Ferill 293. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 293 . mál.


391. Frumvarp til laga



um alferðir.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



I. KAFLI


Gildissvið og orðskýringar.


1. gr.


    Lög þessi gilda um samninga, sem gerðir eru á milli farkaupa og ferðaheildsala eða ferðasmásala, um kaup á alferðum, svo og um aðra viðskiptahætti þar að lútandi.
    

2. gr.


    Í lögum þessum merkja eftirfarandi hugtök:
     Alferð er fyrir fram ákveðin samsetning ekki færri en tveggja eftirfarandi atriða, þegar ferð er seld eða boðin til sölu á heildarverði og þegar þjónustan tekur til lengri tíma en 24 klst. eða í henni felst gisting:
    flutnings,
    gistingar,
    annarrar þjónustu við ferðamenn sem tekur til verulegs hluta ferðarinnar.
    Það telst alferð þótt reikningar séu gerðir sérstaklega fyrir hvert atriði.
     Ferðaheildsali er sá sem setur saman alferð og býður hana til sölu, hvort heldur beint eða gegnum ferðasmásala.
     Ferðasmásali er sá sem býður til sölu alferð sem ferðaheildsali hefur sett saman.
     Farkaupi er einstaklingur eða lögpersóna sem:
    gerir samning um kaup á alferð (aðalsamningsaðili),
    aðalsamningsaðilinn semur um kaup á alferð fyrir,
    fengið hefur alferð framselda frá aðalsamningsaðila eða þeim sem aðalsamningsaðili samdi um kaup á alferð fyrir.
    

II. KAFLI


Gerð og efni samnings.


3. gr.


    Í bæklingum og auglýsingum um alferðir skal tilgreina verð og allar upplýsingar sem ferðina snerta á greinargóðan og nákvæman hátt. Upplýsingar í bæklingi eru bindandi fyrir ferðaheildsala, nema farkaupa hafi verið tilkynnt um breytingar áður en samningur er gerður, samkomulag hafi orðið um breytingar eða verðbreytingar séu heimilaðar skv. 7. gr.
    
    

4. gr.


    Samning um kaup á alferðum skal gera skriflega eða á annan hátt sem er ótvíræður og aðgengilegur fyrir farkaupa. Farkaupi skal fá afrit af samningnum.
    Áður en samningur um alferð er gerður, veitir ferðaheildsali eða smásali farkaupa almennar upplýsingar um kröfur sem gerðar eru til vegabréfa og vegabréfsáritana og frest til að útvega slíkt, auk upplýsinga um heilbrigðisráðstafanir sem krafist er í viðkomandi ríkjum. Skulu upplýsingarnar veittar skriflega eða á annan ótvíræðan hátt.
    Ferðaheildsali eða smásali skal einnig veita farkaupa nánari upplýsingar um þau atriði sem eru nauðsynleg til að alferð sé farin. Skulu þær veittar skriflega eða á annan ótvíræðan hátt.
    

III. KAFLI


Afpöntun, framsal og verðbreytingar á alferð.


5. gr.


    Afpanti farkaupi alferð getur seljandi krafist þóknunar sem er ákveðin með tilliti til þess hvenær afpantað er og hvers eðlis alferðin er. Áður en samningur er gerður skal farkaupa tilkynnt hvaða skilmálar gilda um afpantanir.
    Farkaupi hefur rétt til að afpanta alferð vegna stríðsaðgerða, borgarastyrjaldar, lífshættulegra smitsjúkdóma eða annars, sem hefur afgerandi áhrif á framkvæmd alferðar á áfangastað eða nálægt honum, þegar a.m.k. 14 dagar eða færri eru til brottfarar. Í slíkum tilvikum á farkaupi kröfu á því að fá fulla endurgreiðslu að frádregnu staðfestingargjaldi. Þetta gildir þó ekki ef farkaupi hefði mátt sjá fyrir um ofangreinda atburði og ástand er samningur var gerður.
    Áður en samningur um alferð er gerður skal seljandi veita farkaupa upplýsingar um það hvaða möguleikar eru á að gera tryggingarsamning eða tryggja sig á annan hátt gegn fjárhagslegu tjóni í þeim tilvikum að farkaupi getur ekki tekið þátt í alferð.
    

