Ferill 245. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 245 . mál.


284. Frumvarp til laga


um kirkjumálasjóð.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)


1. gr.

    Stofna skal sjóð er nefnist kirkjumálasjóður.

2. gr.

    Ríkissjóði ber að skila kirkjumálasjóði árlega af tekjuskatti gjaldi er nemur 11,3% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld. Gjaldið greiðist mánaðarlega.

3. gr.

    Kirkjumálasjóður skal skila á hverju ári fjárhæð er rennur til prestssetrasjóðs eftir nánari ákvörðun kirkjuráðs. Framlagið skal eigi nema lægri fjárhæð en 52 milljónum króna og skal sú fjárhæð endurskoðuð árlega með hliðsjón af byggingarvísitölu í júlímánuði. Framlagið skal innt af hendi með jöfnum mánaðarlegum greiðslum.

4. gr.

    Auk framlags í prestssetrasjóð, sbr. 3. gr., skal kirkjumálasjóður standa straum af kostnaði við eftirtalið eftir nánari ákvörðun kirkjuráðs:
    Kirkjuþing, kirkjuráð og prestastefnu.
    Biskupsgarð.
    Ráðgjöf í fjölskyldumálum (fjölskylduþjónustu kirkjunnar).
    Söngmálastjórn og tónlistarfræðslu á vegum þjóðkirkjunnar.
    Starfsþjálfun guðfræðikandídata.
    Önnur verkefni.

5. gr.

    Kirkjuráð hinnar íslensku þjóðkirkju hefur á hendi umsjá og stjórn kirkjumálasjóðs og ber ábyrgð fyrir kirkjuþingi á stjórn hans. Kirkjuráð semur árlega fjárhagsáætlun fyrir sjóðinn er kynnt skal dóms- og kirkjumálaráðuneytinu fyrir lok maímánaðar ár hvert. Áætlun skal einnig kynnt kirkjuþingi.
    Reikningshald sjóðsins skal vera í höndum biskupsstofu og reikningsleg endurskoðun framkvæmd af Ríkisendurskoðun.

6. gr.

    Lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36 4. maí 1993, breytast þannig:
         
    
    1. tölul. 1. mgr. 39. gr. orðast svo: Á árinu 1994 skal gjaldið vera 139,88 kr. á einstakling á mánuði.
         
    
    Í stað „1994“ í 2. tölul. 1. mgr. 39. gr. kemur: 1995.
    Lög um kirkjuþing og kirkjuráð hinnar íslensku þjóðkirkju, nr. 48 11. maí 1982, breytast þannig:
         
    
    Við 2. mgr. 1. gr. bætist: nema kirkjuþing geri aðra skipan þar á.
         
    
    14. gr. laganna orðast svo: Kirkjuþing kýs þingfararkaupsnefnd er ákvarðar dagpeninga, ferðakostnað og þóknun til kirkjuþingsmanna.
         
    
    2. málsl. 17. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994 en skulu koma til endurskoðunar eigi síðar en fjórum árum eftir gildistöku þeirra.
    Jafnframt falla úr gildi lög um söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar, nr. 3 24. febrúar 1981, frá sama tíma.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Kirkjumálasjóður skal starfrækja embætti söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar áfram, eins og við getur átt, til loka vormissiris 1995. Lokapróf frá Tónskólanum til þess tíma veitir sömu réttindi og aðrir tónlistarskólar, þ.e. til starfa sem organisti og sem kennari í tónlist. Tónskólinn skal til þess tíma kenna í samræmi við námsskrá sem hlotið hefur staðfestingu menntamálaráðuneytisins. Nemendur Tónskólans öðlast að öðru leyti réttindi í samræmi við þá áfanga (námsstig) sem þeir ljúka í námi og í samræmi við ákvæði í reglugerð.
    Fastráðnir starfsmenn söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar skulu hafa rétt til áframhaldandi og sambærilegra starfa hjá söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar eftir að lög þessi öðlast gildi. Söngmálastjóri skal eiga sama rétt til áframhaldandi óbreyttra starfa. Forstöðumaður fjölskylduþjónustu kirkjunnar skal eiga rétt til áframhaldandi og sambærilegra starfa við fjölskylduþjónustuna við gildistöku laga þessara. Ákvæði 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38 14. apríl 1954, á því ekki við um þessa starfsmenn.
    Eignir þær, sem ríkið hefur lagt Tónskóla þjóðkirkjunnar til, renna til skólans við gildistöku laga þessara.
    Húseignin að Bergstaðastræti 75, Reykjavík, ásamt leigulóðarréttindum verður eign kirkjumálasjóðs við gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarpi þessu, sem flutt er samhliða frumvarpi til laga um prestssetur, er ætlað að færa stjórnsýslu á sviði kirkjumála frá ríkisvaldinu til þjóðkirkjunnar, auk þess sem þeirri bráðabirgðaskipan mála, sem mælt er fyrir um í lögum um fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, nr. 115 29. desember 1992, er komið í varanlegt horf. Í þessu skyni er gert ráð fyrir stofnun sérstaks sjóðs, kirkjumálasjóðs, er lúti stjórn kirkjuráðs. Frumvarpið er í samræmi við löggjöf um Kristnisjóð og Jöfnunarsjóð sókna eins og við getur átt. Verkefni, sem sjóðnum eru ætluð, eru ýmis kirkjuleg málefni, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Auk þess er sjóðnum ætlað að standa straum af kostnaði við prestssetur landsins að miklu leyti.
    Tekjur sjóðsins verða hlutdeild í tekjuskatti sem reiknast sem hlutfall af þeim hluta sóknargjalda er renna til þjóðkirkjusafnaða. Hlutdeild kirkjugarða í tekjuskatti verður lækkuð að sama skapi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er mælt fyrir um að stofnsettur skuli sérstakur sjóður er nefnist kirkjumálasjóður.

