Ferill 272. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 272 . mál.


332. Frumvarp til lagaum breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)1. gr.


    Við 1. mgr. 10. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir sem orðast svo: Húsnæðismálastjórn getur, að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, tekið ákvörðun um að sjóðurinn verði varðveittur á annan hátt að nokkru leyti eða öllu ef það er talið auka möguleika sjóðsins á ávöxtun án þess að hafa í för með sér áhættu fyrir hann. Þess skal gætt að sjóðurinn hafi jafnan nægilegt laust fé til að standa við skuldbindingar sínar.

2. gr.


    Í stað 1. og 2. málsl. 1. mgr. 48. gr. laganna kemur: Byggingarsjóður verkamanna er í vörslu Seðlabanka Íslands. Húsnæðismálastjórn getur, að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, tekið ákvörðun um að sjóðurinn verði varðveittur á annan hátt að nokkru leyti eða öllu ef það er talið auka möguleika sjóðsins á ávöxtun án þess að hafa í för með sér áhættu fyrir hann. Þess skal gætt að sjóðurinn hafi jafnan nægilegt laust fé til að standa við skuldbindingar sínar.
    Fjár til sjóðsins skal aflað sem hér segir:

3. gr.


    Við 50. gr. laganna bætist nýr töluliður, 5. tölul., sem orðast svo:
 5. Lán til sveitarfélaga til byggingar félagslegra eignaríbúða á lögbýlum (90% lán).

4. gr.


    Á eftir 58. gr. laganna kemur ný grein, 58. gr. a (lögbýli), sem orðast svo:
    Byggingarsjóði verkamanna er heimilt að veita sveitarfélögum framkvæmdalán skv. 58. gr. laga þessara til byggingar félagslegra eignaríbúða á lögbýlum enda hafi verið sýnt fram á að væntanlegir kaupendur búi við ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu og fullnægi skilyrðum 64. gr. laganna til kaupa á félagslegri eignaríbúð. Sé væntanlegur kaupandi leiguliði á jörð skal þess jafnframt gætt að ákvæðum 3. mgr. 12. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976, hafi verið fullnægt.
    Framkvæmdalán skulu gerð upp með 90% lánum til sveitarfélaga með sömu kjörum og gilda um lán til félagslegra eignaríbúða. Lántakandi, bæði að framkvæmdaláni og láni til greiðslu þess samkvæmt framansögðu, er viðkomandi sveitarfélag sem ábyrgist endurgreiðslu lánanna til Byggingarsjóðs verkamanna með tryggingu í öllum eignum sveitarfélagsins og ábyrgðum þess. Við sölu íbúðar skal sveitarfélagið veita kaupanda lán að sömu fjárhæð og með sömu kjörum og eiga við um lán úr Byggingarsjóði verkmanna til félagslegra eignaríbúða sem tryggt verði með veði í hlutaðeigandi fasteign.
    Vextir á lánum Byggingarsjóðs verkamanna til sveitarfélaga skulu að liðnum sex árum frá undirritun kaupsamnings breytast til samræmis við vexti á almennum lánum úr Byggingarsjóði ríkisins nema sveitarfélag sýni fram á að kaupandi uppfylli enn þá skilyrði a- og b-liða 1. mgr. 64. gr. laganna og njóti þar af leiðandi óbreyttra vaxtakjara á láni sínu frá sveitarfélagi. Slík endurskoðun skal síðan fara fram á þriggja ára fresti.
    Verði vanskil á láni Byggingarsjóðs verkamanna til sveitarfélags eða ef íbúð er ráðstafað til kaupanda sem ekki fullnægir skilyrðum 64. gr. laga þessara er sjóðnum heimilt að gjaldfella lán sitt.
    Ákvæði laga þessara um kaupskyldu og forkaupsrétt sveitarfélaga eiga ekki við um íbúðir byggðar samkvæmt þessari grein.

5. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á b-lið IV. bráðabirgðaákvæðis laganna:
    Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur: og þann sem misst hefur tekjur vegna langvarandi veikinda. Jafnframt skulu þeir eiga rétt á greiðslu sem eru atvinnulausir og hafa verið það í a m.k. þrjá mánuði samtals síðustu sex mánuði áður en sótt er um greiðslu. Enn fremur skulu námsmenn, sem hafa verið í a.m.k. sex mánaða samfelldu námi síðustu tólf mánuði áður en sótt er um greiðslu eða munu fyrirsjáanlega stunda nám sem mun sannanlega taka þann tíma, eiga rétt á greiðslu.
    3. málsl. 1. mgr. fellur brott.

6. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta felur í sér þrjú óskyld atriði.
    Í fyrsta lagi er í 1. og 2. gr. lagt til að húsnæðismálastjórn hafi fleiri valkosti varðandi vörslu og ávöxtun byggingarsjóðanna en samkvæmt gildandi lögum. Í öðru lagi eru í 3. og 4. gr. frumvarpsins nýmæli um heimild til lánveitinga úr Byggingarsjóði verkamanna vegna lögbýla. Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér fleiri heimildir en nú gilda til útgreiðslu innstæðna á skyldusparnaðarreikningum, sbr. 5. gr. Um nánari skýringar vísast til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.


    Þessar tvær greinar fela í sér hliðstæðar breytingar á annars vegar vörslu Byggingarsjóðs ríkisins, sbr. 1. gr., og hins vegar Byggingarsjóðs verkamanna, sbr. 2. gr.
    Breytingarnar eru í samræmi við þau viðhorf sem átt hafa vaxandi fylgi að fagna að ekki sé æskilegt að lögbinda nákvæmlega hvar opinberir sjóðir skuli varðveittir og ávaxtaðir heldur skuli um það ríkja visst frelsi, þó þannig að öryggið sé ávallt í fyrirrúmi. Í samræmi við þessi viðhorf er stjórnum ýmissa opinberra sjóða falið að taka ákvarðanir um ávöxtun fjár og má hér nefna Atvinnuleysistryggingasjóð til samanburðar, sbr. 32. gr. laga nr. 93/1993.
    Ríkisendurskoðun hefur gert athugun á vaxtakjörum sjóðanna hjá Seðlabanka Íslands. Það er niðurstaða Ríkisendurskoðunar að sjóðirnir njóti, eftir því sem hægt er að bera það saman, svipaðra vaxtakjara hjá bankanum og þeir mundu njóta hjá öðrum innlánsstofnunum varðandi óbundnar ávísanlegar innstæður en æskilegt sé að sjóðirnir hafi fleiri valmöguleika varðandi vörslu og ávöxtun en nú er þannig að tryggt sé að þeir geti notið bestu kjara sem í boði eru á hverjum tíma. Bendir Ríkisendurskoðun á að ekki séu rök til þess að fastbinda í lög að stofnun skuli eiga viðskipti við tiltekna bankastofnun enda þótt eðlilegt megi teljast að sett séu almenn skilyrði um vörslu, t.d. að því er tekur til áhættu.
    Með þessi atriði í huga er í 1. og 2. gr. lagt til að húsnæðismálastjórn hafi heimild til að ákveða að sjóðirnir verði varðveittir annars staðar en hjá Seðlabanka Íslands að nokkru leyti eða öllu. Þar sem um mjög þýðingarmiklar ákvarðanir er að ræða er lagt til að stjórnin þurfi að leita samþykkis félagsmálaráðherra fyrir slíkri ákvörðun.
    Bent skal á að 1. gr. frumvarpsins tekur einnig til húsbréfa enda er húsbréfadeildin starfrækt á vegum Byggingarsjóðs ríkisins, sbr. 18. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993.

Um 3. og 4. gr.


