Ferill 76. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 76 . mál.


294. Nefndarálit


um frv. til l. um breytingu á lánsfjárlögum fyrir árið 1993 o.fl., nr. 3/1993.

Frá fjárlaganefnd.


    Nefndin hefur haft frumvarpið til meðferðar en það er flutt vegna þess að heildarlánsfjárþörf ríkisins á árinu er meiri en gert var ráð fyrir við upphaflega afgreiðslu lánsfjárlaga fyrir árið 1993.
    Á fund nefndarinnar komu til viðræðna um frumvarpið Jón Birgir Jónsson, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu, og Magnús Pétursson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneyti. Auk þess var leitað álits efnahags- og viðskiptanefndar í samræmi við ákvæði í 25. gr. þingskapa. Það álit er birt sem fylgiskjal með nefndarálitinu.
    Gildandi heimildir í lánsfjárlögum til erlendrar lántöku á yfirstandandi ári eru fullnýttar. Lánsfjárþörf ríkissjóðs á árinu hefur vaxið og óhjákvæmilegt er að veita frekari heimildir. Vakin skal athygli á að við uppsetningu lánsfjárlaga fyrir árið 1994 er ekki gert ráð fyrir að sundurliða heimildir í erlendar og innlendar lántökur.
    Með vísan til þess sem að framan segir mælir nefndin með samþykkt frumvarpsins.
    Guðrún Helgadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 23. nóv. 1993.


Sigbjörn Gunnarsson,

Sturla Böðvarsson.

Margrét Frímannsdóttir,

form., frsm.

með fyrirvara.


Árni M. Mathiesen.

Drífa Hjartardóttir.

Einar K. Guðfinnsson.


Gunnlaugur Stefánsson.

Jón Kristjánsson,

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir,

með fyrirvara.

með fyrirvara.


Valgerður Sverrisdóttir,

með fyrirvara.




Fylgiskjal.

Álit


um frv. til l. um breyting á lánsfjárlögum fyrir árið 1993 o.fl., nr. 3/1993.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur haft til umfjöllunar frumvarp um breyting á lánsfjárlögum fyrir árið 1993 o.fl., nr. 3/1993. Frumvarpið er lagt fram þar sem heildarlánsfjárþörf ríkisins á árinu er meiri en gert var ráð fyrir við upphaflega afgreiðslu lánsfjárlaga fyrir árið 1993.
    Á fund nefndarinnar komu til viðræðna um frumvarpið Gylfi Þórðarson og Stefán Reynir Kristinsson frá Speli hf., Jón Birgir Jónsson, ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneyti, og Magnús Pétursson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneyti.
    Fram kom að heimildir í gildandi lánsfjárlögum til erlendrar lántöku á yfirstandandi ári eru fullnýttar. Ljóst er að lánsfjárþörf ríkissjóðs á árinu hefur vaxið og óhjákvæmilegt er að veita auknar lántökuheimildir. Í samræmi við uppsetningu frumvarps til lánsfjárlaga fyrir árið 1994 er ekki gert ráð fyrir að sundurliða þessar auknu heimildir í innlendar og erlendar lántökur.
    Með vísan til þessa mælir nefndin með samþykkt frumvarpsins.

Alþingi, 18. nóv. 1993.


Jóhannes Geir Sigurgeirsson, starf. form., með fyrirvara.

Ingi Björn Albertsson.

Steingrímur J. Sigfússon, með fyrirvara.

Guðjón Guðmundsson.

Valgerður Sverrisdóttir, með fyrirvara.

Geir H. Haarde.

Guðrún J. Halldórsdóttir, með fyrirvara.

Drífa Hjartardóttir.

Gísli S. Einarsson.


Bókun (SJS).
    Ég rita undir álitið með fyrirvara og lýtur hann m.a. að tengslum frumvarpsins og efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og frammistöðu hennar í ríkisfjármálum.


Bókun (GJH).
    Ég rita undir álitið með fyrirvara og lýtur hann að því að Spölur hf. skyldi, að því er virðist í samráði við ríkisstjórnina, telja sér heimilt að eyða fyrir fram stórum hluta þess fjár sem nú er sótt um heimild til að taka að láni erlendis.