Ferill 103. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 103 . mál.


106. Frumvarp til laga



um breyting á ýmsum lögum sem varða réttarfar, atvinnuréttindi o.fl. vegna aðildar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



I. KAFLI


Lög um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns, nr. 74 11. júní 1938.


1. gr.


    Á 1. mgr. 2. gr. laganna verða svofelldar breytingar:
    1. tölul. verður svohljóðandi: Löggiltur niðurjöfnunarmaður sjótjóns skal hafa lögheimili hér á landi, vera lögráða og fullra 25 ára og hafa forræði á búi sínu.
    Við 2. tölul. bætist eftirfarandi: eða sambærilegt próf við annan háskóla.

2. gr.


    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr., svohljóðandi:
     Ákvæði 2., 3. og 4. tölul. 1. mgr. gilda ekki um mann sem hefur fengið löggildingu eða aðra opinbera heimild til að annast niðurjöfnun sjótjóns í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.

II. KAFLI


Almenn hegningarlög, nr. 19 12. febrúar 1940.


3. gr.


    Við 6. gr. laganna bætist nýr töluliður sem verður 8. tölul., svohljóðandi:
 8.     Fyrir rangan eiðfestan framburð fyrir EFTA-dómstólnum, enda krefjist dómstóllinn saksóknar.

III. KAFLI


Lög um málflytjendur, nr. 61 4. júlí 1942.


4. gr.


    Á 3. gr. laganna verða svofelldar breytingar:
    Á eftir orðinu „lögum“ í 1. málsl. bætast við orðin: við Háskóla Íslands.
    Við greinina bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr., svohljóðandi:
                  Í stað embættisprófs skv. 1. mgr. getur komið sambærilegt próf við annan háskóla, enda hafi hlutaðeigandi næga þekkingu á íslenskum lögum. Dómsmálaráðherra leggur mat á hvort því skilyrði sé fullnægt. Dómstóli verður ekki tilkynnt um töku fulltrúa skv. 1. mgr. nema fyrir liggi vottorð ráðherra um þetta skilyrði.

5. gr.


    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 5. mgr., svohljóðandi:
     Við dómstóla, þar sem einkaréttur til málflutnings gildir, getur aðili falið manni, sem hefur hlotið heimild til að flytja mál við sambærilega dómstóla í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, að flytja mál sitt, enda starfi hann að málinu með héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni. Dómsmálaráðherra getur sett nánari reglur um slík störf erlendra málflytjenda hér á landi.

6. gr.


    Á 9. gr. laganna verða svofelldar breytingar:
    4. tölul. 1. mgr. fellur niður.
    Í 5. tölul. 1. mgr. falla niður orðin „jafngildu prófi í öðrum háskólum samkvæmt íslenzkum lögum“, en í stað þeirra kemur: sambærilegu prófi við annan háskóla og hafi næga þekkingu á íslenskum lögum.
    Á eftir orðinu „vottorð“ í 7. tölul. 1. mgr. bætist við orðið: dómsmálaráðherra.
    Við greinina bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr., svohljóðandi:
                  Dómsmálaráðherra getur sett reglur um veitingu leyfis til málflutnings á grundvelli hliðstæðra réttinda í öðru ríki.

7. gr.


    Á 14. gr. laganna verða svofelldar breytingar:
    4. tölul. 1. mgr. fellur niður.
    Í 5. tölul. 1. mgr. falla niður orðin „jafngildu prófi í öðrum háskólum samkvæmt íslenzkum lögum“, en í stað þeirra kemur: sambærilegu prófi við annan háskóla og hafi næga þekkingu á íslenskum lögum.
    Við greinina bætist ný málsgrein sem verður 4. mgr., svohljóðandi:
                  Dómsmálaráðherra getur sett reglur um veitingu leyfis til málflutnings á grundvelli hliðstæðra réttinda í öðru ríki.

IV. KAFLI


Lög um prentrétt, nr. 57 10. apríl 1956.


8. gr.


    Á 10. gr. laganna verða svofelldar breytingar:
    1. mgr. verður svohljóðandi:
                  Útgefandi blaðs eða tímarits, sem er gefið út hér á landi, skal vera lögráða og hafa lögheimili hér á landi og forræði á búi sínu eða félag eða annar lögaðili sem á heimili hér á landi.
    2. mgr. verður svohljóðandi:
                  Ritstjóri blaðs eða tímarits skal vera lögráða og hafa lögheimili hér á landi og forræði á búi sínu.

9. gr.


    Í 11. gr. laganna falla niður orðin „íslenskum ríkisborgara eða ópersónulegum aðilja“, en í stað þeirra kemur: manni eða ópersónulegum aðila, sem á heimili hér á landi.

V. KAFLI


Lög um eftirlit með útlendingum, nr. 45 12. maí 1965.


10. gr.


    Í 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna fellur niður orðið „dómsmálaráðherra“, en í stað þess kemur: útlendingaeftirlitsins.

11. gr.


    4. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Útlendingaeftirlitið veitir þau leyfi sem þarf til landgöngu og dvalar samkvæmt lögum þessum.
     Dómsmálaráðherra getur veitt lögreglustjórum heimild til útgáfu slíkra leyfa, svo og sendiherrum og ræðismönnum Íslands erlendis.

12. gr.


    6. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. mgr. 5. gr. mega útlendingar, sem falla undir reglur samnings um Evrópska efnahagssvæðið um frjálsa fólksflutninga, sbr. 2. mgr., koma til landsins án sérstaks leyfis og dveljast hér í allt að þrjá mánuði frá því þeir komu til landsins. Ákvæðum 10.–13. gr. skal því aðeins beita gagnvart slíkum útlendingum að það samrýmist þeim reglum.
     Dómsmálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd reglna samnings um Evrópska efnahagssvæðið um frjálsa fólksflutninga sem varða undanþágu frá vegabréfsáritun og takmörkunum á heimild til komu til landsins og dvöl.

13. gr.


    Á 10. gr. laganna verða svofelldar breytingar:
    Í 2. málsl. 4. mgr. fellur niður orðið „dómsmálaráðherra“, en í stað þess kemur: útlendingaeftirlitið.
    Í 1. málsl. 5. mgr. fellur niður orðið „dómsmálaráðherra“, en í stað þess kemur: útlendingaeftirlitsins.
    Í 2. málsl. 5. mgr. fellur niður orðið „ráðherra“, en í stað þess kemur: útlendingaeftirlitsins.

14. gr.


    Á 11. gr. laganna verða svofelldar breytingar:
    Í upphafi 1. mgr. fellur niður orðið „Dómsmálaráðherra“, en í stað þess kemur: Útlendingaeftirlitinu.
    2. mgr. verður svohljóðandi:
                  Nú er heimilt að vísa útlendingi úr landi og getur þá útlendingaeftirlitið, ef ástæður mæla með því, lagt fyrir hann að verða brott úr landi innan tiltekins frests, enda sjái lögreglan um að þeim fyrirmælum verði hlýtt.

15. gr.


    Í 3. mgr. 12. gr. laganna fellur niður orðið „dómsmálaráðherra“, en í stað þess kemur: útlendingaeftirlitsins.

16. gr.