6. gr.


    Þegar farkaupi getur ekki nýtt sér alferð getur hann framselt bókun sína til aðila sem fullnægir þátttökuskilyrðum. Ferðaheildsali eða ferðasmásali skulu fá vitneskju um þetta með sanngjörnum fyrirvara áður en ferðin hefst.
    Framseljandi alferðar og framsalshafi eru þá sameiginlega og hvor í sínu lagi ábyrgir gagnvart ferðaheildsala eða smásala að því er varðar greiðslu á eftirstöðvum og öllum aukakostnaði er kann að leiða af slíku framsali.
    

7. gr.


    Verð það sem sett er fram í samningnum skal haldast óbreytt nema því aðeins að þar sé skýrt tekið fram að verð geti hækkað eða lækkað og nákvæmlega sé tilgreint hvernig reiknað skuli út breytt verð. Einungis skal heimila breytingar á:
    flutningskostnaði, þar með töldum eldsneytiskostnaði,
    álögum, sköttum eða sérgreiðslum fyrir tiltekna þjónustu, svo sem lendingargjöldum eða gjöldum fyrir að fara um borð eða frá borði í höfnum og á flugvöllum,
    gengi því sem á við um hina tilteknu alferð.
    Síðustu tuttugu daga fyrir brottfarardag má ekki hækka verð það sem í samningi segir.

IV. KAFLI


Vanefndir ferðaheildsala eða ferðasmásala og réttindi farkaupa.


8. gr.


    Geri ferðaheildsali breytingar á alferð áður en hún hefst ber honum að tilkynna það farkaupa svo fljótt sem unnt er. Sé um verulega breytingu að ræða ber farkaupa að tilkynna ferðaheildsala eða smásala eins fljótt og unnt er, hvort hann óski eftir að rifta samningnum eða gera viðbótarsamning er tilgreini þær breytingar sem gerðar eru á upphaflega samningnum og áhrif þeirra á verð og önnur kjör.
    Um leið og farkaupa er tilkynnt um breytingar á alferð skal upplýsa hann um tilkynningarskyldu hans skv. 1. mgr., sem og um afleiðingar þess að sinna henni ekki. Eins skal upplýsa hann um það hvert ber að beina slíkri tilkynningu.
    

9. gr.


    Ef farkaupi riftir samningi skv. 1. mgr. 8. gr. eða ef ferðaheildsali aflýsir ferðinni á farkaupi rétt á að fá fulla endurgreiðslu eða taka í staðinn aðra alferð sambærilegaað gæðum eða betri ef ferðaheildsali eða smásali getur boðið slík skipti. Ef ferðin, sem boðin er í staðinn, er ódýrari, fær farkaupi verðmismuninn endurgreiddan. Ef ferðin er dýrari greiðir farkaupi mismuninn.
    

10. gr.


    Verði farkaupi fyrir tjóni vegna verulegra breytinga á ferðatilhögun eða vegna þess að ferð hefur verið aflýst á hann rétt á skaðabótum, nema því aðeins að ferðinni sé aflýst:
    vegna þess að fjöldi skráðra þátttakenda er minni en sú lágmarkstala sem til þarf enda sé farkaupa tilkynnt um aflýsingu skriflega innan ákveðins frests sem samið hefur verið um fyrir fram eða
    eða breytt vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna sem sá er ber þær fyrir sig fær engu um ráðið og hefði ekki getað komið í veg fyrir afleiðingar þeirra.

11. gr.


