Ferill 75. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 75 . mál.


381. Nefndarálit


um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1994.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Á fund nefndarinnar komu Magnús Pétursson, Halldór Árnason og Jón Ragnar Blöndal frá fjármálaráðuneytinu, Birgir Ísl. Gunnarsson og Yngvi Örn Kristinsson frá Seðlabanka Íslands, Þórður Friðjónsson frá Þjóðhagsstofnun, Guðmundur Malmquist frá Byggðastofnun, Hilmar Þórisson frá Húsnæðisstofnun, Lárus Jónsson og Guðjón Valdimarsson frá LÍN, Snorri Tómasson frá Ferðamálasjóði, Bragi Hannesson frá Iðnlánasjóði, Þorvarður Alfonsson frá Iðnþróunarsjóði og Hannes Sigurðsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Fram kom í máli framangreindra aðila að hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs á næsta ári er um 22,9 milljarðar kr. Reyndar er reiknað með að lántökur á árinu 1994 verði mun minni en þær hafa verið 1993, en afborganirnar verða hins vegar mun hærri á næsta ári. Þannig vaxa afborganir ríkissjóðs úr 6,2 milljörðum kr. á árinu 1993 í 15,9 milljarða kr. árið 1994.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Þær breytingar eru eftirfarandi:
    Lagt er til að fjármálaráðherra verði heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántöku fyrir Bæjarveitur Vestmannaeyja að fjárhæð 35,3 m.kr. til skuldbreytingar eldri lánum.
    Lagt er til að fjármálaráðherra sé heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántöku fyrir Minjavernd til skuldbreytingar lánum sem tekin voru vegna uppbyggingar Bernhöftstorfu á sínum tíma.
    Þá er einnig lagt til að fjármálaráðherra verði veitt heimild til að gefa út eða selja, innan heildarlántökuheimilda ársins, einn eða fleiri flokka alþjóðabréfa ríkissjóðs er hljóði upp á greiðslu í erlendri mynt. Til að ráðherra sé mögulegt að selja slík alþjóðabréf sem handhafabréf er tekið fram að ákvæði 39. gr. laga um stjórn efnahagsmála o.fl. víki fyrir þeirri heimild.

Alþingi, 14. des. 1993.


Rannveig Guðmundsdóttir,

Vilhjálmur Egilsson.

Sólveig Pétursdóttir.

frsm.


Ingi Björn Albertsson.

Guðjón Guðmundsson.