    Samkvæmt 3. gr. skal stofnaður nýr lánaflokkur við Byggingarsjóð verkamanna sem veiti sveitarfélögum lán til byggingar félagslegra eignaríbúða á lögbýlum. Í 4. gr. er kveðið nánar á um lánafyrirkomulagið.
    Samkvæmt núgildandi lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, er ekki unnt að veita félagsleg lán til íbúða á lögbýlum. Félagslega íbúðakerfið byggir á því að íbúðir séu innleystar af framkvæmdaraðila og þeim síðan úthlutað aftur til kaupanda sem fullnægir skilyrðum laganna til að eiga rétt á félagslegri íbúð. Þetta fyrirkomulag gengur ekki upp varðandi lögbýli. Á lögbýlum eru aðstæður þannig að íbúðarhúsnæðið er ekki sjálfstæð eining heldur hluti jarðarinnar. Að auki er það mjög takmarkaður hópur fólks sem hefur forsendur til að setjast að í sveitum. Þetta hefur hins vegar í för með sér mismunun gagnvart þeim sem búa í sveitum sem gengur gegn markmiðum félagslega íbúðakerfisins, sbr. 35. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins. Einkum er þetta bagalegt varðandi heilsuspillandi húsnæði sem í ljós hefur komið að leynist í sveitum landsins, en með lögum nr. 70/1990 um félagslegar íbúðir voru sérstakar lánveitingar til útrýmingar á slíku húsnæði felldar niður. Þetta hefur ekki valdið vandkvæðum í þéttbýli þar sem kostur er á félagslegum íbúðum en í sveitum er ekki um nein úrræði að ræða ef ábúendur fullnægja ekki skilyrðum til að fá lán í gegnum húsbréfakerfið. Á þetta er bent í skýrslu nefndar sem vann að því að leggja mat á reynsluna af lögum um félagslegar íbúðir og gaf út skýrslu sína í maí á þessu ári, bls. 53. Ákvæði 3. og 4. gr. byggja á tillögum nefndarinnar. Það felst í ákvæðunum að heimilt verði að veita lán til byggingar félagslegra íbúða á lögbýlum til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði. Vegna sérstöðu lögbýla, sbr. ofangreindar athugasemdir, er lagt til að sveitarfélag sé lántakandi og beri ábyrgð gagnvart Byggingarsjóði verkamanna en það endurláni síðan ábúanda lögbýlis, sem býr við ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu og fullnægir skilyrðum 64. gr. laga um Húnæðisstofnun ríkisins, lánið til að festa kaup á félagslegri eignaríbúð með sömu kjörum og eiga við um lán úr Byggingarsjóði verkamanna til félagslegra eignaríbúða. Gert er ráð fyrir að lán sveitarfélagsins til ábúanda verði tryggt með veði í jörðinni sjálfri eða íbúðarhúsinu ásamt tilheyrandi lóð og lóðarréttindum. Vegna sérstöðu lögbýla er eingöngu gert ráð fyrir að um eignaríbúðir verði að ræða. Almennar reglur V. kafla laga um Húsnæðisstofnun ríkisins um lán til félagslegra eignaríbúða, m.a. um skyldur sveitarfélaga og tilhögun byggingarframkvæmda, eiga við um lánveitingar samkvæmt þessari grein, nema að því leyti sem sérstaklega er tekið fram í greininni. Þannig er sveitarfélagið, eins og endranær þegar um er að ræða byggingu eða kaup á félagslegri eignaríbúð, skuldbundið til að lána 10% af kostnaðarverði íbúðar og greiða 3,5% óafturkræft framlag, sbr. 42. og 2. mgr. 54. gr. laganna.     
    Þegar sveitarfélag sækir um lán til Byggingarsjóðs verkamanna verða skv. 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins að liggja fyrir upplýsingar um að ábúandi búi við ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu og fullnægi skilyrðum 64. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins. Helstu skilyrði samkvæmt þeirri grein eru þau að viðkomandi eigi ekki íbúð fyrir, tekjur séu innan tilskildra marka og greiðslugeta hafi verið metin fullnægjandi. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar er heimilt að víkja frá því skilyrði að viðkomandi eigi ekki íbúð fyrir þegar um er að ræða umsækjendur sem búa við ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu og á sú undanþága einnig við um þau tilvik sem 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins tekur til.