    Ef alferðin fullnægir ekki ákvæðum alferðarsamnings getur farkaupi krafist þess að ráðin sé bót á því, nema það hafi í för með sér óeðlilegan kostnað eða veruleg óþægindi fyrir ferðaheildsala eða smásala. Ef ekki er hægt að bæta úr því sem á vantar eða einungis með lakari þjónustu á farkaupi rétt á verðlækkun á ferðinni sem jafngildir mismuninum á þeirri þjónustu sem samið var um og þeirri sem veitt er.
    Ef verulegur hluti þeirrar þjónustu sem samningur kveður á um er ekki veittur eða er verulega ófullnægjandi getur farkaupi rift samningnum nema ferðaheildsali eða ferðasmásali ráði bót á vandanum innan sanngjarnra tímamarka farkaupa að kostnaðarlausu. Ef flutningur er þáttur alferðar og farkaupi kýs að rifta samningi getur hann krafist þess að vera fluttur sér að kostnaðarlausu til þess staðar þar sem alferð hófst eða á annan stað sem aðilar hafa samið um.
    Farkaupi verður að tilkynna þeim er hann gerði alferðarsamning við eða fulltrúa hans, eins fljótt og kostur er, um hverja þá vanefnd er hann verður var við á framkvæmd samnings. Þessa skyldu verður að taka skýrt fram í samningnum.
    

12. gr.


    Ferðaheildsali og ferðasmásali bera sameiginlega og hvor í sínu lagi ábyrgð gagnvart farkaupa á því að staðið sé við framkvæmd samningsins, hvort sem hún er í höndum þeirra sjálfra eða annarra þjónustuaðila.
    

13. gr.


    Verði farkaupi fyrir meiðslum eða eignatjóni vegna þess að alferð er ófullnægjandi á hann rétt á skaðabótum, nema því aðeins að vanefnd á framkvæmd samnings verði ekki rakin til vanrækslu seljanda eða annars þjónustuaðila af því að vanefndirnar eru:
    sök farkaupa,
    sök þriðja aðila sem ekki tengist þeirri þjónustu sem samið var um og eru ófyrirsjáanlegar eða óhjákvæmilegar,
    vegna óviðráðanlegra aðstæðna (force majeure) eða atburðar sem veitandi þjónustunnar gat með engu móti séð fyrir eða komið í veg fyrir.
    

14. gr.


    Ferðaheildsali eða ferðasmásali geta takmarkað skaðabætur sem þeim ber að greiða skv. 13. gr. í samræmi við takmarkanir sem kveðið er á um í landslögum eða alþjóðasamningum, sem gilda um einstaka þætti alferðar.
    

V. KAFLI


Skyldur farkaupa.


15. gr.


    Farkaupa ber að hlýða fyrirmælum fararstjóra og starfsmönnum annarra þjónustuaðila við framkvæmd alferðarsamnings.
    Sé um að ræða verulegar vanefndir farkaupa á skyldum hans samkvæmt lögum þessum og 1. mgr. getur ferðaheildsali eða ferðasmásali útilokað hann frá frekari þátttöku í viðkomandi alferð eða komið í veg fyrir að hann hefji hana og krafið hann um fullt verð fyrir ferðina. Ef ferð er hafin verður farkaupi sjálfur að standa straum af viðbótarkostnaði sem leiðir af útilokun hans frá ferðinni.

VI. KAFLI


Gildistaka o.fl.


16. gr.


    Samgönguráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd þessara laga, m.a. um efni upplýsingabæklings til farkaupa, afpöntunarskilmála og aðrar upplýsingar um alferðir og atriði sem taka þarf fram í samningi.
    

17. gr.


    Eftirlit með framkvæmd laga þessara er í höndum Samkeppnisstofnunar.
    

18. gr.


    Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    

19. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög þessi gilda ekki um alferðir sem samið hefur verið um fyrir gildistöku þessara laga.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Almennt um EES og ferðamál.


