Ferill 121. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 121 . mál.


126. Frumvarp til laga



um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins og heimild til sölu hlutabréfa í því félagi.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.

    Stofna skal hlutafélag sem tekur við öllum eignum, skuldum og rekstri Lyfjaverslunar ríkisins.

2. gr.

    Ríkissjóður er eigandi allra hlutabréfa félagsins við stofnun þess þrátt fyrir ákvæði laga nr. 32/1978, um hlutafélög, með síðari breytingum.

3. gr.

    Fastráðnir starfsmenn Lyfjaverslunar ríkisins skulu hafa rétt til að starfa hjá nýja hlutafélaginu við stofnun þess og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir áður gegndu hjá Lyfjaverslun ríkisins. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.

4. gr.

    Fjármálaráðherra annast undirbúning að stofnun félagsins og fer með eignarhlut ríkissjóðs í fyrirtækinu.
    Fjármálaráðherra er heimilt að selja hlutabréf ríkissjóðs að öllu leyti eða að hluta. Við sölu hlutabréfa skal þess gætt að samkeppni verði tryggð á sviði dreifingar og framleiðslu lyfja.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Nýtt hlutafélag tekur til starfa 1. janúar 1994.
    Eftirfarandi breytingar á lögum nr. 76/1982, um lyfjadreifingu, með áorðnum breytingum, taka gildi 1. janúar 1994:
a.    Við 8. mgr. 3. gr.:
    Í stað „Lyfjaverslun ríkisins“ kemur: lyfjaframleiðslufyrirtækjum.
b.    Við 36. gr.:
    Í stað „Lyfjaverslun ríkisins“ kemur: lyfjaheildsalar.
c.    38. gr. fellur niður.
d.    42.–46. gr. fellur niður.
e.    52.–53. gr. fellur niður.
    Þann 1. janúar 1994 fellur úr gildi 1. mgr. 10. gr. laga nr. 38/1978, um ónæmisaðgerðir.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Tilgangur þessa frumvarps er að breyta Lyfjaverslun ríkisins í hlutafélag og er jafnframt aflað heimildar fyrir sölu hlutabréfa í félaginu.
    Fjármálaráðherra skipaði 18. ágúst 1991 starfshóp til að vinna að einkavæðingu Lyfjaverslunar ríkisins. Í honum áttu sæti Ragnar Kjartansson framkvæmdastjóri, formaður, Grímur Sæmundsen læknir, Lára Margrét Ragnarsdóttir alþingismaður og Þór Sigþórsson, forstjóri Lyfjaverslunar ríkisins. Jón Ragnar Blöndal, viðskiptafræðingur í fjármálaráðuneytinu, var ritari hópsins.
    Niðurstaða starfshópsins var að breyta ætti Lyfjaverslun ríkisins í hlutafélag sem síðan yrði selt. Frumvarp það sem hér er lagt fram er í samræmi við niðurstöður nefndarinnar.
    Á innlendum lyfjamarkaði eru nú starfandi nokkur fyrirtæki bæði á sviði framleiðslu og lyfjadreifingar sem Lyfjaverslun ríkisins starfar í samkeppni við. Ekki er lengur talin ástæða fyrir beinum ríkisrekstri á þessu sviði. Bendir ýmislegt til þess að einkavæðing fyrirtækisins gæti orðið til góðs fyrir ríkissjóð, fyrir rekstrareininguna sem slíka og lyfjamarkaðinn í heild.
    Lyfjaverslun ríkisins var stofnuð sem starfseining innan Áfengisverslunar ríkisins árið 1921 og var rekin þannig allt fram til ársins 1986 að fjárhagur og skrifstofuhald var aðskilið að fullu frá ÁTVR. Í upphafi var starfsemi fyrirtækisins einkum fólgin í sameiginlegum innkaupum á lyfjum og sjúkragögnum fyrir sjúkrahús og lyfjabúðir. Umsvif voru lítil framan af, aðallega sótthreinsunarefni, áfengislyf, hjúkrunarvörur og efni til ónæmisaðgerða. Upp úr lokum seinni heimsstyrjaldar jókst reksturinn verulega, sérstaklega eftir að keyptar voru miklar birgðir af lyfjum, hjúkrunarvörum og margvíslegum áhöldum til lækninga frá bandaríska hernum.
    Árið 1947 hóf Lyfjaverslunin eigin framleiðslu á töflum og um 1950 framleiðslu á stungulyfjum. Haustið 1954 hófst framleiðsla á dreypilyfjum og hefur hún nær alfarið uppfyllt þörf sjúkrahúsa fyrir þessi lyf.
    Reksturinn hefur breyst mikið frá stofnun Lyfjaverslunar ríkisins auk þess sem mikil breyting hefur orðið á íslenska lyfjamarkaðnum. Nú eru starfandi allmörg lyfjainnflutningsfyrirtæki á Íslandi og er starfsemi þeirra mjög áþekk starfsemi Lyfjaverslunarinnar hvað þann þátt varðar. Til skamms tíma voru einungis tvö lyfjaframleiðslufyrirtæki á Íslandi, en nýlega bættist hið þriðja í hópinn.
    Tækjabúnaður Lyfjaverslunarinnar til lyfjaframleiðslu hefur verið endurnýjaður eftir föngum á undanförnum árum. Dreypilyfjadeildin var endurnýjuð á árinu 1988. Nú stendur yfir endurnýjun framleiðsludeilda svo þær standist nýja staðla um góða framleiðsluhætti. Á undanförnum árum hefur Lyfjaverslunin tekið að sér umboðsstörf fyrir erlenda framleiðendur. Einnig hefur fyrirtækið gert samninga um innflutning og dreifingu lyfja fyrir ýmsa innlenda umboðsmenn og með því stóraukið hlutdeild sína á lyfjamarkaðnum.
    Starfsemi fyrirtækisins skiptist í tvo meginþætti: Framleiðslu lyfja og lyfjadreifingu. Veltan nam um 726 m.kr. á árinu 1991, 691 m.kr. á árinu 1990 og 533 m.kr. á árinu 1989. Árið 1992 var veltan um 809 m.kr.
    Skipting sölu árið 1992 var í grófum dráttum þessi:


    M.kr.

Lyf til endursölu     
367
,4
Eigin framleiðsla     
206
,9
Bóluefni o.fl.     
125
,8
Hjúkrunarvörur     
63
,7
Efna- og rannsóknarvörur     
43
,9
Annað     
1
,6
Samtals     
809
,3


    Hjá Lyfjaverslun starfa 60 manns (ársverk), þar af 35 við framleiðslu og 25 við innflutning, sölu, birgðahald og stjórnun. Framleiðsludeildir og skrifstofur eru á þremur hæðum húss ríkisins í Borgartúni 6 og birgðahald í Borgartúni 7. Birgðageymslur eru að auki leigðar til bráðabirgða í Tollstöðvarhúsinu.
    Síðustu ár hefur hagnaður af rekstri Lyfjaverslunar verið eins og hér segir (á verðlagi hvers árs):


    M.kr.

Árið 1992     
66
,9
Árið 1991     
51
,4
Árið 1990     
97
,1
Árið 1989     
21
,6

    Þá nam bókfært eigið fé í árslok 1992 samtals 355,2 m.kr.
    Í núgildandi lögum um Lyfjaverslun ríkisins (lög nr. 76/1982) er að finna nokkur ákvæði er veita fyrirtækinu sérstöðu. Gert er ráð fyrir að öll þessi ákvæði verði felld niður þannig að fyrirtækið muni framvegis sitja við sama borð og önnur. Hér er aðallega um eftirtalin ákvæði að ræða:
    Í 38. gr. laganna er ákvæði um að einungis Lyfjaverslun ríkisins sé heimilt að flytja inn bóluefni og ónæmisefni en sala þessara efna nam um 58 milljónum króna á árinu 1991. Gert er ráð fyrir að öðrum lyfjaheildsölum verði framvegis einnig heimilt að flytja inn þessar vörur. Heilbrigðisyfirvöld geta einnig boðið þessa starfsemi út ef hagkvæmt þykir.
    Í 38. gr. laganna er einnig ákvæði um að umboðsmönnum erlendra sérlyfjaframleiðenda sé skylt að greiða fyrir kaupum Lyfjaverslunar ríkisins á lyfjum frá umbjóðendum þeirra, annaðhvort beint frá framleiðanda á skráðu innkaupsverði eða með afhendingu úr eigin vörubirgðum umboðsmanna á kostnaðarverði. Þetta ákvæði hefur verið óvirkt og verður fellt niður.
    Í 42. gr. eru lagðar skyldur á Lyfjaverslun ríkisins að útvega hvers konar lyf, lyfjagögn, bóluefni, ónæmisefni og sjúkragögn fyrir sjúkrahús, dvalarheimili aldraðra og aðrar opinberar heilbrigðisstofnanir. Sjúkrastofnunum ber hins vegar engin skylda að kaupa inn þessar vörur frá fyrirtækinu, að bóluefnum undanskildum, og hafa þær því haft frjálst val um hvert þær beina viðskiptum. Því er eðlilegt að fella ákvæðið niður.
    Í 43. gr. laganna segir að Lyfjaverslunin annist framleiðslu lyfja og birgðahald fyrir Almannavarnir. Þetta ákvæði er fellt niður þar sem ekki verða gerðar frekari kröfur til hins nýja hlutafélags en annarra fyrirtækja í greininni.
