Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 9 . mál.


230. Breytingartillaga


við frv. til l. um efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar (HÁ, SJS, JGS, KÁ).


    Á eftir 8. gr. komi tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
    (9. gr.)
                  Aflaheimildum Hagræðingarsjóðs vegna fiskveiðiársins 1. september 1993 til 31. ágúst 1994 skv. 5. gr. laga nr. 65/1992, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, skal, að frádregnum þeim aflaheimildum sem sveitarstjórnir kunna að neyta forkaupsréttar á skv. 7. gr. sömu laga, úthlutað án endurgjalds til þeirra fiskiskipa sem orðið hafa fyrir mestri skerðingu við úthlutun aflamarks á yfirstandandi fiskveiðiári.
                  Skal Fiskistofa úthluta aflaheimildum meðan þær endast til þeirra skipa sem verða fyrir mestri skerðingu á milli fiskveiðiáranna þannig að skerðing umfram tiltekin mörk verði að fullu bætt, sbr. 10. gr. Skal aflaheimildum skipt milli tegunda í hlutfalli við samsetningu aflaheimilda Hagræðingarsjóðs og úthlutað þannig til einstakra skipa.
    (10. gr.)
                  Fyrir hvert fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni með aflahlutdeild, sbr. lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, skal reikna aflamark fyrir hverja tegund annars vegar fyrir fiskveiðiárið er hófst 1. september 1992 og hins vegar fyrir yfirstandandi fiskveiðiár miðað við aflahlutdeild viðkomandi skips af hverri tegund 1. september 1993. Skal miðað við úthlutað heildaraflamark hvors fiskveiðiárs fyrir hverja tegund að teknu tilliti til breytinga sem orðið hafa á heildaraflamarki fiskveiðiársins 1. september 1992 til 31. ágúst 1993. Við þessa útreikninga skal þó ekki taka tillit til úthlutunar á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs, sbr. bráðabirgðalög nr. 86/1993. Þannig reiknað aflamark hvers skips fyrir hvort fiskveiðiár um sig skal reiknað til þorskígilda miðað við verðmætastuðla, sbr. 5. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 274/1993. Sú hlutfallslega breyting, sem orðið hefur á aflaheimildum einstakra skipa milli fiskveiðiára miðað við framangreindar forsendur, skal lögð til grundvallar við úthlutun samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III.