    Frumvarp þetta var lagt fram til kynningar á 116. löggjafarþingi 1992–1993 og er nú lagt aftur fram með nokkrum orðalagsbreytingum.
    Með lagafrumvarpi þessu er lögfest efni tilskipunar ráðherraráðs Evrópubandalagsins nr. 90/314/EBE frá 13. júní 1990 um ferðapakka, sumarleyfis- og skoðunarferðapakka, sem tilgreind er í viðauka með samningi um Evrópska efnahagssvæðið milli Efnahagsbandalags Evrópu, Kola- og stálbandalags Evrópu og aðildarríkja þess annars vegar og aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu hins vegar, sbr. lög um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, nr. 2/1993.
    Tilskipunin er 7. gerð XIX. viðauka með samningnum. Með samningi um Evrópska efnahagssvæðið er Ísland skuldbundið til að koma í íslenskan rétt þeim gerðum sem þar eru taldar upp í viðaukum.
    Við samningu frumvarps þessa var ákveðið að fara svipaða leið og önnur ríki á Norðurlöndum með setningu sérstakra laga sem byggð eru á áðurnefndri tilskipun Evrópubandalagsins og er frumvarp þetta efnislega samhljóða þeim frumvörpum sem lögð hafa verði fram á löggjafarsamkomum annarra ríkja á Norðurlöndum.
    Um ferðamál almennt er fjallað í VI. hluta samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, „Samvinna utan marka fjórþætta frelsisins“, einkum í 78. og 79. gr. Einnig er í 8. gr. 31. bókunar með samningnum fjallað um nánari samvinnu og aðgerðir á sviði ferðamála.
    Í VII. viðauka samningsins er fjallað um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi. Til að mynda er í G-lið 38. tölul. þess viðauka fjallað um aðgerðir á sviði ferðamála. Í 43. tölul. sama viðauka er fjallað um samvinnu og aðgerðir er varða rekstur veitinga- og gististaða.
    