    Í 52. gr. laganna segir að starfrækja skuli sérstaka samstarfsnefnd Lyfjaverslunar og sjúkrahúsapóteka til að leita samræmingar og hagkvæmni í innkaupum og framleiðslu lyfja, hjúkrunar- og sjúkragagna. Þar sem sjúkrahúsapótekin hafa sjálf annast lyfjainnkaup sín hefur þessi nefnd ekki verið starfrækt. Ákvæðið er því fellt niður.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin felur í sér heimild til stofnunar hlutafélags sem taki við öllum eignum, skuldum og rekstri Lyfjaverslunar ríkisins.

Um 2. gr.


    Greinin kveður á um að ríkissjóður verði eigandi allra hlutabréfa félagsins við stofnun þess. Félaginu er veitt undanþága frá almennum ákvæðum hlutafélagalaga um fjölda stofnenda og fjölda hluthafa. Að öðru leyti skulu almenn ákvæði hlutafélagalaga gilda um fyrirtækið.

Um 3. gr.


    Fastráðnir starfsmenn Lyfjaverslunar munu eiga rétt á sambærilegu starfi hjá hinu nýja hlutafélagi við stofnun þess. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, (biðlaun), á því ekki við um þessa starfsmenn. Stærsti hluti starfsmanna Lyfjaverslunar er nú í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og haldast réttindi þeirra óskert. Vísast í því sambandi til ákvæðis í 17. gr. laga nr. 29/1963. Um lífeyrismál annarra starfsmanna fer eftir ákvæðum viðkomandi kjarasamninga.

Um 4. gr.


    Fjármálaráðherra mun fara með eignarhlut ríkissjóðs í félaginu. Er þetta í samræmi við ákvæði laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands. Heimilt er fjármálaráðherra að selja hlutabréf ríkissjóðs í félaginu að öllu leyti eða hluta. Við sölu hlutabréfanna skal þess gætt að tryggð verði áframhaldandi samkeppni á sviði lyfjadreifingar og framleiðslu lyfja. Hagsmunir ríkisins eru miklir í þessu efni þar sem ríkissjóður greiðir í raun langstærstan hluta lyfjakostnaðar landsmanna, eða tæplega 70%, með endurgreiðslum í gegnum tryggingakerfið og greiðslu lyfjakostnaðar á sjúkrahúsum.

Um 5. gr.


    Núgildandi ákvæði um starfsemi Lyfjaverslunar er að finna í lögum nr. 76/1982, um lyfjadreifingu. Í þessari grein eru ákvæði er snerta starfsemi fyrirtækisins felld niður eða þeim ákvæðum breytt í almenn ákvæði er eiga jafnt við um öll lyfjafyrirtæki. Einnig er í lögum nr. 38/1978, um ónæmisaðgerðir, að finna ákvæði um innkaup Lyfjaverslunarinnar á bóluefnum til ónæmisaðgerða. Þetta ákvæði er fellt niður. Þessar breytingar eru í fullu samræmi við ákvæði frumvarps heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um lyfjamál. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga


um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins og


heimild til sölu hlutabréfa í því félagi.


    Með frumvarpinu er stofnað hlutafélag er tekur við öllum eignum, skuldum og rekstri Lyfjaverslunar ríkisins. Jafnframt er í frumvarpinu heimild til sölu hlutabréfa í því félagi.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.