Ferill 105. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 105 . mál.


305. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1993.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Það fjáraukalagafrumvarp sem hér er til afgreiðslu er prófsteinn á stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í ríkisfjármálum og efnahagsmálum. Minni hluti fjárlaganefndar tekur ekki ábyrgð á þeirri stefnu sem fjáaukalagafrumvarpið er afleiðing af og skilar því séráliti.
    Í frumvarpinu er sótt um heimild til viðbótarútgjalda upp á 4,1 milljarð kr. og breytingartillögur meiri hlutans nema 335 millj. kr. Samkvæmt áætlun dragast heildartekjur ríkissjóðs saman um 3,2 milljarða kr. Halli ríkissjóðs á árinu 1993 verður því samkvæmt áætlun 13,8 milljarðar kr. í stað 6,2 milljarða kr. sem fjárlög gerðu ráð fyrir.
    Að mati minni hlutans valda hér einkum ákvarðanir ríkisstjórnar og meiri hluta Alþingis við fjárlagagerð fyrir yfirstandandi ár sem ljóst var að stæðust ekki. Þessi atriði voru afdrifaríkust í þessu efni:
    Þegar fjárlög voru samþykkt voru kjarasamningar lausir og ljóst var að ríkissjóður mundi verða fyrir útgjöldum vegna þeirra. Þessi útgjöld eru 2 milljarðar kr., þar af 1 milljarður kr. í framkvæmdir. Eins og fram kemur í yfirliti, sem fylgir frumvarpinu, eru 558 millj. kr. yfirfærsla frá árinu 1992 en nýjar heimildir upp á 487 millj. kr. Ekkert samráð var haft við fjárlaganefnd um skiptingu þessa fjár, og mótmælir minni hlutinn því harðlega. Og þrátt fyrir að atvinnuleysi sé mun meira meðal kvenna en karla eru aðeins 60 millj. kr. til atvinnusköpunar fyrir konur. Þar sem hlutaðeigandi aðilum hefur löngu verið tilkynnt um þessa skiptingu, og þeir farnir að gera ráðstafanir í samræmi við hana í góðri trú, telur minni hlutinn ekki fært að flytja breytingartillögur varðandi hana.
    Í forsendum fjárlaga var atvinnuleysi áætlað 3%, en ljóst er að það verður a.m.k. 4,5% á yfirstandandi ári. Þetta þýðir viðbótarútgjöld um 1,2 milljarða kr. Atvinnuleysi er nú mesti vandi ríkisfjármálanna og gætir áhrifa þess bæði á tekju- og gjaldahlið fjárlaga, auk viðbótarframlaga í atvinnuleysistryggingarsjóð hefur sjóðunum verið gert að ganga á eigið fé.
    Ríkisstjórnarákvarðanir sem knúðar voru í gegn við afgreiðslu fjárlaga og ekki hafa gengið eftir eru ein höfuðorsökin fyrir þeim viðbótarheimildum til útgjalda sem nú þarf að sækja um. Þar má í fyrsta lagi nefna að áform um víðtæka einkavæðingu hafa ekki náð fram að ganga. Reiknað var með tekjum vegna sölu ríkisfyrirtækja um 1.500 millj. kr., en samkvæmt áætlun nú verða tekjurnar 100 millj. kr. vegna þessara aðgerða. Hætt var við sölu á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins sem þýðir viðbótarframlag til Hafrannsóknastofnunar um 300 millj. kr. Boðað hefur verið að með frumvarpi um Þróunarsjóð sjávarútvegsins verði ákvæði um að úthluta aflaheimildum sjóðsins án endurgjalds. Nú má telja ólíklegt að frumvarpið komi til afgreiðslu á yfirstandandi ári og samkvæmt lögum er skylt að bjóða aflaheimildir sjóðsins á yfirstandandi fiskveiðiári til sölu. Það er því alls óvíst hver verður niðurstaðan í þessu máli og hefur ekki fengist upplýst í meðförum fjárlaganefndar.
    Samkvæmt fjáraukalagafrumvarpinu má rekja 2 milljarða kr. tekjutap ríkissjóðs til aukins efnahagssamdráttar. Af þessu má ljóst vera að tveir meginþættir í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hafa brugðist. Atvinnuleysi hefur aukist og efnahagssamdrátturinn og tekjutapið af þeim sökum bætist við þann útgjaldavanda sem af því leiðir.
