Ferill 101. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 101 . mál.


385. Nefndarálit



um frv. til l. um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

Frá 1. minni hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið á 116. og 117. löggjafarþingi og fengið á fund sinn til viðræðna frá dómsmálaráðuneytinu Ara Edwald, aðstoðarmann dómsmálaráðherra, og Ólaf W. Stefánsson skrifstofustjóra, frá utanríkisráðuneytinu Pétur G. Thorsteinsson sendifulltrúa, Markús Sigurbjörnsson prófessor, Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómara, Ögmund Jónasson, formann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og frá Bandalagi háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins Pál Halldórsson formann og Birgi Björn Sigurjónsson. Nefndinni bárust umsagnir frá Davíð Þór Björgvinssyni dósent og Þór Vilhjálmssyni hrd. Einnig kynnti nefndin sér drög að starfsreglum fyrir EFTA-dómstólinn er henni bárust frá dómsmálaráðuneytinu. Þá studdist nefndin við umsagnir, er henni bárust á 116. löggjafarþingi, frá Alþýðusambandi Íslands, réttarfarsnefnd, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Lögmannafélagi Íslands, Bandalagi háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins, Neytendasamtökunum, Dómarafélagi Íslands og Bandalagi stafsmanna ríkis og bæja.
    Í frumvarpi þessu felst í meginatriðum að dómari getur kveðið upp úrskurð um að leitað skuli ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á atriðum dómsmáls þar sem taka þarf afstöðu til skýringar á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Á þetta við um rekstur dómsmála fyrir héraðsdómstólum, Hæstarétti og félagsdómi. Er hér um heimild dómara að ræða þegar vafaatriði koma upp um skýringu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og er álit EFTA-dómstólsins ráðgefandi en ekki bindandi.
    Fyrsti minni hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Er þar aðeins um formbreytingu að ræða sem ekki þarfnast nánari skýringa.

Alþingi, 14. des. 1993.



Sólveig Pétursdóttir,

Gísli S. Einarsson.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Ey. Kon. Jónsson,


með fyrirvara.