    Á eftir 12. gr. laganna kemur ný grein sem verður 12. gr. a, svohljóðandi:
     Útlendingur má kæra til dómsmálaráðherra:
    Ákvörðun um að synja honum um dvalarleyfi.
    Ákvörðun um brottfall eða afturköllun dvalarleyfis.
    Ákvörðun eða úrskurð um að vísa honum úr landi.
    Úrskurð skv. 4. mgr. 10. gr.
     Útlendingi skal leiðbeint um kæruheimild skv. 1. mgr. þegar honum er kynnt ákvörðun eða úrskurður.
     Nú vill útlendingur nýta heimild til kæru og skal hann þá lýsa kæru yfir innan 15 daga frá því honum var kynnt ákvörðun eða úrskurður fyrir þeim sem það gerir. Ef kæru er lýst yfir áður en ákvörðun eða úrskurði er framfylgt með brottvikningu úr landi frestast framkvæmd þeirrar aðgerðar þar til úrskurður ráðherra er fenginn.

17. gr.


    Í 2. mgr. 14. gr. laganna fellur niður orðið „dómsmálaráðherra“, en í stað þess kemur: útlendingaeftirlitinu.

18. gr.


    Í 2. mgr. 15. gr. laganna fellur niður orðið „ráðherra“, en í stað þess kemur: útlendingaeftirlitinu.

19. gr.


    1. mgr. 20. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Útlendingaeftirlitið er sérstök stofnun sem lögreglustjórinn í Reykjavík veitir forstöðu.

VI. KAFLI


Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19 6. apríl 1966.


20. gr.


    2. mgr. 1. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Ráðherra veitir leyfi til að víkja frá skilyrðum 1. mgr.:
    Samkvæmt umsókn frá þeim sem hefur rétt til að stunda atvinnurekstur hér á landi og vill öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni eða til að halda þar heimili.
    Ef annars þykir ástæða til.

21. gr.


    3. mgr. 1. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Leggja skal fyrir ráðherra samninga, afsöl eða önnur heimildarskjöl vegna eignar- og afnotaréttinda sem eru háð leyfi skv. 2. mgr. og öðlast gerningurinn ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest hann með áritun sinni. Í reglugerð má kveða nánar á um form og efni umsóknar um þetta.

22. gr.


    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, 4. mgr., svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 1.–3. mgr. þarf ekki að afla leyfis ráðherra:
    Þegar um er að ræða leigu á fasteign eða réttindi yfir henni og leigutími eða annar réttindatími er þrjú ár eða skemmri eða uppsögn áskilin með ekki lengri en árs fyrirvara.
    Þegar sá sem í hlut á nýtur réttar hér á landi samkvæmt reglum samnings um Evrópska efnahagssvæðið um frjálsa fólksflutninga, staðfesturétt eða þjónustustarfsemi. Ráðherra setur nánari reglur um til hvaða fasteigna þessi réttur tekur og framkvæmd réttarins að öðru leyti.

23. gr.


    3. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Nú er beiðst þinglýsingar á skjali sem kveður á um réttindi sem leyfi þarf til skv. 1. gr. eða eru undanþegin leyfi skv. 2. tölul. 4. mgr. 1. gr. og skal þá synjað þinglýsingar uns sannað er að leyfis sé aflað eða skilyrði séu fyrir undanþágu.

VII. KAFLI


Lög um fasteigna- og skipasölu, nr. 34 5. maí 1986.


24. gr.


    Á 1. mgr. 2. gr. laganna verða svofelldar breytingar:
    1. tölul. fellur niður.
    Í 4. tölul. fellur niður orðið „dómsmálaráðuneytið“, en í stað þess kemur: dómsmálaráðherra.

25. gr.


    Í 2. gr. laganna kemur ný málsgrein sem verður 3. mgr., svohljóðandi:
     Í reglugerð, sem dómsmálaráðherra setur um prófraun skv. 4. tölul. 1. mgr., er einnig heimilt að kveða á um undanþágu frá henni að hluta eða með öllu handa þeim sem hafa fengið leyfi eða heimild til að starfa við fasteigna- eða skipasölu eða málflutning í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
     Núverandi 3. mgr. 2. gr. laganna verður 4. mgr. 2. gr.

VIII. KAFLI


Lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92 1. júní 1989.


26. gr.


    Í 6. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna falla niður orðin „prófi við annan háskóla sem metið er jafngilt lögum samkvæmt“, en í stað þeirra kemur: sambærilegu prófi við annan háskóla og hafi næga þekkingu á íslenskum lögum.

IX. KAFLI


Lög um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991.


27. gr.


    Við 76. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
     2. Þá skal ákvæðum 75. gr. einnig beitt eftir því sem getur átt við þegar gagna er aflað fyrir héraðsdómi hér á landi í tengslum við rekstur máls erlendis, þar á meðal fyrir EFTA-dómstólnum.
     Framan við núverandi 76. gr. kemur: 1.

X. KAFLI


Gildistaka.


28. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningur um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta sem samið er í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til breytinga á lögum á sviði þess til aðlögunar samningi um Evrópska efnahagssvæðið var lagt fram á 116. löggjafarþingi. Frumvarpið hlaut þá ekki afgreiðslu og er nú endurflutt óbreytt að því undanskildu að 26. gr. þess, um breytingu á umferðarlögum, er felld niður en því ákvæði sem þar átti að breyta hefur nú verið breytt með 12. gr. laga nr. 44 7. maí 1993, um breytingu á umferðarlögum, nr. 50. 30. mars 1987.
     Helstu forsendurnar fyrir breytingunum, sem frumvarpið miðar að, eru eftirfarandi:
    Í III. hluta samnings um Evrópska efnahagssvæðið er gert ráð fyrir þeirri aðalreglu að þegnar annarra ríkja, sem njóta réttinda samkvæmt samningnum, verði jafnsettir innlendum þegnum á hverjum stað, m.a. varðandi atvinnuréttindi og heimildir til fjárfestingar, auk þess að njóta vissra réttinda til ferða og dvalar í samningsríkjunum. Ákvæði samningsins í þessum efnum leiða af sér nauðsyn á breytingum á lögum á sviði ráðuneytisins og þá einkum í tvennu tilliti. Annars vegar eru í nokkrum lögum skilyrði um íslenskan ríkisborgararétt til að geta notið tiltekinna réttinda, einkum starfsréttinda, sem verður að laga að ákvæðum samningsins en þó að teknu tilliti til þess að eftir sem áður má áskilja íslenskt ríkisfang m.a. sem skilyrði embættisgengis til opinberra starfa, sbr. 28. gr. samningsins. Með lögum um breytingu á lagaákvæðum er varða fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri o.fl., nr. 23/1991, var ýmsum lögum á þessum vettvangi breytt á þann veg að erlendir ríkisborgarar, sem hafa átt lögheimili hér á landi í minnst eitt ár, urðu jafnsettir íslenskum ríkisborgurum. Til samræmis við samning um Evrópska efnahagssvæðið verður á hinn bóginn að rýmka ýmsar þessar heimildir. Rétt er að taka fram að í ýmsum ákvæðum frumvarpsins er ráðgert að skilyrði um lögheimili komi í stað þessara eldri skilyrða án þess að sú rýmkun sé bundin við útlendinga sem geta notið réttinda hér á landi á grundvelli samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Hins vegar er nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á lögum um eftirlit með útlendingum vegna þessa samnings varðandi heimildir þeirra til að koma til landsins og dveljast hér og meðferð mála, sem að þessu snúa, fyrir stjórnvöldum.
    Gera verður breytingar á nokkrum lögum á sviði ráðuneytisins til samræmis við tilskipun 89/48/EBE um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár. Vegna þessarar tilskipunar ber að viðurkenna slíka menntun sem hefur verið fengin í öðru aðildarríki að samningi um Evrópska efnahagssvæðið þar sem sérfræðimenntun er á annað borð áskilin til að iðka lögverndaða starfsgrein eftir atvikum með skilyrði um aðlögunartíma eða hæfnispróf. Á sviði ráðuneytisins reynir einkum á þetta í löggjöf þar sem skilyrði eru sett fyrir réttindum eða starfsgengi um embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Þegar breytingar eru gerðar á slíkum lagaákvæðum til samræmis við áðurnefnda tilskipun verður að taka tillit til þess að ekki eru fyrir hendi neinar almennar reglur um viðurkenningu erlendrar menntunar í lögfræði gagnstætt því sem á við um ýmsa aðra háskólamenntun. Er sú leið því farin að leggja hér til breytingar á hverri löggjöf fyrir sig þar sem innlent embættispróf í lögum hefur verið áskilið og þá ráðgert að erlent lagapróf geti komið í staðinn eftir atvikum með áskilnaði um næga þekkingu á íslenskum lögum sem verður staðreynd með misjöfnum hætti á einstökum sviðum. Rétt er að taka fram að samkvæmt frumvarpinu eru breytingar í þessum efnum ekki bundnar við viðurkenningu á lögfræðimenntun sem hefur verið fengin í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Ákvæði frumvarpsins miða að auki að nokkru marki að breytingum á löggjöf á sviði ráðuneytisins sem varðar leyfisbundna þjónustustarfsemi málflutningsmanna, fasteigna- og skipasala og niðurjöfnunarmanna sjótjóns. Auk breytinga, sem leiðir beinlínis af áðurnefndri tilskipun 89/48/EBE, gætir hér áhrifa af tilskipun 67/43/EBE varðandi réttindi til að veita þjónustu við fasteignasölu og tilskipun 77/249/EBE varðandi lögmenn.
    Í samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls er m.a. kveðið á um tilvist og störf EFTA-dómstólsins en samningurinn og bókanir með honum leiða af sér þörf á breytingum laga á sviði ráðuneytisins að tvennu leyti. Annars vegar er ráðgert í 34. gr. samningsins að innlendir dómstólar geti leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á samningi um Evrópska efnahagssvæðið þegar á hana reynir við úrlausn dómsmáls en slíks álits verður þá aflað undir rekstri máls sem frestast þar til álitið er fengið. Örðugleikum er háð að fella fyrirmæli um slíka álitsöflun inn í gildandi réttarfarslög enda getur hún komið til við rekstur mála af mismunandi sviðum og fyrir fleiri en einum dómstóli sem fleiri en ein lög taka til. Í stað þess að breyta mörgum lögum til að koma við ákvæðum um öflun álits af þessum toga á hverjum stað hefur sú leið verið farin að semja sérstakt frumvarp til laga um þetta efni sem er flutt samhliða þessu frumvarpi. Hins vegar er í bókun 5 með samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls að finna stofnsamþykkt EFTA-dómstólsins en í 25. og 26. gr. bókunarinnar koma fram reglur um gagnaöflun fyrir dómstólnum sem kosta tvenns konar breytingar á lögum á sviði ráðuneytisins. Gert er ráð fyrir þeim breytingum í II. og X. kafla þessa frumvarps.
    Með þessu frumvarpi er lagt til að eftirtöldum lögum verði breytt:
—    Lög um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns, nr. 74/1938.
—    Almenn hegningarlög, nr. 19/1940.
—    Lög um málflytjendur, nr. 61/1942.
—    Lög um prentrétt, nr. 57/1956.
—    Lög um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965.
—    Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966.
—    Lög um fasteigna- og skipasölu, nr. 34/1986.
—    Lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989.
—    Lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
     Að auki er ráðgert sem áður segir að samhliða þessu frumvarpi verði flutt frumvarp til sérstakra laga um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Með þessu eru þá komin fram frumvörp um lagabreytingar á sviði ráðuneytisins vegna aðildar Íslands að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.


    Í þessum ákvæðum frumvarpsins eru lagðar til þrjár breytingar á lögum nr. 74/1938, um löggilta niðurjöfnunarmenn sjótjóns. Í fyrsta lagi er ráðgert í 1. tölul. 1. gr. að skilyrði í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna fyrir löggildingu niðurjöfnunarmanns sjótjóns um íslenskan ríkisborgararétt eða lögheimili hér á landi í eitt ár, sbr. 3. gr. laga nr. 23/1991, verði felld niður en í stað þeirra verði aðeins áskilið lögheimili hér án tillits til ríkisfangs eða fyrri búsetu. Þessi breyting er lögð til í samræmi við áðurnefnd ákvæði samnings um Evrópska efnahagssvæðið, sem leiðir af sér nauðsyn á afnámi skilyrða af þessum toga en rétt er að taka fram að eftir hljóðan 1. tölul. 1. gr. frumvarpsins er ekki um sérreglu að ræða varðandi þá eina sem geta notið réttinda hér á landi á grundvelli samningsins. Í öðru lagi er miðað að því með 2. tölul. 1. gr. að eldra fortakslaust skilyrði fyrir löggildingu niðurjöfnunarmanns um embættispróf í lögum frá Háskóla Íslands verði breytt á þann veg að sambærilegt próf við annan háskóla geti komið í staðinn. Þessi breyting á rætur að rekja til áðurnefndrar tilskipunar 89/48/EBE en hún er þó ekki bundin við það að aðeins komi til álita að viðurkenna lagapróf frá háskóla í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þriðja lagi er síðan ráðgert í 2. gr. frumvarpsins að maður, sem hefur fengið löggildingu sem niðurjöfnunarmaður sjótjóns eða sambærilega starfsheimild í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, geti í raun fengið þá starfsheimild sína viðurkennda hér á landi með því að leita hér löggildingar með öðrum skilyrðum en gilda endranær. Með 2. gr. frumvarpsins er þannig vikið frá almennum kröfum í 1. mgr. 2. gr. laganna um menntun og starfsþjálfun í tilvikum sem þessum og byggt á því að minni kröfur séu ekki gerðar í þeim efnum í öðrum samningsríkjum en gilda hér sem skilyrði fyrir löggildingu.

Um 3. gr.


