Ferill 238. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 238 . mál.


273. Tillaga til þingsályktunar


um úrbætur í málum ungmenna sem flutt hafa til Íslands frá framandi málsvæðum.

Flm.: Guðrún J. Halldórsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson,

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Kristín Einarsdóttir.

    Alþingi ályktar að beina því til menntamálaráðherra að:
    Standa fyrir gerð kennsluefnis fyrir ungmenni af erlendu bergi um sögu, landafræði, náttúrufræði og félagsfræði. Kennsluefnið verði á einföldu en góðu íslensku máli og til þess ætlað að byggja brú yfir í efni almennra kennslubóka í íslenskum skólum.
    Beita sér fyrir því að tekin verði upp í grunnskólum íslenska sem annað mál fyrir þá nemendur sem eru nýkomnir til landsins eða aðfluttir frá framandi málsvæðum.

Greinargerð.

    Meðal hins mikla fjölda nýbúa, sem sest hafa hér að á undanförnum árum, er allstór hópur ungmenna á aldrinum 10 til 20 ára. Mörg koma þau frá framandi málsvæðum Asíu og Austur-Evrópu. Ungmenni frá Austur-Evrópu eiga tiltölulega auðvelt með að tileinka sér málfræði því yfirleitt tala þau tungu sem byggir á beygingafræði. Hins vegar er orðaforðinn allur nýr. Þau ungmenni sem koma frá Asíu tala yfirleitt tónamál og beygingafræði er þeim algjörlega framandi.
    Fyrstu skólaár þessara ungmenna fara því nær alfarið í að ná tökum á daglegum orðaforða og einföldustu beygingafræði. Innihald greina eins og þeirra sem að framan getur fer hreinlega fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum þeirra. Þess vegna flosna mörg þeirra upp úr skóla strax í 10. bekk og eiga oft ekki möguleika á að ná sér aftur á strik í námi. Þessi vandi var fáum ljós í upphafi innflytjendastraumsins hingað en er nú að koma betur og betur fram. Þannig glatast ár hvert út úr skólakerfinu nokkrir greindir og vel gerðir unglingar og er fyrirsjáanlegt að verði ekki gripið til ráða sem duga hið fyrsta mun þessi hópur fara sístækkandi og íslensk þjóð hefur ekki efni á að kasta þannig hæfileikum þeirra á glæ.
    Mörg ungmenni sem koma frá málsvæðum sem liggja nærri íslensku, svo sem germönskum, engilsaxneskum og norrænum málsvæðum, eiga við skamman vanda að stríða en þó þarf að veita þeim úrlausn. Því er lagt til að íslenska standi þeim til boða á námsskrá grunnskólanna sem annað mál áður en þau hefja venjulegt nám í íslensku móðurmáli.
    Ungmenni frá framandi málsvæðum þurfa að njóta sams konar fræðslu en mun lengur en aðrir. Þannig ber nauðsyn til að nýbúar geti tekið grunnskólapróf í íslensku sem öðru máli svo að þeir hafi möguleika á að komast áfram í skólakerfinu.
    Nauðsynlegt kennsluefni er:
    Einföld íslensk málfræði og stafsetning, reglur samdar með þarfir þessa tvískipta hóps í huga.
    Einfalt efni í framangreindum kennslugreinum sem einnig gæti nýst fleiri nemendum, þ.e. þeim sem ættu við lesvanda að stríða.
    Menntamálaráðuneytið hefur nú þegar gert allmikið átak í málum þessara ungmenna en betur má ef duga skal og því er þessi tillaga flutt.