Ferill 242. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 242 . mál.


280. Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 93 20. nóvember 1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)


1. gr.

    Á eftir síðasta málslið 1. mgr. 6. gr. kemur nýr málsliður er orðast svo: Þó er ráðherra heimilt að kveða á um í reglugerð í hvaða tilvikum sé ekki krafist slíkrar aðgreiningar.

2. gr.

    Við 22. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Sjávarútvegsráðherra skal ákvarða gjald fyrir þjónustu sem Fiskistofa veitir á grundvelli laga þessara.
    Gjald Fiskistofu fyrir viðurkenningu á skoðunarstofu skal vera 200.000 krónur. Ráðherra er heimilt að hækka gjaldið er nemur hlutfallslegri hækkun vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 42/1987, um vísitölu byggingarkostnaðar. Grunntaxti gjaldsins er miðaður við byggingarvísitölu í ágúst 1993, þ.e. 192,5 stig.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta var lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–1993. Ekki tókst að ræða frumvarpið til hlítar og er það því endurflutt.
    Gerðar hafa verið breytingar á 1. gr. frumvarpsins svo og á athugasemdum við lagafrumvarpið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 3. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, er fortakslaust ákvæði um að halda skuli sjávarafurðum, sem sérstaklega eru fluttar inn til vinnslu eða umpökkunar hér á landi en ætlaðar eru til endurútflutnings, aðgreindum frá innlendum afurðum þar til þær eru fluttar úr landi. Í ljós hefur komið að slík skilyrðislaus krafa um aðgreiningu getur í mörgum tilfellum leitt til umtalsverðra erfiðleika og mikils kostnaðarauka fyrir framleiðanda vörunnar. Þá er umrædd krafa um aðgreiningu ekki alltaf framkvæmanleg og má þar t.d. nefna landanir erlendra loðnuskipa í íslenskar fiskimjölsverksmiðjur. Á það skal einnig bent að ákvæði í fríverslunarsamningi Íslands og Evrópubandalagsins heimila framleiðanda vöru, sem telst upprunavara í skilningi fríverslunarsamninga EFTA og Evrópubandalagsins, að nota svonefnda bókhaldslega aðgreiningu í stað hlutlægrar aðgreiningar vegna notkunar sams konar efnivöru við framleiðslu afurða, sbr. reglugerð nr. 560/1983. Til að framleiðandi fái heimild til að beita bókhaldslegri aðgreiningu verður að liggja fyrir yfirlýsing um að framleitt sé úr sams konar efnivöru og að hlutlæg aðgreining sé óhagkvæm og kostnaðarsöm.
    Með hliðsjón af framansögðu er hér lagt til að sjávarútvegsráðherra fái heimild til að gefa út reglugerð sem leyfir samruna innflutts og innlends hráefnis á vinnslustigi afurðanna ef þurfa þykir og innflutningur uppfyllir skilyrði til að nota bókhaldslega aðgreiningu í stað hlutlægrar. Er við það miðað að gerðar verði sömu kröfur um heilnæmi innfluttra sjávarafurða og innlendra þannig að samruni þeirra geti undir engum kringumstæðum skaðað orðstír íslensks sjávarfangs.

2. gr.

    Með lögum nr. 91/1992, um stofnun hlutafélags um rekstur Ríkismats sjávarafurða, og lögum nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, voru gerðar umfangsmiklar skipulagsbreytingar á eftirliti með framleiðslu sjávarafurða. Tilgangur breytinganna var einkum að auka eftirlit með framleiðslu sjávarafurða en draga jafnframt úr opinberum umsvifum með því að færa almennt eftirlit til skoðunarstofa. Því var skoðunarstofum falið eftirlit með því að framleiðendur framfylgi opinberum kröfum og kröfum erlendra kaupenda varðandi hreinlæti, gæði og búnað. Opinbert eftirlit var flutt til gæðastjórnunarsviðs Fiskistofu. Hlutverk þess er m.a. útgáfa vinnsluleyfa, viðurkenning á skoðunarstofum og eftirlit með starfsemi þeirra ásamt útgáfu heilbrigðis- og upprunavottorða.
    Samkvæmt þessu skipulagi sem lögfest var með lögum nr. 93/1992 verða allir framleiðendur sjávarafurða, þar með talin fiskiskip, að fá vinnsluleyfi hjá Fiskistofu. Áður en vinnsluleyfi eru veitt verða framleiðendur að hafa gert samning við viðurkennda skoðunarstofu. Skoðunarstofur aðstoða vinnsluleyfishafa við að koma á innra eftirliti með framleiðslu sinni og fylgjast reglubundið með því eftirliti, ásamt hreinlæti og búnaði fyrirtækjanna. Fiskistofa veitir skoðunarstofu viðurkenningu að undangenginni viðamikilli úttekt. Fiskistofa fylgist með störfum skoðunarstofa annars vegar með reglubundnum skoðunum hjá einstökum vinnsluleyfishöfum og hins vegar á grundvelli skýrslna frá skoðunarstofum.
    Ríkar skyldur eru því lagðar á Fiskistofu um þjónustu við sjávarútveginn. Þær athuganir sem stofan þarf að gera til að tryggja að sjávarafurðir uppfylli heilbrigðiskröfur helstu viðskiptaþjóða eru í senn umfangsmiklar og kostnaðarsamar. Þá hefur komið í ljós að Evrópubandalagið gerir mun meiri kröfur um opinbert eftirlit með framleiðslunni en reiknað var með þegar ný lög um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra voru samþykkt. Fleiri verkefni hafa því lent hjá Fiskistofu en ráð var fyrir gert. Í lögum nr. 53/1984, um Ríkismat sjávarafurða, var ákvæði er heimilaði gjaldtöku og aflaði stofnunin umtalsverðra sértekna fyrir sértæka þjónustu við framleiðslufyrirtækin, t.d. við útgáfu vottorða. Má þar nefna að Ríkismat sjávarafurða innheimti 500 kr. fyrir hvert útflutningsvottorð sem stofnunin gaf út. Í lögum nr. 93/1992 er ekki gjaldtökuheimild. Fiskistofa hefur því innheimt gjald fyrir útflutningsvottorð samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Samkvæmt þeirri gjaldskrá kostar útflutningsvottorð 1.000 kr. og rennur fjárhæðin beint í ríkissjóð. Í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af þessu nýja fyrirkomulagi við eftirlit með sjávarafurðum þykir eðlilegt að Fiskistofa geti aflað sér sértekna fyrir hluta þeirrar þjónustu sem hún veitir framleiðendum enda er það í samræmi við stefnu stjórnvalda að sá sem nýtur sértækrar þjónustu greiði fyrir hana eðlilegt þjónustugjald. Því er hér lagt til að sjávarútvegsráðherra hafi heimild til að ákvarða gjaldskrá sem notuð verði til að innheimta tekjur til að standa undir kostnaði af sértækri þjónustu Fiskistofu.
    Fiskistofa á að viðurkenna starfsemi skoðunarstofa. Sú úttekt sem Fiskistofa þarf að framkvæma til að geta veitt viðurkenningu er bæði tímafrek og krefst mikillar nákvæmni. Því er í frumvarpi þessu lagt til að gjald, sem Fiskistofa innheimtir fyrir viðurkenningu á skoðunarstofu, verði 200.000 krónur.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.