Ferill 286. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 286 . mál.


363. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.


    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 3. mgr., svohljóðandi:
    Nú eru sveitarfélög sameinuð og skulu þá umdæmi fjallskiladeilda haldast óbreytt frá því sem áður gilti og upprekstrarréttur standa óbreyttur miðað við eldri skipan nema um annað sé samið.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., er hver sýsla fjallskilaumdæmi er skiptist í fjallskiladeildir eftir hreppum nema héraðsnefnd hafi fallist á aðra skiptingu. Kaupstaður er einnig sérstök fjallskiladeild og telst til fjallskilaumdæmis þeirrar sýslu sem kaupstaðalandið hefur áður legið undir. Samkvæmt 2. gr. laganna hefur héraðsnefnd á hendi yfirstjórn allra afrétta- og fjallskilamála í sínu umdæmi, en hreppsnefnd/bæjarstjórn annast stjórn og framkvæmd þeirra í hverri fjallskiladeild.
    Með sameiningu sveitarfélaga fækkar fjallskiladeildum fjallskilaumdæma nema héraðsnefnd og sveitarstjórn í sameinuðu sveitarfélagi ákveði að halda óbreyttri skipan fjallskiladeilda. Í þeim umræðum sem fram hafa farið um sameiningu sveitarfélaga hefur komið fram óvissa um fyrirkomulag afrétta- og fjallskilamála, sérstaklega að því er varðar upprekstrarrétt á einstaka afrétti og áhrif þeirra breytinga sem fylgja sameiningu sveitarfélaga á afnot afrétta ef sveitahreppar sameinast stærri heildum. Miðar 1. gr. frumvarps þessa, sem samið er í landbúnaðarráðuneytinu, að því að tryggja að sameining sveitarfélaga raski ekki núverandi fyrirkomulagi fjallskiladeilda og upprekstrar á einstaka afrétti nema sveitarfélög semji á annan veg.