    Hafa verður í huga að ábúendur á lögbýlum eru oft og tíðum leiguliðar. Um réttarstöðu þeirra gagnvart landeigendum gilda ákvæði ábúðarlaga nr. 64/1976 sem nauðsynlegt er að taka tillit til við ákvörðun um lánveitingar. Samkvæmt 11. gr. ábúðarlaga er meginreglan sú að landeigandi skal leggja leiguliða til fullnægjandi húsnæðisaðstöðu þegar jörð er leigð til ákveðins árabils. Ef jörð er byggð til lífstíðar eða á erfðaábúð er landeiganda þó ekki skylt að láta jörðinni fylgja önnur hús en þau sem eru á jörðinni og í hans eigu við upphaf leigutíma, sbr. 10. gr. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. ábúðarlaga hefur landeigandi rétt til að ákveða að hann kosti sjálfur alla endurbyggingu á jörð þegar endurreisa þarf jarðarhús eða auka við þau. Þetta ákvæði tengist því að skv. 16. gr. ábúðarlaga er meginreglan sú að landeigandi hefur kaupskyldu á húsum leiguliða ef leiguliði hverfur af jörð. Í 3. mgr. 12. gr. ábúðarlaga segir að ef landeigandi vilji ekki kosta auknar byggingarframkvæmdir, en þeirra telst þörf að mati héraðsráðunautar og byggingarfulltrúa, sé leiguliða heimilt að byggja eftir að hafa tilkynnt landeiganda um það. Ef ábúandi er leiguliði þarf því að kanna hvort þessu ákvæði ábúðarlaga hefur verið fullnægt áður en sótt er um lánveitingu úr byggingarsjóði og er það áskilið í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. Einnig þarf í þeim tilvikum að ganga úr skugga um að fyrir liggi samþykki landeiganda til veðsetningar jarðarinnar fyrir láni sveitarfélags til leiguliða þar sem lánveitingar sveitarfélags til leiguliða falla ekki undir ákvæði 15. gr. ábúðarlaga. Byggt er á því að öll þessi atriði þurfi að liggja fyrir þegar sveitarfélag sækir um lán til sjóðsins.
    Ef umsókn sveitarfélags til Byggingarsjóðs verkamanna er samþykkt er gert ráð fyrir að gerður verði framkvæmdalánssamningur milli sjóðsins og sveitarfélagsins. Samkvæmt 2. mgr. 58. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins skulu framkvæmdirnar sjálfar standa til tryggingar veittu framkvæmdaláni á hverjum tíma. Við byggingu á lögbýlum hagar svo til að framkvæmdaraðili er ekki eigandi að byggingarlóð. Því er sveitarfélag skv. 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. gert ábyrgt fyrir tryggingu framkvæmdaláns.
    Gert er ráð fyrir að sveitarfélag geti falið öðrum aðila, húsnæðisnefnd eða jafnvel ábúanda sjálfum að annast byggingarframkvæmdir að öllu eða nokkru leyti. Almennar reglur laga um Húsnæðisstofnun ríkisins um byggingarkostnað, gerð húsnæðis, stærð og gæði, umsagnir, úttektir og uppgjör við byggingu félagslegra íbúða eiga við óháð því hver annast framkvæmdir.
    Þegar framkvæmdum er lokið og kostnaður liggur fyrir er gert ráð fyrir að gefið verði út 90% lán til sveitarfélagsins með sömu kjörum og gilda um önnur lán til félagslegra eignaríbúða, sbr. 52. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins. Eignir og ábyrgðir sveitarfélagsins verði til tryggingar láninu. Sveitarfélagið selur síðan ábúanda jarðarinnar íbúðina og veitir honum lán að sömu fjárhæð og með sömu kjörum og eiga við um lán úr Byggingarsjóði verkamanna til félagslegra eignaríbúða.
    3. mgr. 4. gr. felur í sér sérreglu um endurskoðun vaxta á lánum Byggingarsjóðs verkamanna til sveitarfélags sem felur í sér nokkurt frávik frá hliðstæðu ákvæði 79. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins. Byggist það á því að Byggingarsjóður verkamanna er ekki í beinu réttarsambandi við kaupendur og því ekki í aðstöðu til þess að kanna hvort kaupandi fullnægi enn þá skilyrðum a- og b-liða 64. gr. laganna.
    Ef vanskil verða á láni eða íbúð er ráðstafað til kaupanda sem ekki fullnægir skilyrðum 64. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins er Byggingarsjóði verkamanna heimilt að gjaldfella lán sitt til sveitarfélags, sbr. 4. mgr. 4. gr. Byggt er á því að hliðstætt skilyrði og fram kemur í greininni verði sett fyrir lánveitingu sveitarfélags til ábúanda. Unnt er að tryggja að Húsnæðisstofnun berist vitneskja um ráðstöfun eignar með ákvæði í afsali þar að lútandi.
    Í 5. mgr. 4. gr. er kveðið svo á að sveitarfélag hafi hvorki kaupskyldu né forkaupsrétt, sbr. 1. mgr. 82. gr. og 84. gr. laganna, enda eru ekki fyrir hendi forsendur til þess svo sem áður hefur verið vikið að. Rétt er að árétta að ákvæðið hróflar ekki við því að sveitarfélag hefur skv. 1. mgr. 30. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, almennan forkaupsrétt við sölu lögbýla.

