Ferill 104. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 104 . mál.


107. Tillaga til þingsályktunar



um alþjóðlega skráningu skipa.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Jóhann Ársælsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa hið fyrsta nauðsynlegar aðgerðir svo að koma megi á alþjóðlegri skráningu skipa hér á landi. Samið verði og lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um alþjóðlega skipaskráningu þar sem:
    opnað verði fyrir alþjóðlega skráningu kaupskipa með sambærilegum hætti og tíðkast í Danmörku,
    leyfð verði alþjóðleg skráning, B-skráning, fiskiskipa sem úrelt hafa verið úr íslenska fiskiskipaflotanum eða keypt eru erlendis frá án þess að hafa veiðileyfi í íslenskri lögsögu.
    Jafnframt láti ríkisstjórnin undirbúa nauðsynlegar skattalagabreytingar vegna hinnar alþjóðlegu kaupskipaskráningar og aðrar lagabreytingar sem þörf er á. Stefnt verði að því að lögfesta viðkomandi breytingar fyrir þinglok vorið 1994.

Greinargerð.


    Margt mælir með því að hrinda í framkvæmd alþjóðlegri skráningu skipa á Íslandi af því tagi sem tillagan gerir ráð fyrir.
    Á undanförnum árum hefur fækkað stórlega í þeim hluta íslenska kaupskipaflotans sem skráður er á Íslandi. Ef skoðuð er þróun þessara mála sl. áratug kemur í ljós að af heildarflota upp á 51 skip í eigu íslenskra kaupskipaútgerða árið 1980 voru 48 skráð á Íslandi. Árið 1991 taldi flotinn 41 skip, en af þeim voru aðeins 17 á skrá hérlendis. Svipaða þróun má sjá í fjölda íslenskra sjómanna á kaupskipunum og má sem dæmi taka að frá því í júní 1988 til apríl 1991, eða á þremur árum, fækkaði þeim úr 424 í 341 eða um 83. Væntanlega hefur þróunin haldið áfram síðan þessar tölur voru teknar saman, sbr. skýrslu nefndar um skráningarreglur íslenskra kaupskipa frá því fyrr á þessu ári. Þar kemur m.a. fram að kaupskip í eigu íslenskra aðila hafi í febrúar 1993 verið 29 talsins en aðeins níu þeirra voru á skrá hérlendis.
    Það virðist því ljóst að verði ekkert að gert stefnir í að skráning kaupskipa hér á landi og sigling þeirra undir íslenskum fána muni brátt heyra sögunni til. Það er skoðun flutningsmanna að raunhæfasta leiðin til að sporna við þessu og tryggja að tekjur og störf í tengslum við kaupskipaflotann falli Íslendingum í skaut sé að koma á alþjóðlegri skipaskráningu hliðstætt og gert hefur verið í Noregi og Danmörku. Sú leið sem Danir hafa valið er betur til þess fallin að vernda starfskjör innlendra sjómanna og líklegra að um hana geti orðið sæmileg sátt.
    Hvað varðar seinni lið tillögunnar um alþjóðlega skráningu fiskiskipa er það að segja að verið er að bregðast við talsvert öðru vandamáli en við á um kaupskipin. Vegna veiði-
réttinda íslenskra skipa innan landhelginnar er útflöggun fiskiskipaflotans í sama skilningi og kaupskipanna augljóslega ekki á dagskrá. Hins vegar hefur skapast sú staða að íslenskar útgerðir, eigendur skipa sem tekin hafa verið af veiðileyfin í íslenskri landhelgi, hafa ekki mátt gera þau út áfram undir íslenskum fána til veiða á fjarlægum miðum. Þessi staða kemur upp vegna ákvæða í lögum um stjórn fiskveiða og reglna um endurnýjun og úreldingu fiskiskipa.