    Í bókun 5 um stofnsamþykkt EFTA-dómstólsins, sem fylgir samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, ESE-samningnum, er m.a. gengið út frá því að dómstóllinn geti þurft á framburði vitnis eða sérfræðings að halda við úrlausn máls en til að afla slíks framburðar eru tveir kostir ráðgerðir. Annars vegar er í 25. gr. stofnsamþykktarinnar kveðið á um heimildir dómstólsins til að krefjast þess að maður gefi slíka skýrslu fyrir dómstóli á búsetustað sínum en til að mæta þeim þörfum eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, í 28. gr. frumvarpsins. Hins vegar er í 23. gr. samþykktarinnar byggt á því að vitnaleiðslur fari fram fyrir dómstólnum sjálfum í samræmi við starfsreglur dómstólsins. Þær starfsreglur skulu skv. 43. gr. ESE-samningsins settar af dómstólnum og samþykktar af EFTA-ríkjunum og liggja því ekki fyrir. Í tengslum við þetta er ákvæði 26. gr. samþykktarinnar sem orðast þannig í íslenskri þýðingu:
     „Reynist vitni óáreiðanlegt eða rjúfi vitni eða sérfræðingur eið skal EFTA-ríki fara með slíkt brot á sama hátt og brot gegn dómstóli sínum á sviði einkaréttar. Hlutaðeigandi EFTA-ríki skal í því tilviki fara í mál við viðkomandi fyrir þar til bærum dómstóli.“
    Þessi þýðing er ekki í samræmi við frumtexta greinarinnar en þar segir í endurskoðaðri þýðingu að EFTA-ríki skuli fara á sama hátt með vitni sem ekki fullnægir vitnaskyldu sinni og vitni eða sérfræðing sem gefur rangan eiðfestan framburð og brotið hefði verið framið við meðferð einkamáls fyrir dómstóli í ríkinu og ber viðkomandi EFTA-ríki þá eftir kröfu dómstólsins að saksækja þann sem brotið hefur af sér fyrir þar til bærum dómstóli sínum. Samkvæmt þessu ber að tryggja það með innlendri löggjöf að vitni, sem ekki sinnir vitnaskyldu sinni fyrir EFTA-dómstólnum eða vitni eða sérfræðingur sem gefur þar ranga skýrslu að unnum eiði, sæti sömu viðurlögum fyrir það eins og hann hefði sýnt af sér sömu háttsemi gagnvart íslenskum dómstóli við rekstur einkamáls enda krefjist þá EFTA-dómstóllinn saksóknar.
     Þörfin á breytingum á íslenskri löggjöf vegna umræddra ákvæða 26. gr. stofnsamþykktarinnar er takmörkuð. Í fyrsta lagi er í stofnsamþykktinni ekki að finna skyldu á hendur vitni til að mæta fyrir EFTA-dómstólnum til skýrslugjafar. Í öðru lagi er þess að geta að þó að slík skylda væri fyrir hendi liggja engin refsiviðurlög við því að íslenskum lögum að vitni sinni ekki kvaðningu um að koma fyrir dóm til skýrslugjafar í einkamáli, heldur verður brugðist við slíkri vanrækslu með því að lögregla færi vitnið fyrir dóm, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 91/1991, og loks er þess að geta að vitni, sem fullnægir ekki vitnaskyldu sinni að öðru leyti, verður aðeins beitt févíti, sbr. 2. mgr. 55. gr. laganna, sem ekki telst til refsiviðurlaga. Fyrir vikið krefja ákvæði 26. gr. stofnsamþykktar EFTA-dómstólsins ekki um lagabreytingar hér á landi í þessu tilliti.
     Á hinn bóginn er áskilið í nefndu ákvæði stofnsamþykktarinnar að unnt sé að saksækja mann fyrir rangan eiðfestan framburð fyrir EFTA-dómstólnum eftir kröfu dómstólsins með sama hætti og hefði slíkt brot verið drýgt við skýrslugjöf í einkamáli fyrir dómstóli hér á landi. Refsiákvæði vegna slíkrar háttsemi koma fram í 142. gr., sbr. 2. mgr. 143. gr. og 144. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Til þess að færa út gildissvið þeirra reglna, þannig að þær nái einnig til rangs framburðar fyrir EFTA-dómstólnum, er lagt til með 3. gr. frumvarpsins að nýju ákvæði verði bætt við 6. gr. laga nr. 19/1940 til að heimila að refsingu skv. 142.–144. gr. laganna verði beitt vegna slíks brots þótt það sé drýgt fyrir EFTA-dómstólnum og þar með utan íslenska ríkisins. Í samræmi við umrædd ákvæði 26. gr. stofnsamþykktar EFTA-dómstólsins er þó tekið fram í 3. gr. frumvarpsins að saksókn vegna þessa brots sé háð kröfu hans.

Um 4.–7. gr.


    Af þremur ástæðum er þörf á breytingum á lögum um málflytjendur, nr. 61/1942, í tengslum við aðild að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.
    Í fyrsta lagi er ekki unnt að setja það skilyrði fyrir veitingu leyfis til málflutnings fyrir héraðsdómi eða Hæstarétti að leyfishafinn þurfi að vera íslenskur ríkisborgari eða hafa átt hér lögheimili um tiltekinn tíma svo sem nú er gert í 9. og 14. gr. laganna eins og þeim var breytt með 4. gr. laga nr. 23/1991. Af þessum sökum er lagt til í 1. tölul. 6. gr. og 1. tölul. 7. gr. frumvarpsins að þessi skilyrði verði felld niður og þá hvorki krafist íslensks ríkisfangs né lögheimilis hér á landi til að öðlast málflutningsleyfi.
    Í öðru lagi gætir hér áhrifa af áðurnefndri tilskipun 89/48/EBE um viðurkenningu á erlendri sérfræðimenntun. Í 3., 9. og 14. gr. laga nr. 61/1942 er það skilyrði sett fyrir heimild til að starfa sem fulltrúi héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanns og fyrir veitingu málflutningsleyfis að hlutaðeigandi þurfi að hafa embættispróf í lögum frá Háskóla Íslands eða eftir atvikum jafngilt próf frá öðrum stað samkvæmt íslenskum lögum. Þessi skilyrði eru í andstöðu við umrædda tilskipun en hér má ítreka það sem áður segir að engar almennar reglur gilda hér á landi um viðurkenningu á lögfræðimenntun sem er fengin erlendis. Af þessum sökum er lagt til í 4., 6. og 7. gr. frumvarpsins að sambærilegt próf við íslenskt embættispróf í lögum geti komið að sama haldi í þessu tilliti en að auki er áskilið að lögfræðingur með slíka menntun þurfi að hafa næga þekkingu á íslenskum lögum svo sem er heimilt eftir reglum áðurnefndrar tilskipunar. Samkvæmt 3., 9. og 14. gr. laganna, eins og er lagt til að þeim verði breytt með þessum ákvæðum frumvarpsins, kæmi í hlut dómsmálaráðherra að meta hvort þessum áskilnaði sé fullnægt hverju sinni. Það má jafnframt benda hér á að eftir reglum frumvarpsins eru heimildir í þessum efnum ekki bundnar við þá sem hafa lokið prófi í lögfræði við háskóla í ríki á Evrópska efnahagssvæðinu enda er ástæðulaust að gera slíkan almennan greinarmun á menntunarstað fyrst stefnt er að viðurkenningu erlendrar menntunar til þessara þarfa.
     Í þriðja lagi miða ákvæði III. kafla frumvarpsins að því að samræma ákvæði laga nr. 61/1942 við þær kröfur sem verða leiddar af tilskipun 77/249/EBE um að auðvelda lögmönnum að neyta réttar til að veita þjónustu. Þær kröfur fela nánar tiltekið í sér að viðurkenna verður heimild lögmanna frá öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu til að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna hér á landi fyrir dómstólum eða stjórnvöldum en fyrir þessari heimild má þó setja skilyrði sem snúa m.a. að því að erlendur lögmaður beri sömu starfsskyldur og innlendur lögmaður, svo og að erlendur lögmaður hafi innlendan lögmann til samstarfs við sig við rekstur dómsmáls. Um þörfina á breytingum á lögum nr. 61/1942 af þessu tilefni verður að taka tillit til þess að lögin gera aðeins kröfu um málflutningsleyfi til að geta annast hagsmunagæslu og málflutning fyrir dómstólum en ekki til að geta t.d. veitt þjónustu við ráðgjöf, samningsgerð eða hagsmunagæslu fyrir stjórnvöldum. Jafnframt verður að líta til þess að málflutningsleyfis er aðeins þörf til að fara með mál manna fyrir tilteknum héraðsdómstólum og Hæstarétti, sbr. 3. og 4. mgr. 5. gr. laga nr. 61/1942, auk þess að í ákvæðum VI. kafla laga um meðferð opinberra mála er ekki krafist innlendra málflutningsréttinda til að maður geti annast málsvörn sakbornings í opinberu máli eða komið fram sem réttargæslumaður við rannsókn opinbers máls. Í þessu ljósi er unnt að takmarka breytingar á lögunum við þau atriði sem koma fram í 5. gr., 4. tölul. 6. gr. og 3. tölul. 7. gr. frumvarpsins. Þar er ráðgert að lögmaður frá öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu geti flutt mál fyrir dómstóli hér á landi þar sem annars hefði orðið að fela innlendum lögmanni starfið enda starfi þá héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmaður með honum að málinu. Að auki kemur þar fram heimild handa erlendum lögmanni til að leita eftir málflutningsleyfi hér á landi á grundvelli erlends leyfis síns og gerast þannig héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmaður. Um þessi atriði er ætlast til að dómsmálaráðherra setji nánari reglur í reglugerð þar sem yrði m.a. að taka af skarið um hvers konar málflutningsréttindi frá öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu komi hér til álita og hverjar skyldur hvíli á slíkum erlendum lögmönnum við flutning máls hér á landi. Í tengslum við þetta má að endingu minnast þess að í 1. mgr. 10. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, segir að þingmálið sé íslenska. Þeirri reglu væri að engu breytt með samþykki þessa frumvarps.