Um 5. gr.


    Með lögum nr. 61 frá 19. maí 1993 voru ákvæði laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, um skyldusparnað ungs fólks til íbúðabygginga, felld úr gildi. Þess í stað kom bráðabirgðaákvæði. Í a- og b-liðum þess er tilgreint með hvaða hætti innstæður á skyldusparnaðarreikningum skuli greiddar út þar til 1. janúar árið 2000 þegar allar eftirstöðvar eiga að greiðast út, sbr. c-lið ákvæðisins. Var þar leitast við að fara milliveg. Niðurstaðan skyldi í senn vera sanngjörn í garð reikningseigenda og taka mið af því að útstreymi fjár úr Byggingarsjóði ríkisins yrði sjóðnum ekki ofviða. Innstæður, sem voru 30.000 kr. eða lægri, skyldu greiddar eigendum án umsókna innan sex mánaða frá gildistöku laganna. Eigendur hærri innstæðna skyldu eiga rétt á að fá innstæður sínar greiddar þegar þeir næðu 26 ára aldri, hefðu byggt eða keypt íbúð til eigin nota eða hefðu barn á framfæri. Sama rétt skyldu 75% öryrkjar hafa og námsmenn sem stundað hafa nám samfellt í sex mánuði. Námsmenn skyldu einungis eiga rétt á greiðslu út árið 1993.
    Samkvæmt upplýsingum veðdeildar Landsbanka Íslands hafa fjárhæðir útborgana verið sem hér segir frá því að lög nr. 61/1993 tóku gildi í maí 1993:


Fjárhæðir útborgana tímabilið maí–nóvember 1993.


Ástæða útborgana.

Kr.Aldur          
216.589.462

Nám          
482.915.573

Barn          
61.075.400

Íbúðakaup     
262.907.449

Örorka     
5.684.483

Innstæða undir 30.000     
138.870.989

Samtals     
1.168.043.356

    Heildarinnstæða á skyldusparnaðarreikningum miðað við nóvember 1993 er samkvæmt upplýsingum veðdeildar rúmir 2,6 miljarðar.
    Við framkvæmd bráðabirgðaákvæðisins hefur komið í ljós að í því er ekki tekið nægilegt tillit til versnandi afkomu þjóðarinnar. Fjölmargir reikningseigendur hafa kvartað undan því að ákvæðið sé of þröngt og að í því sé ekki tekið tillit til fjárhagsvanda, svo sem vegna atvinnuleysis og langvarandi veikinda. Námsmenn hafa enn fremur kvartað undan því að ákvæðið sé of ósveigjanlegt og komi aftan að námsáætlunum þeirra.
    Þar sem sýnt þykir að framangreindar athugasemdir eigi við rök að styðjast þykir sjálfsagt réttlætismál að leggja fram tillögu til breytinga á ákvæðinu. Við samningu ákvæðisins hefur verið tekið mið af því að þær breytingar sem það hefur í för með sér hafi ekki í för með sér verulegt aukið vinnuálag fyrir starfsfólk Húsnæðisstofnunar og veðdeildar vegna matskenndra heimilda, en eftir gildistöku laga nr. 61/1993 var starfsfólki, sem hafði umsjón með skyldusparnaðarreikningum, fækkað verulega.
    Í samræmi við framansagt felur tillagan í sér nýjar heimildir til útgreiðslu skyldusparnaðar vegna atvinnuleysis og langvarandi veikinda. Jafnframt eru reglur um útgreiðslu til námsfólks rýmkaðar.
    Forsendan fyrir greiðslu vegna veikinda er að hlutaðeigandi hafi misst tekjur. Sá sem á rétt á fullum launum í veikindaforföllum sínum nýtur því ekki réttar samkvæmt ákvæðinu. Það er Húsnæðisstofnunar að meta hvenær um langvarandi veikindi er að ræða. Gert er ráð fyrir að stofnunin móti reglur um þau vottorð sem nauðsynlegt er að leggja fram, svo sem vottorð um óvinnufærni og tekjur.
    Hugsanlegt er að sá sem er atvinnulaus að hluta geti átt rétt á greiðslu ef tekjur hans hafa lækkað verulega af þeim sökum. Það er Húsnæðisstofnunar að meta hvort svo sé. Ekki er gert ráð fyrir að atvinnuleysi þurfi að hafa varað samfellt í þrjá mánuði heldur að samanlagður tími atvinnuleysis sé a.m.k. sá tími. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að viðkomandi sýni fram á atvinnuleysi með tilskildum vottorðum sem Húsnæðisstofnun mælir nánar fyrir um.
    Í ákvæðinu er leitast við að kveða skýrar á um rétt námsmanna þar sem orðalag í núgildandi ákvæði hefur valdið vafa, svo sem um það hvort eingöngu nám á yfirstandandi ári geti verið grundvöllur greiðslu. Í frumvarpsgreininni er enn fremur kveðið á um rétt þeirra sem hyggja á nám. Um þetta atriði er nú ákvæði í reglugerð nr. 291/1993 sem sett var með heimild í lögum nr. 61/1993. Eðlilegra þykir að kveðið sé á um þetta í lögum. Sama rétt hafa þeir sem eru byrjaðir í námi sem mun sannanlega taka a.m.k. sex mánuði. Ekki þykja rök til þess að binda rétt námsmanna við árið 1993. Vel er hugsanlegt að menn hafi hug á að nota skyldusparnað sinn til að fjármagna nám eftir það. Óbreytt gildir frá eldri lögum að um sé að ræða sex mánaða samfellt nám. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að lögð verði fram tilskilin vottorð skóla.

