Ferill 84. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 84 . mál.


372. Nefndarálit


um frv. til l. um félagslega aðstoð.

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið samhliða frumvarpi til laga um almannatryggingar og vísast til almennrar umfjöllunar í nefndaráliti minni hlutans með því frumvarpi.
    Minni hlutinn mælir með samþykkt þessa frumvarps með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Jafnframt stendur minni hlutinn að breytingartillögum ásamt meiri hluta nefndarinnar á þskj. 314.
    Efnisbreytingar við frumvarpið eru eftirfarandi:
    Lagt er til að niður verði felld heimild til tekjutengingar í 2. mgr. 1. gr. Talið er varasamt að fela stjórnvöldum á hverjum tíma, með þeim hætti sem þar er gert ráð fyrir, að ákvarða forsendur fyrir rétti manna til að njóta grundvallarbóta almannatrygginga.
    Lagt er til að ákvæðum 2.–7. gr. og 9. gr. verði breytt á þann hátt að bótagreiðslur byggist á rétti bótaþega, en ekki verði einungis um heimildarbætur að ræða eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Um þetta efni vísast að öðru leyti til nefndarálits minni hlutans með frumvarpi til laga um almannatryggingar.
    Lagt er til að 5. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að kveðið verði á um að sá sem annast elli- eða örorkulífeyrisþega á heimili sínu og getur af þeim sökum ekki stundað fulla vinnu sér til framfæris eigi rétt á umönnunarbótum. Slíkar umönnunarbætur eru nýmæli og er ætlað að koma í stað makabóta. Upphæð bótanna er samanlögð upphæð grunnlífeyris og tekjutryggingar almannatrygginga.
    Lagt er til að gerð verði sú grundvallarbreyting á 7. gr. frumvarpsins að í stað réttar til ekkjulífeyris verði kveðið á um rétt til makalífeyris. Fram að þessu hafa konur einar átt rétt á lífeyri frá hinu opinbera vegna fráfalls maka síns. Sú skipan sem frumvarpið gerir ráð fyrir og verið hefur í lögum um langt skeið samræmist ekki þeim hugmyndum sem fólk hefur í dag um jafnrétti kynjanna, sem hlotið hafa staðfestingu í lögum nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Draga verður í efa að 7. gr. frumvarpsins standist ákvæði þeirra laga. Þá má telja líklegt að ákvæði frumvarpsins standist ekki jafnréttistilskipun EB 76/207. Þá er lagt til að brott verði felld heimild til niðurfellingar ekkjulífeyris ef ekkja tekur upp óvígða sambúð. Samkvæmt íslenskum rétti skapast ekki gagnkvæm framfærsluskylda með óvígðri sambúð og því verður að telja óeðlilegt að óbreyttu að ekkjulífeyrir falli niður við þær aðstæður.
    Lagt er til að 8. gr. frumvarpsins verði skipað í frumvarp til laga um almannatryggingar ásamt öðrum ákvæðum um bætur til öryrkja. Ekki verður séð hvaða rök mæla með því að skilja í sundur þær bætur sem öryrkjum eru ætlaðar með þeim hætti sem frumvörpin gera ráð fyrir.

Alþingi, 14. des. 1993.


Finnur Ingólfsson,

Ingibjörg Pálmadóttir.

Margrét Frímannsdóttir.

frsm.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.