    Að öðru leyti en hér hefur verið rakið að framan flytur meiri hlutinn nokkrar breytingartillögur við fjáraukalagafrumvarpið. Minni hlutinn gerir ekki athugasemdir við þær tillögur, en vill þó taka fram varðandi 20 millj. kr. framlag til eflingar heimilis- og listiðnaði sem er undir umsjón forsætisráðuneytisins að eðlilegt væri að framlög til þessara mála væru ekki dreifð um mörg ráðuneyti og haft sé samráð við fjárlaganefnd um úthlutun á þessu fé. Það færist mjög í vöxt að framkvæmdarvaldið reyni að sniðganga Alþingi í úthlutun fjármuna.
    Gerð er tillaga um að St. Jósefsspítali á Landakoti fái 100 millj. kr. fjárveitingu, þegar tekið er tillit til 10 millj. kr. framlags af liðnum 08-370 Sjúkrahús í Reykjavík, stofnkostnaður, sem verði breytt í rekstrarframlag. Hér er um að ræða fjárveitingu til þess að greiða skuldir Landakotsspítala sem m.a. eru tilkomnar vegna illa undirbúinna skipulagsbreytinga og niðurskurðar vegna sameiningar sjúkrahúsanna í Reykjavík. Sömuleiðis er gerð tillaga um að St. Jósefsspítali í Hafnarfirði fái 27 millj. kr. vegna uppsafnaðs vanda í rekstri spítalans.
    Áform um sölu Þvottahúss ríkisspítalanna hafa ekki gengið eftir og lækka sértekjur þeirra vegna þessa um 60 millj. kr. sem nemur áætluðum tekjum af sölu hlutabréfa. Ekki er gert ráð fyrir að bæta ríkisspítölunum nema helming þessarar upphæðar, eða 30 millj. kr., og ljóst er að draga verður verulega úr þjónustu ef takast á að spara í rekstri um 30 millj. kr. á þessum eina mánuði sem eftir er ársins. Minni hlutinn telur ekki fært annað en að bæta þetta að fullu þar sem hér var um ákvarðanir að ræða sem ekki voru í valdi stjórnenda ríkisspítalanna og flytur um það breytingartillögu. Minni hlutinn bendir á að innheimta tekjuskatts, sem rennur til sveitarfélaga í stað aðstöðugjalds að upphæð 4 milljarðar kr., kemur ekki fram í fjárlögum eða fjáraukalögum. Í trausti þess að ríkisreikninganefnd, sem vinnur nú að samræmingu á framsetningu fjárlaga og ríkisreiknings, muni skila sameiginlegum tillögum um þetta mál innan tíðar flytur minni hlutinn ekki breytingartillögu um málið.
    Minni hluti telur að fjáraukalagafrumvarpið 1993 sýni að útgjöld ríkissjóðs hafa farið fram úr áætlunum vegna rangra og óraunsærra ákvarðana sem teknar voru af stjórnvöldum við fjárlagagerð fremur en að rekstur einstakra stofnana hafi farið úr böndunum. Það hefur komið í ljós að ekki var samstaða þegar til átti að taka í stjórnarliðinu um ákvarðanir sem teknar voru af meiri hluta Alþingis þegar fjárlög voru samþykkt. Það hefur ekki tekist að vinna bug á atvinnuleysinu né samdrætti og svartsýni sem því fylgir, efnahagsstefnan hefur beðið skipbrot og ljóst að vaxandi atvinnuleysi er fram undan. Minni hlutinn getur því ekki borið ábyrgð á því fjáraukalagafrumvarpi sem hér er lagt fram vegna þess að það er óaðskiljanlegur þáttur efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Minni hlutinn mun því sitja hjá við afgreiðslu frumvarpsins, en áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum.
    Margrét Frímannsdóttir var fjarstödd afgreiðslu málsins.

Alþingi, 1. des. 1993.



Jón Kristjánsson,

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Guðrún Helgadóttir.


frsm.



Guðmundur Bjarnason.