Um 8. og 9. gr.


    Í 8. og 9. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um breytingar á ákvæðum 10. og 11. gr. laga um prentrétt, nr. 57/1956, sbr. 6. gr. laga nr. 23/1991, þar sem hefur verið áskilið að útgefandi og ritstjóri blaðs eða tímarits sem er gefið út hér á landi og sá sem annast dreifingu rits þurfi að vera íslenskur ríkisborgari eða hafa átt hér lögheimili tiltekinn tíma eða eftir atvikum að vera íslenskt félag eða annar ópersónulegur aðili. Í stað þessara skilyrða er ætlast til þess með 8. og 9. gr. frumvarpsins að lögheimili einstaklings hér á landi nægi eða heimili lögaðila en þessara breytinga er þörf vegna ákvæða III. hluta samnings um Evrópska efnahagssvæðið sem var getið hér á undan í almennum athugasemdum við frumvarpið. Rétt er að taka fram að í þessum ákvæðum er ekki gerður greinarmunur á erlendum mönnum eftir því hvort þeir eru ríkisborgarar í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu eða annars staðar.

Um 10.–19. gr.


    Samningur um Evrópska efnahagssvæðið felur í sér að þær reglur, sem gilda innan Evrópubandalagsins um frjálsa fólksflutninga, skulu gilda innan EES. Eru ákvæði þessa efnis í 1.–3. kafla III. hluta samningsins, svo og í V. og VIII. viðauka með samningnum.
     Þær EB-gerðir, sem er vísað til og skipta hér máli, eru:
    Tilskipun 64/221/EBE um samræmingu á sérstökum ráðstöfunum er varða flutninga og búsetu erlendra ríkisborgara og réttlættar eru með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis og almannaheilbrigðis.
    Reglugerð (EBE) 1612/68 um frelsi launþega til flutninga innan bandalagsins eins og henni var breytt með reglugerð (EBE) 312/76.
    Tilskipun 68/360/EBE um afnám takmarkana á flutningum og búsetu innan bandalagsins gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra.
    Reglugerð (EBE) 1251/70 um rétt launþega til að dveljast áfram á yfirráðasvæði aðildarríkis eftir að hafa gegnt starfi í því ríki.
    Tilskipun 72/194/EBE um útfærslu gildissviðs tilskipunar 64/221/EBE um samræmingu á sérstökum ráðstöfunum er varða flutninga og búsetu erlendra ríkisborgara og réttlættar eru með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis og almannaheilbrigðis svo að það nái einnig til launþega sem neyta réttarins til að dveljast áfram í aðildarríki eftir að hafa verið þar við störf.
    Tilskipun 73/148/EBE um afnám hafta á flutningum og búsetu innan bandalagsins gagnvart ríkisborgurum aðildarríkja að því er varðar staðfestu og þjónustustarfsemi.
    Tilskipun 75/34/EBE um rétt ríkisborgara aðildarríkis til að dveljast áfram á yfirráðasvæði annars aðildarríkis eftir að hafa starfað þar sjálfstætt.
    Tilskipun 75/35/EBE um útfærslu gildissviðs tilskipunar 64/221/EBE um samræmingu á sérstökum ráðstöfunum er varða flutninga og búsetu erlendra ríkisborgara og réttlættar eru með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis og almannaheilbrigðis svo að það nái einnig til ríkisborgara aðildarríkis sem neyta réttarins til að dveljast áfram á yfirráðasvæði annars aðildarríkis eftir að hafa starfað þar sjálfstætt.
    Tilskipun 90/364/EBE um búseturétt.
    Tilskipun 90/365/EBE um búseturétt launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem hafa látið af störfum.
    Tilskipun 90/366/EBE um búseturétt námsmanna.
     Þau ákvæði EB-löggjafar um frjálsa fólksflutninga, sem munu gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins, varða einkum rétt ríkisborgara EES-ríkjanna og fjölskyldna þeirra, án tillits til þjóðernis, til að koma til, dvelja í og vinna í öðru EES-ríki. Eru sérstök ákvæði sem gilda um launþega, þá sem starfa sjálfstætt og þá sem veita þjónustu eða njóta þjónustu og loks þá sem ekki stunda atvinnu, þar á meðal námsmenn og eftirlaunaþega.
     Útlendingar, sem falla undir samning um Evrópska efnahagssvæðið (EES-útlendingar), munu á ýmsum sviðum fá aukinn rétt til að koma hingað til lands, dveljast hér og vinna miðað við aðra útlendinga samkvæmt lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 45/1965. Miða tillögur í 10.–19. gr. frumvarpsins að þessu. Á móti munu íslenskir ríkisborgarar öðlast sama rétt í öðrum samningsríkjum.
     EES-útlendingur mun fá rétt til að ráða sig í vinnu án atvinnuleyfis. Hann má þá einnig stofna til starfsemi eða veita eða njóta þjónustu hér á landi með sömu skilyrðum og íslenskir borgarar. Aðrir útlendingar verða hins vegar að jafnaði áfram að sækja um atvinnuleyfi áður en þeir koma til landsins.
     EES-útlendingur mun öðlast rétt á dvalarleyfi í landinu ef hann fær vinnu innan þriggja mánaða. Réttur til dvalarleyfis gildir einnig fyrir þá sem starfa sjálfstætt, veita eða njóta þjónustu og þá sem ekki stunda atvinnu, þar á meðal námsmenn og eftirlaunaþega.
     Fjölskylda EES-útlendings, sem hefur dvalarleyfi, fær einnig rétt til dvalar án tillits til ríkisfangs.
     Forsenda fyrir dvalarrétti er að viðkomandi geti framfært sig sjálfur.
     Í samningi um Evrópska efnahagssvæðið felast ákvæði sem varða heimildir til að meina EES-útlendingi komu til landsins eða vísa úr landi. Víkja þessi ákvæði frá þeim reglum sem nú gilda og munu gilda áfram um aðra útlendinga.
     Verður hér á eftir vikið nánar að helstu ákvæðum samningsins sem varða dvalar- og búseturétt, fyrst að því er varðar launþega, síðan þá sem starfa sjálfstætt og þá sem veita eða njóta þjónustu og loks þá sem ekki stunda atvinnu.
     Um launþega:
    Með 28. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið skal launþegum tryggð frjáls för innan þess. Þessi réttindi eru skýrð nánar í viðauka V, 1., 3. og 5. tölul. (tilskipunum 64/221, 68/360 og 72/194), 2. tölul. (reglugerðum 1612/68 og 312/76) og 4. tölul. (reglugerð 1251/70).
     Launþegar teljast allir ríkisborgarar EES-ríkis sem sækja um og ráða sig í vinnu eða hafa góðar vonir um að fá vinnu í öðru samningsríki á þeim tíma sem viðkomandi hefur rétt á að dvelja í landinu sem er venjulega þrír mánuðir. Til að tryggja frjálsa för launþega eru reglur um að fjölskylda launþegans eigi rétt á að flytjast með honum og gildir það án tillits til ríkisfangs. Til fjölskyldu launþegans teljast skv. 1. tölul. 10. gr. reglugerðar 1612/68 maki launþegans, afkomendur þeirra í beinan legg sem eru yngri en 21 árs eða á framfæri þeirra og ættingjar launþega og maka hans að feðgatali sem eru á framfæri þeirra.