Um 2. gr.

    Samkvæmt ákvæði þessu ber ríkissjóði að skila kirkjumálasjóði af tekjuskatti gjaldi sem reiknast hlutfallslega af sóknargjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða.
    Ráðgert er að kirkjumálasjóður hafi svipaða fjárhæð til að sinna verkefnum þeim sem tilgreind eru í frumvarpi þessu og veitt er til þeirra á fjárlögum yfirstandandi árs, auk þess sem tekið er tillit til kostnaðar við stjórn, rekstur o.fl. eftir því sem við á. Samkvæmt því er kostnaður við þau verkefni sem kirkjumálasjóði er ætlað að sinna, sbr. 3. gr. frumvarpsins, 87,3 millj. kr. á ári.
    Að mati Hagstofunnar má reikna með að fjöldi þjóðkirkjumanna, 16 ára og eldri, 1. desember 1993 muni verða u.þ.b. 180.000. Fjöldi þeirra 1. desember 1992 var 177.797. Sóknargjald ársins 1993 er 358,78 kr. á mánuði á hvern einstakling, 16 ára og eldri 1. desember 1992. Sóknargjald tekur breytingum árlega í samræmi við þá breytingu á meðaltekjuskattsstofni sem kann að hafa orðið á milli tveggja næstliðinna tekjuára á undan gjaldári. Þjóðhagsstofnun telur ætlandi að meðaltekjuskattsstofn einstaklinga milli tekjuáranna 1992 og 1993 verði sem næst óbreyttur. Sóknargjöld árið 1994 breytast því ekki samkvæmt því og ættu þau því að verða samtals um 775 millj. kr. Tekjustofn sjóðsins er við þetta miðaður, þannig að 11,3% viðbót við sóknargjöld á að skila sjóðnum 87,3 m. kr.

Um 3. gr.

    Kirkjumálasjóði, ásamt leigutekjum af prestssetrum, er ætlað að kosta viðfangsefni prestssetrasjóðs. Lagt er til að árlegt framlag til prestssetrasjóðs verði ákveðið sem föst fjárhæð. Af eðli viðfangsefna sjóðsins leiðir að tryggja verður sjóðnum öruggan tekjustofn sem auðveldar jafnframt alla stjórnsýslu sjóðstjórnar og áætlanagerð. Gert er ráð fyrir að lágmarksframlag þetta taki breytingum í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu. Er lagt til að lágmarksframlagið verði endurskoðað með þeim hætti í júlímánuði ár hvert og er þá unnt að sjá hvert lágmarksframlag næsta árs verður. Í frumvarpi til laga um prestssetrasjóð kemur fram að fjárþörf sjóðsins er um 62 millj. kr. á ári og að teknu tilliti til leigutekna, sem taldar eru geta skilað u.þ.b. 10 millj. kr. á ári, þurfi prestssetrasjóður því að lágmarki 52 millj. kr. á ári. Kirkjuráð getur ákveðið að veita viðbótarfé úr kirkjumálasjóði til prestssetrasjóðs umfram lágmarksfjárhæð þá sem hér um ræðir.