Um 6. gr.


    Gildistökuákvæði sem þarfnast ekki nánari skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um


Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993.    Eins og tekið er fram í upphafi athugasemda við frumvarpið felur það í sér breytingar á þremur atriðum í lögum nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Í fyrsta lagi fær húsnæðismálastjórn að fengnu samþykki félagsmálaráðherra fleiri kosti en verið hefur um ávöxtun fjármuna Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Samkvæmt ákvæðum núgildandi laga er varsla þeirra bundin við Seðlabanka Íslands. Þykir rétt að rýmka þessa heimild og veita stjórninni meira frjálsræði í þessum efnum en verið hefur til að auka möguleika á hærri vaxtatekjum sjóðanna. Styðst þessi ákvörðun m.a. við álit Ríkisendurskoðunar.
    Í öðru lagi eru í 3. og 4. gr. frumvarpsins nýmæli um heimild til lánveitinga úr Byggingarsjóði verkamanna til byggingar íbúðarhúsnæðis á lögbýlum. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið sé lántakandi og beri ábyrgð gagnvart Byggingarsjóði verkamanna en það endurláni síðan ábúanda lögbýlis sem býr við ófullnægjandi húsnæði og fullnægir að auki skilyrðum 64. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins um rétt einstaklinga til að festa kaup á félagslegum eignaríbúðum. Lán sveitarfélagsins til ábúanda verður síðan tryggt með veði í jörðinni sjálfri eða íbúðarhúsinu ásamt tilheyrandi lóð og lóðarréttindum. Gert er ráð fyrir að eingöngu verði um eignaríbúðir að ræða. Reiknað er með að ekki reyni á þetta ákvæði nema í fáum tilfellum. Í þriðja lagi eru ráðgerðar nokkrar breytingar á útgreiðslu innstæðna á skyldusparnaðarreikningum. Ákvæði um þetta efni eru í ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 97/1993 (áður í lögum nr. 61/1993) og miðar breytingin að því að taka meira tillit til langvarandi veikinda og atvinnuleysis en gert er í núverandi lögum og jafnframt eru reglur um útgreiðslur skyldusparnaðar til námsfólks rýmkaðar. Að mati Húsnæðisstofnunar ríkisins mun þetta ákvæði leiða til greiðslu 30–40 m.kr. á næsta ári sem ella hefðu komið til greiðslu síðar.
    Ekki er ástæða til að ætla að þessar lagabreytingar hafi umtalsverðan kostnaðarauka í för með sér sem neinu nemur verði þær að lögum.