    Í 3. mgr. 28. gr. EES-samningsins kemur nánar fram hvað frjáls för launþega felur í sér. Í upphafi er tekið fram að hægt sé að takmarka þetta frjálsræði þegar það er rökstutt með tilliti til allsherjarreglu, almannaöryggis og almannaheilbrigðis en um þetta eru nánari fyrirmæli í tilskipun 64/221. Í tilskipuninni kemur fram hvenær takmörkun að því er varðar komu til lands, útgáfu eða endurnýjun dvalarleyfis eða brottvísun úr landi er heimil.
     Í viðauka við tilskipunina, sbr. 4. gr., kemur fram hvaða sjúkdómar geti réttlætt synjun um að koma til lands eða útgáfu fyrsta dvalarleyfis. Þetta gildir t.d. um berkla og sárasótt, eiturlyfjaneyslu og alvarlega geðræna sjúkdóma.
     Í tilskipuninni eru einnig tilgreindar þær aðstæður sem réttlæta ekki frávísun, brottvísun og synjun um dvalarleyfi. Takmarkanir vegna allsherjarreglu eða almannaöryggis má eingöngu byggja á persónulegri hegðun viðkomanda. Í 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar er ákvæði um að fyrri refsiverð hegðun sé ekki nægileg ein sér til að slíkum ráðstöfunum sé beitt. Dómstóll EB hefur í nokkrum dómum skýrt ákvæði tilskipunarinnar. Af þessum dómum má ráða að takmarkanir á för fólks geti ekki byggst á alhæfingum um hópa fólks og þær hafi heldur ekki það markmið að vera almenn hindrun.
     Tilskipun 72/194 færir út gildissvið framangreindrar tilskipunar 64/221 þannig að efnisatriðin nái einnig til launþega sem nýtir sér réttinn til að dvelja áfram í ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eftir að hafa lokið atvinnu þar.
    Með þeim takmörkunum, sem hafa verið nefndar, hafa ríkisborgarar EES-ríkja rétt skv. a-lið 3. mgr. 28. gr. samningsins til að taka þeirri vinnu sem þeim stendur til boða í öðru samningsríki. Í þessu felst að ríkisborgari EES-ríkis skal vera undanþeginn kröfum um atvinnuleyfi.
     Samkvæmt b-lið 3. mgr. 28. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið öðlast launþegar rétt til að fara að vild um svæðið. Þessi réttur felur m.a. í sér rétt til að fara til annars EES-ríkis með því að leggja fram gilt kennivottorð eða vegabréf, sbr. 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 68/360. Þannig verður ekki hægt að krefja launþegann um vegabréfsáritun eða setja sérstök skilyrði fyrir því að hann fái að koma til landsins. Þetta gildir hins vegar ekki um fjölskyldumeðlimi hans ef þeir eru ekki ríkisborgarar einhvers aðildarríkis. Ríkin eru samt sem áður skuldbundin til að auðvelda þessum fjölskyldumeðlimum að fá vegabréfsáritun, sbr. 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar.
     Dómstóll EB hefur hefur í máli 321/87 tekið nánari afstöðu til þess hversu víðtækur rétturinn til aðflutnings er. Í þessum dómi kemur fram að EB-rétturinn hindri ekki að aðildarríki hafi eftirlit með því hvort útlendingur, sem er þar búsettur, hafi undir höndum dvalarleyfi, svo framarlega sem skylda til að sýna persónuskilríki hvíli einnig á ríkisborgurum viðkomandi ríkis.
     Samkvæmt c-lið 3. mgr. 28. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið hafa þeir sem hafa rétt á að flytja til landsins rétt á að dvelja í öðru samningsríki til að taka þar vinnu í samræmi við ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um starfskjör ríkisborgara þess ríkis. Samkvæmt 4. gr. tilskipunar 68/360 eiga EES-ríkin að veita ríkisborgara annars samningsríkis dvalarleyfi og fjölskyldu hans ef hann fær þar atvinnu. Staðfesting á þessu dvalarleyfi er veitt með skjali sem ber heitið dvalarleyfi. Til að slíkt skjal verði gefið út þarf launþeginn að hafa undir höndum skilríkið sem var notað við komuna til landsins og staðfestingu á atvinnuráðningu. Fyrir fjölskyldumeðlimi hans þarf að hafa skilríki sem var notað við komu til landsins, skjal sem sýnir hvernig fjölskyldutengslum er háttað, útgefið af yfirvaldi í heimalandi viðkomanda eða síðasta dvalarlandi og skjal sem sýnir að fjölskyldumeðlimur sé á framfæri launþegans eða hafi verið meðal heimilismanna hans í heimalandinu eða síðasta dvalarlandi og þarf þetta skjal einnig að vera gefið út af yfirvaldi þar.
     Dvalarleyfi á skv. 6. gr. tilskipunar 68/360 að gilda í a.m.k. fimm ár og þarf að vera unnt að framlengja það eftir þann tíma. Tímabundin dvalarleyfi eru gefin út vegna ráðningarsamninga sem gilda frá þremur mánuðum til eins árs. Allt að sex mánaða rof á dvöl breytir ekki gildi dvalarleyfis. Fjölskyldumeðlimir, sem eru sjálfir ríkisborgarar í EES-ríki, fá fimm ára dvalarleyfi en þeir sem eru það ekki eiga að fá dvalarleyfisskírteini sem gildir jafnlengi og dvalarleyfi launþegans.
     Dvalarleyfi má ekki afturkalla á þeirri forsendu að atvinnuráðningin sé ekki lengur fyrir hendi, launþeginn sé óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss eða orðinn atvinnulaus að ósekju, sbr. 1. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar.
     Dvalarleyfi má takmarka í fyrsta sinn sem það er endurnýjað en þó ekki skemur en tólf mánuði þegar leyfishafinn hefur verið atvinnulaus samfellt lengur en tólf mánuði, sbr. 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar.
     Réttur til dvalar í öðru EES-ríki skal viðurkenndur án þess að dvalarleyfi sé gefið út, sbr. 8. gr. tilskipunarinnar, ef atvinnuráðningu er ekki ætlað að standa lengur en þrjá mánuði, launþeginn hefur búsetu í öðru samningsríki og fer þangað reglubundið minnst einu sinni í viku eða starfið er árstíðabundið og byggir á vinnusamningi sem er viðurkenndur af yfirvöldum.
     Samkvæmt d-lið 3. mgr. 28. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið eiga ríkisborgarar samningsríkjanna rétt á að dveljast áfram í öðru samningsríki eftir að hafa stundað þar atvinnu. Í reglugerð 1251/71 eru helstu ákvæði um skilyrðin fyrir áframhaldandi dvöl nánar tilgreind. Í fyrsta lagi getur orðið af henni ef launþegi fer á eftirlaun og hefur unnið í landinu síðustu tólf mánuði og verið búsettur þar samfellt í þrjú ár. Í öðru lagi er réttur til áframhaldandi dvalar fyrir hendi ef launþegi hlýtur varanlega örorku og hefur verið búsettur í minnst tvö ár í landinu en ef vinnuveitandi ber ábyrgð á vinnuslysi eða atvinnusjúkdómi eru engin tímamörk áskilin um búsetu í landinu. Í þriðja lagi getur orðið af áframhaldandi dvöl ef launþegi hefur búið og unnið í ríkinu samfellt í þrjú ár og starfar síðan í öðru ríki en heldur heimili í fyrra ríkinu og hverfur þangað að jafnaði daglega eða minnst einu sinni í viku. Í fjórða lagi á fjölskylda launþega rétt á áframhaldandi búsetu í landinu ef launþeginn andast. Ef launþeginn andast áður en hann hefur öðlast rétt til búsetu á fjölskylda hans rétt á að búa áfram í landinu að uppfylltum skilyrðum sem koma fram í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar 1251/71.