Um 4. gr.

    Hér eru talin upp þau verkefni sem sjóðnum er ætlað að kosta. Hér er um sömu verkefni að ræða og tiltekin eru í 31. gr. laga nr. 115/1992. Auk þess er lagt til að sjóðurinn taki við og annist um biskupsgarð, embættisbústað biskups. Kirkjan mun væntanlega hafa aðra fasteignaumsýslu á sinni hendi samkvæmt því sem ráðgert er og er því þessi ráðstöfun biskupsgarðs eðlileg í því ljósi.
    Kirkjuþing, kirkjuráð og prestastefna. Framlag á fjárlögum 1993 til kirkjuþings er 3,9 millj. kr., til kirkjuráðs 900 þús. kr. og til prestastefnu 600 þús. kr. Samtals nema framlög þessi 5,4 millj. kr. Ferðakostnaður, þar með taldir dagpeningar vegna prestastefnu 1993, nam 2,9 millj. kr. Ákvæði um prestastefnu eru í lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, nr. 62 17. maí 1990, en um kirkjuþing og kirkjuráð í lögum nr. 48 11. maí 1982.
    Biskupsgarður. Erfitt er að segja nákvæmlega fyrir um hver kostnaður við rekstur fasteignarinnar verður enda getur það verið breytilegt frá einu ári til annars. Biskupsstofa hefur annast um biskupsgarð hin síðari ár. Að mati dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og biskupsstofu má gera ráð fyrir að árlegur rekstrarkostnaður geti numið um 800 þús. kr. að jafnaði á ári og er þá allt viðhald meðtalið.
    Ráðgjöf í fjölskyldumálum. Kirkjan starfrækir svonefnda fjölskylduþjónustu kirkjunnar. Framlag á fjárlögum til þess málaflokks á yfirstandandi ári nemur 2,2 millj. kr.
    Kostnaður við embætti söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og Tónskóla þjóðkirkjunnar, sbr. lög nr. 3 24. febrúar 1981, er greiddur úr ríkissjóði en á síðasta ári var mælt um þau atriði í lögum nr. 115/1992. Framlag á fjárlögum 1993 nemur 15,6 millj. kr. og er þá tekið tillit til sértekna sem talið er að verði um 1,3 millj. kr. Kirkjumálasjóður mun yfirtaka rekstur hvors tveggja en lög nr. 3/1981 verða afnumin.
    Starfsþjálfun guðfræðikandídata. Framlag til starfsþjálfunar guðfræðikandídata á fjárlögum 1993 er 2,8 millj. kr. Um starfsþjálfun guðfræðikandídata er fjallað í lögum nr. 62/1990, sbr. reglugerð um starfsþjálfun guðfræðikandídata nr. 89 12. febrúar 1991.
    Ýmis verkefni. Á fjárlögum ársins 1993 er hluti af fjárveitingu til embættis biskups Íslands ætlaður til ýmissa verkefna eins og þar segir og nemur framlagið 5,6 millj. kr. Ráðgert er að kirkjumálasjóður standi eftirleiðis straum af þessum kostnaði. Þessari fjárveitingu hefur verið varið til að standa straum af kostnaði við Biblíuþýðingu og safnaðaruppbyggingu.
    Árleg útgjöld kirkjumálasjóðs til prestssetrasjóðs og verkefna samkvæmt þessu ákvæði nema samtals 87,3 millj. kr.

Um 5. gr.

    Lagt er til að kirkjuráð, sem starfar samkvæmt lögum nr. 48/1982 og fer með ýmis sameiginleg mál þjóðkirkjunnar, fari með stjórn sjóðsins. Kirkjuráð hefur einnig með höndum umsjá Kristnisjóðs og Jöfnunarsjóðs sókna og er því eðlilegt og hagkvæmt að skipa málum á þennan veg.
    Ákvæði þetta er samhljóða samsvarandi ákvæðum í lögum um Kristnisjóð o.fl., nr. 35 9. maí 1970, og í lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91 29. desember 1987.

Um 6. gr.