    Í lögum um stjórn fiskveiða hefur undanfarin ár verið ákvæði þess efnis að einungis megi veita þeim skipum veiðileyfi sem þau hafi fyrir, eða nýjum eða nýkeyptum skipum í stað annarra sambærilegra sem horfið hafi „varanlega úr rekstri“. Athyglisvert er að það eru ekki lögin sjálf sem gera það að skilyrði að skipin hverfi af skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins heldur reglugerðarákvæði.
    Þannig stóð í 17. gr. reglugerðar nr. 290/1992, um veiðar í atvinnuskyni á sl. fiskveiðiári: „Aðeins er heimilt að veita nýju eða nýkeyptu skipi veiðiheimildir skv. 1. gr. í stað skips sem hverfur úr rekstri, að skip það sem hverfur úr rekstri hafi verið strikað af skipaskrá Siglingamálastofnunar ríkisins.“ Þessi túlkun, eða öllu heldur framkvæmd þeirra ákvæða laganna að til þess að skip skuli talin endanlega úr rekstri þurfi þau að hverfa af íslenskri skipaskrá, mun fyrst hafa litið dagsins ljós í reglugerð á árinu 1987.
    Í ljósi framangreinds má færa fyrir því rök að ekki sé þörf á lagabreytingum til að heimila áframhaldandi íslenska skráningu skipa sem horfið hafa varanlega úr rekstri í skilningnum fiskveiðiskip innan íslenskrar lögsögu. Augljóst er að skip, sem hafa misst veiðileyfi innan íslenskrar efnahagslögsögu, geta að öllu öðru leyti fullnægt reglum um íslenska skráningu, svo sem hvað íslenskt eignarhald, öryggisbúnað o.s.frv. snertir.
    Sé það á hinn bóginn vilji yfirvalda að halda sig við þá framkvæmd að til að teljast „endanlega úr rekstri“ skuli skipin ekki aðeins missa veiðileyfi í íslenskri lögsögu heldur einnig hverfa af hinni almennu skipaskrá er einfaldasta lausnin að mati flutningsmanna sú sem hér er lögð til að til verði sérstök skrá, B-skrá eða alþjóðleg skrá, sem skipin geti þá færst yfir á.
    Vegna þess ástands sem ríkir hafa útgerðir brugðið á það ráð að stofna fyrirtæki og skrá skipin erlendis með þeim afleiðingum að þau teljast ekki lengur til íslenska flotans. Ekki verður séð að sú stefnumótun, sem í gildi er um að takmarka stærð fiskiskipaflotans innan íslensku lögsögunnar, þurfi að útiloka það að fiskiskip geti eftir sem áður tilheyrt íslenskri skipaskrá og án þess að hafa veiðileyfi í íslenskri lögsögu. Tala mætti um B-skráningu fiskiskipa í því tilfelli. Með því vinnst það að aflareynsla, sem skipin kunna að öðlast á fjarlægum miðum, bókfærist á Ísland, fyrirtækin eru laus við það umstang sem því fylgir að skrá skipin erlendis, en því getur einnig fylgt verulegur kostnaður svo sem vegna endurflokkunar, réttarstaða sjómanna er betur tryggð og síðast en ekki síst getur það skipt verulegu máli í viðskiptalegu tilliti fyrir útgerðirnar hvar skipin eru skráð. Er þá átt við að afli skipa, sem skráð eru erlendis en eru í eigu íslenskra fyrirtækja, getur tekið á sig toll sem innflutt hráefni þegar þannig háttar til.
    Rétt er að taka fram að í hvorugu tilvikanna er verið að tala um að opna „erlendum“ skipum leið inn á íslenska skipaskrá. Flutningsmenn gera ráð fyrir að sambærileg skilyrði um eignarhlut Íslendinga í útgerðarfyrirtækjum kæmu inn í lögin og gilda í bæði norsku (NIS) og dönsku (DIS) alþjóðaskránum.
    Við setningu laganna þarf að huga að því hvort ekki sé rétt að látin verða gilda ákveðin ákvæði til bráðabirgða um heimildir til endurskráningar þeirra skipa sem horfið hafa út á undanförnum árum en enn eru í eigu íslenskra útgerðaraðila inn á hina alþjóðlegu íslensku skipaskrá.

Fylgiskjal.

Samgönguráðuneytið:

Norsku (NIS) og dönsku (DIS) alþjóðlegu skipaskrárnar.


(Úr skýrslu um skráningu kaupskipa á Íslandi, 1993.)