    Um þá sem starfa sjálfstætt og þá sem veita eða njóta þjónustu:
     Með 31. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið fá ríkisborgarar samningsríkjanna heimild til að hefja sjálfstæða starfsemi eða koma á fót fyrirtæki í öðru samningsríki. Samningsgreinin sem slík segir ekki beinlínis til um frjálsa för sjálfstætt starfandi manna innan Evrópska efnahagssvæðisins. Frelsið felst hins vegar í þremur tilskipunum, 73/148, 75/34 og 75/35, sem eru tengdar EES-samningnum gegnum viðauka VIII.
     Í aðfaraorðum tilskipunar 73/148 segir að forsendur þess að afnema takmarkanir á staðfesturétti og þjónustuviðskiptum séu þær að afnema þurfi takmarkanir á ferðum og dvöl. Staðfesturétturinn sé ekki framkvæmanlegur nema hægt sé að fá varanlegt dvalarleyfi fyrir þá sem óska að hefja sjálfstæða starfsemi. Þeim sem láta í té eða notfæra sér þjónustu annarra verður að tryggja rétt til dvalar meðan slík þjónusta á sér stað.
    Í 1. gr. tilskipunarinnar kemur fram til hverra reglurnar taka. Eru það ríkisborgarar EES-ríkjanna sem hafa eða vilja öðlast staðfesturétt í öðru samningsríki til að starfa sjálfstætt eða veita þjónustu og EES-borgarar sem vilja fara til annars samningsríkis til að njóta þar þjónustu. Hér við bætist fjölskylda.
     Samningurinn skýrir ekki svo tæmandi sé hverjir teljist njóta þjónustu. Innan EB er ákvæðið ekki talið ná til hvers og eins eingöngu vegna þess að hann nýtir almennt þjónustu eins og aðrir. Er miðað við að viðkomandi verji verulegum hluta tíma síns til að notfæra sér þjónustu. Ferðamenn geta fallið hér undir þó að dvöl þeirra sé að jafnaði tímabundin.
     Um dvalarleyfi gilda hliðstæðar reglur og fyrir launþega eftir því sem við á.
     Í tilskipun 75/34 er sjálfstætt starfandi mönnum og fjölskyldum þeirra veittur réttur til áframhaldandi búsetu eftir að þeir hafa hætt rekstri. Reglurnar eru sambærilegar og fyrir launþega. Hins vegar falla þeir sem selja eða kaupa þjónustu ekki undir þessi ákvæði.
     Tilskipun 75/35 setur sömu takmarkanir að því er varðar allsherjarreglu, almannaöryggi og almannaheilbrigði fyrir ferða- og dvalarleyfi sjálfstætt starfandi manna og fjölskyldur þeirra og eru í tilskipun 64/221 fyrir launþega.
     Um þá sem stunda ekki atvinnu:
     Með 6.–8. tölul. viðauka VIII eru tilskipanir 90/364, 90/365 og 90/366 gerðar að hluta samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Í þessum tilskipunum eru reglur um rétt þeirra sem stunda ekki atvinnu til að koma til og dvelja í öðru samningsríki. Tilskipun 90/364 gildir almennt um þá sem eru ekki starfandi. Tilskipun 90/365 geymir sérreglur um þá sem hafa látið af störfum og í tilskipun 90/366 eru sérreglur um námsmenn.
     Þessar tilskipanir setja það skilyrði fyrir ferða- og dvalarleyfi þeirra sem eru ekki launþegar eða sjálfstætt starfandi að þeir framfæri sig sjálfir og séu tryggðir fyrir ófyrirséðum útgjöldum, þannig að þeir verði ekki byrði fyrir félagsmálakerfi dvalarríkisins. Það er talið nægilegt að fjármunir, tekjur eða lífeyrir viðkomanda séu hærri en þau tekjumörk sem veita rétt til aðstoðar félagsmálayfirvalda. Sé þessi mælikvarði ekki nothæfur verður þess krafist að fjármunirnir séu hærri en lægsti lífeyrir í viðkomandi landi.
     Dvalarleyfi námsmanna er bundið við námstímann. Námsmennirnir eiga ekki rétt á greiðslu námsstyrkja eða námslána í dvalarlandinu. Dvalarleyfi fyrir námsmenn eru eingöngu veitt til eins árs í senn.
     Fjölskyldur þessara hópa eiga rétt skv. 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 90/364 til að fá sér launaða vinnu eða koma á fót sjálfstæðri starfsemi í dvalarlandinu.
     Dvalarrétturinn er staðfestur með dvalarleyfi eins og hjá öðrum hópum og almennt yrði slíkt dvalarleyfi veitt í fimm ár eins og fyrir launþega. Undantekning er gerð um námsmenn og einstaka aðra hópa. Um fjölskyldu viðkomandi gildir það sama og um launþega. Ef einhver fjölskyldumeðlimur er ekki ríkisborgari EES-ríkis fær hann jafnlangt dvalarleyfi og sá sem framfærir hann.
     Til þess að fá slíkt dvalarleyfi þarf eingöngu að leggja fram gilt kennivottorð eða vegabréf og staðfestingu á að viðkomandi geti framfært sig og fjölskyldu sína og sé tryggður fyrir ófyrirséðum áföllum.
    Sömu takmarkanir að því er varðar allsherjarreglu, almannaöryggi og almannaheilbrigði gilda um þessa hópa og aðra.
    Þær reglur, sem felast í EB-reglugerðum, ber sem slíkar að festa í innlendar reglur. Ákvæði reglugerða 1612/68 og 312/76 munu fá lagagildi hér á landi samkvæmt sérstöku lagafrumvarpi. Ákvæði reglugerðar 1251/70 munu hins vegar verða tekin upp í reglugerð á grundvelli laga um eftirlit með útlendingum, sbr. 12. gr. frumvarpsins. Sama er um ákvæði tilskipananna. Er gert ráð fyrir því að efni þeirra verði fellt í sérstaka reglugerð þar sem þau réttindi, sem felast í tilskipununum, koma fram.
     Með hliðsjón af því að reglur EB (8. og 9. gr. tilskipunar 64/221) gera ráð fyrir því að unnt sé að kæra ákvarðanir um komu útlendings, synjun um útgáfu eða endurnýjun dvalarleyfis eða brottvísun úr landi er lagt til með ákvæðum V. kafla frumvarpsins að framvegis verði ákvarðanir um þetta ekki í höndum dómsmálaráðuneytisins heldur flytjist þær til útlendingaeftirlitsins, en með kærurétti til ráðuneytisins. Eru kæruheimildir teknar upp í nýrri 12. gr. a laganna, sbr. 16. gr. frumvarpsins. Aðrar breytingar á lögum nr. 45/1965, sem eru lagðar til með V. kafla frumvarpsins, felast í því að verkefni eru flutt til útlendingaeftirlitsins. Rétt er að taka fram í þessu sambandi að í 12. gr. frumvarpsins er ráðgert að 6. gr. laganna fjalli framvegis um annað efni en hefur verið til þessa, en núverandi efni 6. gr. laganna hefur ekkert sjálfstætt gildi.