    Kirkjugarðsgjald árið 1994 samkvæmt frumvarpi þessu verður 139,88 kr. á mánuði.
    Árið 1993 átti hlutdeild kirkjugarða í óskiptum tekjuskatti að nema 177 kr. á mánuði á hvern einstakling 16 ára og eldri í árslok 1992 en skv. 3. gr. laga nr. 115/1992 lækkaði það um 20% og varð gjaldið 141,60 kr. á mánuði. Gjaldendur þess hluta kirkjugarðsgjalds á þessu ári (fjöldi þeirra 1. desember 1992) eru 193.434 manns, en Hagstofan áætlar að fjöldi manna 16 ára og eldri 1. desember 1993 (sem verður þá fjöldi gjaldenda á árinu 1994) verði um 196.000 manns. Að mati Þjóðhagsstofnunar má ætla að meðaltekjuskattsstofn einstaklinga milli tekjuáranna 1992 og 1993 verði sem næst óbreyttur. Samkvæmt því ætti þessi hluti kirkjugarðsgjalds árið 1994 einnig að verða 177 kr. á mánuði. Óskert hlutdeild kirkjugarða í tekjuskatti árið 1994 gæti því numið um 416,3 millj. kr. Kirkjumálasjóður þarf 87,3 millj. kr. á ári til ráðstöfunar eins og fyrr segir og verður það því sú fjárhæð sem hlutdeild kirkjugarða í óskiptum tekjuskatti lækkar um. Hlutdeild kirkjugarða í tekjuskatti árið 1994 verður samkvæmt þessu 329 millj. kr. Mánaðarlegt kirkjugarðsgjald verður því 139,88 kr. á mánuði árið 1994 og er lagt til að sú fjárhæð verði lögfest, svo og að um árlegar breytingar á henni fari eins og verið hefur þannig að stuðst sé við hækkun á meðaltekjuskattsstofni tveggja næstliðinna tekjuára á undan gjaldári.
    Breytingar á lögum um kirkjuþing og kirkjuráð hinnar íslensku þjóðkirkju fela í sér að kirkjumálasjóður kostar hvort tveggja. Jafnframt að kirkjuþing geti ákveðið tíðni og lengd þinghalda, auk þingtíma.

Um 7. gr.

    Hér er mælt fyrir um gildistöku frumvarpsins sem er í samræmi við gildistökuákvæði frumvarps til laga um prestssetur. Gildistakan er miðuð við áramót, enda taka lög nr. 115/1992 ekki til lengri tíma. Lagt er til að lög um söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar, nr. 3/1981, verði felld úr gildi. Með hliðsjón af þeim breytingum á yfirstjórn og rekstri embættis söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar, sem lagafrumvarp þetta felur í sér, þykir ekki nauðsynlegt að hafa sérstök lög eftirleiðis er mæli fyrir um þessi atriði.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Mælt er fyrir um að kirkjumálasjóður skuli reka embætti söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar með sama hætti og verið hefur eins og við getur átt og að starfsfólk skuli halda störfum sínum óbreyttum. Ákvæði þetta er sett til að tryggja hagsmuni starfsfólks og nemenda Tónskólans með sanngjörnum hætti. Þannig er gert ráð fyrir að nemendur, sem þegar hafa hafið nám við Tónskólann, eigi þess kost að ljúka því og öðlast þau réttindi sem greinir í lögum nr. 3/1981.
    Að öðru leyti er gengið út frá því að kirkjan ákveði hvernig fyrirkomulagi söngmálastjórnar og tónmennta þjóðkirkjunnar verður háttað að liðnum þeim tíma sem ákvæði þetta tiltekur.
    Eðlilegt er að eignir þær, sem skólanum hafa verið lagðar til, haldist þar áfram og er því mælt fyrir um að þær skuli verða eignir Tónskólans. Samkvæmt lögum nr. 3/1981 greiðir ríkið kostnað við stofnbúnað og rekstur skólans.
    Forstöðumaður fjölskylduþjónustu kirkjunnar heldur störfum sínum óbreyttum þrátt fyrir breytingar þær sem frumvarp þetta mælir fyrir um.
    Með því að kirkjumálasjóður yfirtekur umsjón og rekstur biskupsgarðs þykir eðlilegt að afhenda sjóðnum núverandi biskupsgarð, húseignina að Bergstaðastræti 75, Reykjavík, til fullrar eignar og umráða.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um kirkjumálasjóð.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að ákveðin útgjöld til kirkjumála, sem fé hefur fram til þessa verið veitt til af fjárlögum, verði í framtíðinni kostuð af sjóði sem nefnist kirkjumálasjóður. Samhliða frumvarpi þessu er flutt frumvarp til laga um prestssetur.
    Í 2. gr. er ríkissjóði gert að skila kirkjumálasjóði árlega 11,3% til viðbótar þeim gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða. Hluta kirkjumálasjóðs er síðan ætlað að kosta þá útgjaldaliði sem taldir eru upp í 3. og 4. gr. Á móti kemur ákvæði í 1. tölul. a í 6. gr. þar sem kirkjugarðsgjald er lækkað úr 177 kr. í 139,88 kr. á mánuði. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er lækkuninni skv. 6. gr. ætlað að vera jafnhá viðbótinni skv. 2. gr.
    Þeir útgjaldaliðir, sem kirkjumálasjóði og prestssetrasjóði er ætlað að kosta á ári komanda, eru sem hér segir:

Fjárlaga- Heiti viðfangsefnis

M.kr.

númer

    1994

06-701-1.11-1.14     Kirkjuráð, kirkjuþing, prestastefna     
5,5

06-712-5.01     Biskupsgarður (viðhald prestssetra)     
*

06-790-1.12     Ráðgjöf í fjölskyldumálum     
2,2

06-721     Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar     
15,7

06-701-1.05     Starfsþjálfun guðfræðikandídata     
2,8

06-701-1.15     Ýmis verkefni     
3,0

Samtals vegna kirkjumálasjóðs     
29,2

06-712-5.01     Viðhald prestssetra     
44,6

06-711-1.10     Prestar og prófastar     
5,1

              Prestssetur, nýbyggingar og kaup      8,4
Samtals vegna prestssetrasjóðs     
58,1


Alls     
87,3


* Ekki er til sérstakur liður í fjárlagafrumvarpi 1994 fyrir þessum kostnaðarþætti heldur er viðhald biskupsgarðs kostað af liðnum viðhald prestssetra.

    Allar ofangreindar fjárhæðir eru í fjárlagafrumvarpi 1994 nema sú síðasttalda, 8,4 m.kr. til nýbyggingar prestssetra og kaupa eigna á prestssetursjörðum.
    Í greinargerð frumvarpsins er ítarlega skýrt frá áhrifum á tekju- og gjaldahlið ríkissjóðs af samþykkt þessa frumvarps. Er þar miðað við fjárlög 1993. Í fjárlagafrumvarpi 1994 hefur verið gert ráð fyrir að skipan fjármála kirkjunnar verði með álíka sniði og í fjárlögum 1993. Eins og það er lagt fyrir nú í upphafi þings er gert ráð fyrir að 20% af hlutdeild kirkjugarðanna í tekjuskatti verði varið til að kosta tiltekin verkefni á árinu á grundvelli laga nr. 115/1992 og er hlutur kirkjunnar af tekjuskatti þar með skertur tekju megin í fjárlagafrumvarpinu um sem næst 87,3 m.kr. Verði frumvarp til laga um kirkjumálasjóð samþykkt er nauðsynlegt að sú breyting verði gerð á fjárlagafrumvarpi 1994 að útgjöld til þeirra liða, sem nú koma gjalda megin, falli niður úr fjárlagafrumvarpi og á móti falli niður samsvarandi skerðing tekju megin. Nettóáhrifin á afkomu ríkissjóðs eru því engin.
    Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að fastráðnir starfsmenn söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar skuli hafa rétt til áframhaldandi og sambærilegra starfa hjá söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar. Sama gildir um forstöðumann fjölskylduþjónustu kirkjunnar. Ákvæði 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38 14. apríl 1954, eiga því ekki við um þessa starfsmenn. Þetta þýðir að umræddir starfsmenn eiga ekki rétt til biðlauna þótt þeir hætti hér með að vera ríkisstarfsmenn. Einnig verður að álykta að verðtrygging lífeyrisskuldbindinga umræddra starfsmanna verði á ábyrgð kirkjunnar frá sama tíma.
    Þá er gert ráð fyrir að eignir ríkissjóðs, tengdar Tónskóla þjóðkirkjunnar, renni til skólans við gildistöku laga þessara. Ekki hefur verið lagt mat á þessar eignir enda taldar óverulegar. Loks er gert ráð fyrir að húseignin að Bergstaðastræti 75, Reykjavík, ásamt leigulóðarréttindum verði eign kirkjumálasjóðs. Fasteignamat húss og lóðar er 16,5 m.kr. og brunabótamat húss 30,5 m.kr. Þykir rétt að líta á þetta sem stofnframlag ríkisins til kirkjumálasjóðs.