum reglum laga um meðferð einkamála eða meðferð opinberra mála eftir því sem á við. Kæra frestar frekari aðgerðum samkvæmt úrskurðinum.

2. gr.


    Með sama hætti og segir í 1. og 2. mgr. 1. gr. getur Félagsdómur leitað álits EFTA-dómstólsins um atriði mála sem eru rekin þar. Úrskurður þess efnis verður ekki kærður til Hæstaréttar.
     Hæstiréttur getur jafnframt kveðið upp úrskurð eins og að framan segir.

3. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningur um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta, sem samið er í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til að fylgja frumvarpi til breytinga á lögum á sviði þess til aðlögunar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið, var lagt fram á 116. löggjafarþingi. Frumvarpið hlaut þá ekki afgreiðslu og er nú endurflutt óbreytt að því undanskildu að vísun til siglingadóms er felld niður enda hafa ákvæði um þann dómstól verið felld úr gildi með lögum um eftirlit með skipum, nr. 35 30. apríl 1993.
     Þetta frumvarp er flutt vegna ákvæða 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Þar er kveðið á um lögsögu EFTA-dómstólsins til þess að gefa ráðgefandi álit um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Segir þar að komi álitaefni upp í þessu sambandi við rekstur máls fyrir dómstóli í EFTA-ríki geti hann leitað eftir slíku ráðgefandi áliti enda telji hann nauðsynlegt að afla þess til að geta leyst úr máli. EFTA-ríkjunum er veitt heimild í ákvæðinu til að takmarka rétt dómstóla sinna til að leita álits sem þessa við þá dómstóla sem kveða upp úrlausnir sem sæta ekki málskoti samkvæmt landslögum.
     Vegna þessa samningsákvæðis verður að festa í lög heimild handa íslenskum dómstólum til að leita með framangreindum hætti ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í tengslum við rekstur dómsmáls hér á landi. Vafaatriði í dómsmáli, sem álit af þessum toga getur varðað, geta beinst að skýringu á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, auk bókana með honum, viðauka við hann eða gerða sem er getið í viðaukunum. Getur reynt á þetta bæði við rekstur einkamáls fyrir dómi hér á landi og opinbers máls, auk þess sem vafaatriðin geta verið uppi hvort heldur við rekstur máls fyrir héraðsdómi, Hæstarétti eða sérdómstóli. Til að koma fram nauðsynlegum lagaheimildum um þetta væri út af fyrir sig unnt að leggja til breytingar á öðrum lögum og taka þannig m.a. upp ákvæði í lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991, lög um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, og lög um Hæstarétt Íslands, nr. 75/1973, þar sem væri hverju sinni mælt fyrir um heimildina á hverjum vettvangi fyrir sig til að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um áðurgreind atriði. Sú leið er hins vegar þung í vöfum og verður að telja til einföldunar að setja í einu lagi lög af þessu tilefni sem nái jöfnum höndum til ólíkra tegunda mála og ólíkra dómstóla eins og er lagt til með þessu frumvarpi.
    Eins og áður segir er lagt á vald einstakra EFTA-ríkja að ákveða hvort heimildin til að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins verði bundin við þá dómstóla sem kveða upp endanlega dóma eða verði einnig veitt öðrum dómstólum. Í þessu frumvarpi er sú leið valin að leggja til að héraðsdómstólum verði veitt þessi heimild til jafns við Hæstarétt að því gættu að ákvörðun héraðsdómara um þetta mætti kæra til Hæstaréttar skv. 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Þetta er lagt til í ljósi þess að eftir almennum réttarfarsreglum á að leitast við að leysa úr máli á grundvelli sömu gagna og röksemda fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, en á því yrði brestur ef fyrst væri unnt að leita álits EFTA-dómstólsins í þessum efnum undir rekstri máls fyrir Hæstarétti. Þá verður einnig að taka tillit til þess að Félagsdómur kveður upp endanlega dóma á sínu sviði en á vettvangi hans getur reynt á atriði sem lúta að skýringu EES-reglna og verður því samkvæmt beinum orðum 34. gr. samningsins að gera ráð fyrir þessum kosti við rekstur máls fyrir þeim dómstóli.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. 1. gr. er greint frá þeim aðstæðum sem geta leitt til þess að dómstóll hér á landi leiti eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í samræmi við 34. gr. áðurnefnds samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Er þessu lýst þannig að tilefni geti verið uppi til þessa ef vafi er um skýringu á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem er getið í viðaukunum og á vafaatriðið reynir við úrlausn dómsmáls hér. Undir þeim kringumstæðum er héraðsdómara heimilað að leita álits EFTA-dómstólsins og verður í því sambandi að gefa því gætur að hér er aðeins rætt um heimild í þessum efnum en ekki skyldu. Álitið á aðeins að vera ráðgefandi eins og segir í 1. mgr. 1. gr. og bindur það því ekki héraðsdómara við úrlausn máls þótt vissulega verði að telja að eftir því yrði að öðru jöfnu farið að því leyti sem úrlausnin veltur á álitaefninu.
     Af 2. mgr. 1. gr. leiðir að héraðsdómari gæti bæði tekið til greina kröfu annars eða beggja málsaðila um að leita álits EFTA-dómstólsins um atriði máls og að hann gæti ákveðið að þessi leið verði farin án kröfu. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 1. gr. verður héraðsdómari á hvorn veginn sem er að kveða upp sérstakan úrskurð um að leita álitsins og gildir einu hvort ágreiningur er uppi um það eða aðilarnir einhuga, en áður ber honum að gefa þeim kost á að tjá sig um þörfina á því. Í frumvarpinu er ekki að finna nánari reglur um aðgerðir héraðsdómara ef niðurstaða hans verður sú að álitsins verði leitað en gengið er út frá því að framkvæmdaratriði varðandi t.d. sendingu máls til EFTA-dómstólsins komi til með að ráðast af reglum hans.
     Af ákvæðum 1. gr. má ráða að ætlast er til að rekstri máls verði frestað fyrir héraðsdómi þar til álit EFTA-dómstólsins er fengið. Bið eftir álitinu gæti orðið til að tefja fyrir úrlausn máls og verður því að telja eðlilegt að mæla fyrir um heimild málsaðila, sem vill ekki fella sig við afstöðu héraðsdómara, til að kæra úrskurð hans til Hæstaréttar. Kæruheimildin í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins er þó ekki bundin við þau tilvik þar sem héraðsdómari úrskurðar að álits EFTA-dómstólsins verði leitað heldur nær hún einnig til úrskurðar um gagnstæða niðurstöðu hans.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. er kveðið á um sömu heimildir til að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins við rekstur máls fyrir Félagsdómi og Hæstarétti og er mælt fyrir um í 1. gr. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. yrði úrskurðum Félagsdóms um þetta ekki skotið til Hæstaréttar.

Um 3. gr.


    Í þessari grein er mælt fyrir um gildistöku og þarfnast hún ekki sérstakra skýringa.