Um 20.–23. gr.


    Það leiðir af III. hluta samnings um Evrópska efnahagssvæðið og viðaukum V, VIII og XII að veita verður ríkisborgurum annarra samningsríkja sama rétt til fasteignakaupa hér á landi og íslenskum ríkisborgurum að því leyti sem það er nauðsynlegt til að nýta þau réttindi sem samningurinn veitir til frjálsra fólksflutninga, staðfestu og þjónustustarfsemi. Með ákvæðum 20.–23. gr. frumvarpsins eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, þessu til samræmis.
     Í 22. gr. frumvarpsins er gengið út frá því að sá sem nýtur ofangreindra réttinda þurfi ekki að afla sérstaks leyfis til fasteignakaupa hér á landi. Á hinn bóginn er þar gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um til hvaða fasteigna þessi réttur taki og framkvæmd réttarins að öðru leyti. Með því er vísað til þess annars vegar að samningur um Evrópska efnahagssvæðið stendur því ekki í vegi að takmarkanir séu gerðar á því gagnvart ríkisborgara í öðru samningsríki sem er ekki búsettur hér á landi að hann geti eignast fasteign sem er ekki nauðsynleg í atvinnustarfsemi hans eða til að halda þar heimili, t.d. sumarbústað, og hins vegar að ekkert er því til fyrirstöðu að ríkisborgara í öðru samningsríki sé gert að sanna rétt sinn fyrir íslenskum stjórnvöldum, t.d. við þinglýsingu. Ráðherra getur þannig kveðið á um það í reglugerð að réttur skv. 2. tölul. 4. mgr. 1. gr. laganna, sbr. 22. gr. frumvarpsins, taki ekki til vissra tegunda fasteigna og að sá sem hyggst neyta réttinda samkvæmt ákvæðinu skuli afhenda þinglýsingastjóra yfirlýsingu um leið og þinglýsingar er beiðst þar sem því yrði lýst yfir að viðlagðri refsiábyrgð að hlutaðeigandi uppfylli nánar tilgreind skilyrði, sbr. einnig 23. gr. frumvarpsins.
    Um önnur atriði í ákvæðum 20.–23. gr. frumvarpsins má benda á að með 20. gr. er gert ráð fyrir þeirri breytingu á 2. mgr. 1. gr. laganna að felld verði niður afmörkun á þeim tegundum réttinda tengdum fasteign sem útlendingur getur öðlast rétt yfir. Um þau atriði er fjallað í öðrum lögum og er reyndar verulegum takmörkunum háð í hverjum mæli hægt sé að skilja slík réttindi, t.d. veiði- og vatnsréttindi, frá fasteign. Í 21. gr. frumvarpsins eru eldri ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, sbr. 8. gr. laga nr. 23/1991, umorðuð lítillega og mælt að auki fyrir um heimild ráðherra til að setja ákvæði í reglugerð um umsóknir útlendinga um leyfi til að afla sér eignar- eða afnotaréttinda yfir fasteign hér á landi þegar slíks leyfis er þörf. Auk þeirra atriða í 22. gr. frumvarpsins, sem hefur þegar verið getið, má benda á að þar eru tekin af tvímæli um að ekki þurfi að afla leyfis ráðherra vegna samninga um leiguréttindi til tiltekins tíma eða með skilmála um tiltekinn uppsagnarfrest enda bera slíkir samningar greinilega með sér hvers efnis þeir eru sem verður þá eftir atvikum gætt að við þinglýsingu hvort fullnægi skilyrðum til undanþágu frá þörf á leyfi ráðherra. Að öðru leyti horfa ákvæði 20.–23. gr. frumvarpsins til samræmingar og gleggri framsetningar á reglum 1. og 3. gr. laga nr. 19/1966 og verður ekki séð að þau þarfnist nánari skýringa.

Um 24. og 25. gr.


    Í þessum ákvæðum frumvarpsins eru lagðar til breytingar á fyrirmælum 2. gr. laga nr. 34/1986, sbr. 25. gr. laga nr. 23/1991, um skilyrði fyrir að geta fengið löggildingu til starfa við fasteigna- og skipasölu til samræmis við reglur í III. hluta samnings um Evrópska efnahagssvæðið og tilskipun 67/43/EBE. Breytingarnar felast nánar tiltekið í því að lagt er til að skilyrði um íslenskan ríkisborgararétt í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna verði fellt niður, auk þess að ráðherra verði heimilað að ákveða í reglugerð að þeir sem hafa heimild til að stunda þessa starfsemi eða hafa málflutningsleyfi í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu verði að nokkru eða með öllu undanþegnir skilyrðum 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna um að hafa staðist prófraun til að öðlast þessa löggildingu. Að öðru leyti verður ekki séð að þessi fyrirmæli frumvarpsins þarfnist skýringa.

Um 26. gr.


    Í 26. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á reglum um skilyrði til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara í 1. mgr. 5. gr. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, að í stað áskilnaðar í 6. tölul. ákvæðisins um embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands eða öðrum háskóla, sem er metið jafngilt lögum samkvæmt, verði innlent lagapróf sett að skilyrði sem fyrr eða sambærilegt próf frá öðrum háskóla enda hafi þá dómaraefni næga þekkingu á íslenskum lögum. Nái þessi breyting fram að ganga kæmi í hlut dómnefndar um hæfni umsækjenda um héraðsdómaraembætti skv. 2. mgr. 5. gr. laganna að leggja mat á hvort umsækjandi með erlent háskólapróf í lögum hafi næga þekkingu á innlendri löggjöf til að rækja starfann.
     Þessi breyting er lögð hér til með tilliti til tilskipunar 89/48/EBE en í samræmi við heimild í 28. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið er ekki hróflað hér við skilyrði um að héraðsdómari þurfi að vera íslenskur ríkisborgari, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989.

Um 27. gr.


    Eins og var getið í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins hér að framan er ráðgert í bókun 5 um stofnsamþykkt EFTA-dómstólsins sem fylgir samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls að dómstóllinn geti þarfnast framburðar vitnis eða sérfræðings við úrlausn máls. Í 25. gr. stofnsamþykktarinnar kemur fram heimild handa EFTA-dómstólnum til að mæta þessum þörfum með því að skipa svo fyrir að vitni eða sérfræðingur gefi skýrslu fyrir dómi á þeim stað þar sem hann hefur fasta búsetu. Er ætlast til að EFTA-dómstóllinn sendi fyrirmæli sín þar til bærum dómsyfirvöldum til framkvæmdar með þeim skilyrðum sem verður mælt fyrir um í starfsreglum dómstólsins. Skýrslu verður þá að taka fyrir dómi af viðkomandi manni eftir innlendum reglum en að því gerðu verða endurrit af framburði og skjöl vegna skýrslutökunnar send EFTA-dómstólnum.

    Vegna þessara fyrirmæla í stofnsamþykktinni er með 27. gr. frumvarpsins lögð til sú breyting á ákvæðum XI. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, þar sem er fjallað um öflun sönnunargagna fyrir dómstóli í tengslum við rekstur einkamáls fyrir öðrum dómstóli, að við 76. gr. laganna verði bætt nýrri málsgrein til að taka fram að reglum umrædds kafla laganna verði beitt við gagnaöflun fyrir dómstóli hér á landi í tengslum við rekstur dómsmáls erlendis, þar á meðal fyrir EFTA-dómstólnum.

Um 28. gr.


    Þessi grein, sem kveður á um gildistöku ef frumvarpið hlýtur samþykki, þarfnast ekki skýringa.