Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 9 . mál.


229. Nefndarálit


um frv. til l. um efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í tengslum við kjarasamninga 21. maí sl. gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu í þeim tilgangi að ná víðtækri samstöðu um kjarasamninga til ársloka 1994. Minni hluti nefndarinnar telur nauðsynlegt að ríkisvaldið sé í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins í efnahags- og kjaramálum og leggst því ekki gegn efnisatriðum frumvarpsins sem ganga út á að uppfylla skyldur ríkisins í þessu sambandi. Minni hlutinn telur hins vegar að rétt hefði verið að kalla Alþingi saman til að afgreiða löggjöf hér að lútandi. Ekkert samráð var haft við fjárlaganefnd eða efnahags- og viðskiptanefnd við afgreiðslu málsins. Það er á allan hátt óeðlilegt að framkvæmdarvaldið skipti fjárveitingum án samráðs við Alþingi og það jafnvel milljörðum króna eins og gerst hefur hvað eftir annað í tíð núverandi ríkisstjórnar. Óþarfi ætti að vera að minna á í þessu sambandi að nú situr Alþingi allt árið og kalla má nefndir þess, sem og þingið sjálft, saman til fundar með litlum fyrirvara. Meðferð núverandi stjórnarflokka á bráðabirgðalagavaldinu er ámælisverð, en því hefur verið beitt við aðstæður þegar nægur tími var til að kveðja þing saman og engin knýjandi nauðsyn var á tafarlausri lagasetningu.
    Af þessum ástæðum mun minni hlutinn sitja hjá við afgreiðslu málsins. Einnig hafa verið uppi efasemdir um að ríkisstjórnin hafi staðið við þær yfirlýsingar sem gefnar voru í tengslum við kjarasamninga.
    Í tengslum við endurskoðunarákvæði samninganna hefur verkalýðshreyfingunni að vísu tekist að knýja fram efndir á ýmsum ákvæðum og lítill vafi er á því að hótun um uppsögn kjarasamninga leiddi til þess að loksins var gripið til aðgerða gagnvart vaxtaokrinu. Verkalýðshreyfingin fékk því einnig áorkað að ríkisstjórnin hætti við eða breytti a.m.k. áformum sínum um nýjar álögur, svo sem hinn nýja atvinnuleysisskatt og heilsukortin, en með þeim átti að selja mönnum aðgang að heilbrigðiskerfinu.
    Þetta leiddi til þess að ekki varð af þeirri uppsögn samninganna sem áður lá í loftinu en það breytir ekki því að framganga ríkisstjórnarinnar og öll málsmeðferð er ámælisverð.
    Allt frá miðju sumri 1992 til vors 1993 hélt stjórnarandstaðan því ítrekað fram að nauðsynlegt væri að koma til móts við þá aðila sem urðu fyrir mestum aflabresti á fiskveiðiárinu 1992–93 með því að úthluta aflaheimildum Hagræðingarsjóðs án endurgjalds. Þessu var neitað af fulltrúum stjórnarflokkanna á Alþingi og meiri hluti sjávarútvegsnefndar kom í veg fyrir að frumvörp um þetta efni væru afgreidd frá nefndinni í þinglok. Það er því mjög óeðlilegt að gefin séu út bráðabirgðalög um sama efni fáeinum vikum síðar þegar fyrir lá að nauðsynlegt var að afgreiða málið við þinglok. Afgreiðslu var fyrst og fremst neitað vegna þess að tillögur um þetta efni komu frá stjórnarandstöðunni.
    Aflaheimildir á árinu 1993–94 eru enn minni en árið áður og því er meiri ástæða en fyrr til að jafna það áfall sem fiskveiðiflotinn og sjávarbyggðirnar hafa orðið og munu verða fyrir. Ríkisstjórnin lofaði að leggja fram frumvarp strax í þingbyrjun um svokallaðan Þróunarsjóð og hafði skuldbundið sig til að afgreiða málið svo fljótt sem mögulegt yrði. Frumvarp hefur enn ekki komið fram, enda málið í miklu uppnámi hjá stjórnarflokkunum. Nú er senn kominn miður nóvember og því tveir og hálfur mánuður síðan stjórn Hagræðingarsjóðs átti samkvæmt gildandi lögum að hefja sölu á veiðiheimildum.
    Í því sambandi má benda á að stjórn sjóðsins taldi sig ekki geta orðið við þeim tilmælum haustið 1992 að víkja frá lagaskyldum og fresta sölu veiðiheimilda meðan gengið væri endanlega úr skugga um hvort vilji væri til að úthluta þeim til jöfnunar án endurgjalds. Það er því algjörlega nauðsynlegt að veita nú þegar heimild til að úthluta aflaheimildum Hagræðingarsjóðs til þeirra sem hafa orðið fyrir mestri skerðingu.
    Í breytingartillögu á þskj. 230 leggur minni hlutinn til að heimilt verði að úthluta aflaheimildum Hagræðingarsjóðs á yfirstandandi fiskveiðiári með sambærilegum hætti og stjórnarandstaðan lagði til fyrir fiskveiðiárið 1992–93.

Alþingi, 9. nóv. 1993.


Halldór Ásgrímsson,

Steingrímur J. Sigfússon,

Kristín Ástgeirsdóttir.

form.

frsm.


Jóhannes Geir Sigurgeirsson.