II. Aukin neytendavernd.


    Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið skuldbinda samningsaðilar sig til að taka upp ýmsar reglur á sviði neytendaverndar og hafa aðildarríkin sett sér það markmið að á hinum innri markaði ríki víðtæk neytendavernd. Aukið frelsi í viðskiptum á því ekki að vera á kostnað nauðsynlegrar neytendaverndar.
    Í inngangi að tilskipun Evrópubandalagsins er m.a. á það bent að ferðaþjónusta gegni æ stærra hlutverki í efnahagslífi aðildarríkja bandalagsins. Alferðir eru undirstöðuatriði í ferðaþjónustu. Slík þjónusta hlyti hvatningu til frekari vaxtar og grósku ef samþykktar væru sameiginlegar lágmarksreglur þannig að atvinnugreinina mætti stunda í bandalaginu sem heild. Þetta yrði þó ekki aðeins til hagsbóta fyrir ríkisborgara bandalagsins er keyptu alferðir sem væru settar saman á grundvelli slíkra reglna, heldur mundi það einnig laða að ferðamenn úr löndum utan bandalagsins er sæktust eftir alferðum er uppfylltu viðurkennda staðla.
    Löggjöf Evrópubandalagsins á sviði neytendaverndar er víðtækari en íslensk löggjöf og því er nauðsynlegt að setja nýjar reglur á því sviði.
    Engar sérstakar reglur hafa gilt um viðskipti með alferðir hér á landi. Neytendavernd í ferðaþjónustu byggir einkum á IV. kafla laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála. Þar eru ákvæði um ferðaskrifstofur, rekstrarleyfi, tryggingarfé o.fl. Reglugerð nr. 266/1978 um almennar ferðaskrifstofur tekur einnig til þessa sviðs. Þá er og um að ræða tvær auglýsingar; nr. 328/1990 um ferðaskrifstofur og auglýsingu nr. 23/1990 um tryggingarfé ferðaskrifstofa. Einnig er vísað til reglugerðar nr. 21/1985 um leiguflug, en þar eru ýmis ákvæði farkaupanum til verndar.
    Löggjöf um skipulag ferðamála er nú í endurskoðun þar sem m.a. verður lögð aukin áhersla á vernd neytenda.
    Hjá Félagi íslenskra ferðaskrifstofa (FÍF) hafa verið í gildi reglur um almenna skilmála milli ferðaskrifstofanna og þeirra er kaupa ferðir. Ferðaskilmálar þessir voru settir einhliða af Félagi íslenskra ferðaskrifstofa og síðast samþykktir með breytingum á fundi hjá þeim 3. febrúar 1993, sbr. fskj. 3.
    Breytingar þær er síðast voru samþykktar á fundi hjá FÍF eru að mestu í anda þessa frumvarps, enda höfðu forráðamenn samtakanna tilskipun Evrópubandalagsins og drög að lagafrumvarpi þessu til viðmiðunar. Í eldri ferðaskilmálum var m.a. heimilt að undanskilja flugvallaskatta, innlenda og erlenda, svo og forfallagjald í auglýstu verði. Þess í stað mátti tilkynna fjárhæð þessara þátta sérstaklega. Með síðustu breytingum ferðaskilmálanna skuldbinda ferðaskrifstofurnar sig til að auglýsa eitt verð ferðar í fjölmiðlum þar sem innifalin eru öll gjöld er farkaupi þarf að greiða í alferðinni. Einnig var sett inn í nýjustu ferðaskilmálana ákvæði um framsal alferðarbókunar til einhvers annars aðila. Þá var einnig í samræmi við frumvarp þetta sett inn ákvæði er bannar verðbreytingar á alferð síðustu tuttugu dagana fyrir brottför. Með breytingunum var einnig numið brott ákvæði um að ferðaskrifstofurnar beri ekki ábyrgð á vanefndum sem upp kunna að koma, vegna annarra þjónustuaðila sem veita þjónustu samkvæmt alferðarsamningi. Að öðru leyti er vísað til ferðaskilmála FÍF í fskj. 3.
    Er hér einnig vísað til reglna sem fyrrum Verðlagsstofnun setti 1. febrúar 1992 um samræmdar verðupplýsingar o.fl. í auglýsingum á ferðum hjá ferðaskrifstofum, ferðafélögum, flugfélögum, skipafélögum og öðrum, sbr. fskj. 4.
    Drög að þessu lagafrumvarpi voru send til umsagnar Félags íslenskra ferðaskrifstofa og til Verðlagsstofnunar (nú Samkeppnisstofnunar). FÍF gerði nokkrar athugasemdir og vonast er til að þeim hafi flestum verið komið til skila í frumvarpi þessu. Verðlagsstofnun hafði hins vegar engar athugasemdir við frumvarpið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt greininni gildir frumvarpið annars vegar um samninga milli farkaupa og ferðaheildsala eða ferðasmásala og hins vegar um aðdraganda samningsgerðarinnar, þar með taldar auglýsingar og kynningar á ferðum. Auk þess fjallar frumvarpið um afleiðingar vanefnda á samningi um alferð. Við það er miðað að lög þessi séu ófrávíkjanleg þannig að óheimilt er að setja reglur farkaupanum í óhag. Hins vegar er ferðaheildsala eða ferðasmásala í sjálfsvald sett að veita farkaupa betri vernd. Lögin taka jafnt til alferða sem farnar eru hér á landi og erlendis, hvort sem farkaupi er Íslendingur eða erlendur ríkisborgari.
    

Um 2. gr.


    Í frumvarpi þessu er hugtakið alferð notað um fyrirfram ákveðna samsetningu ekki færri en tveggja eftirfarandi atriða þegar ferð er seld eða boðin til sölu á heildarverði og þegar þjónustan tekur til lengri tíma en 24 klukkustunda eða í henni felst gisting. Þessi atriði eru: flutningur, gisting og önnur þjónusta við ferðamenn sem ekki er viðbót við flutning eða gistingu og tekur til verulegs hluta af ferðinni.
    Fyrir fram ákveðin samsetning tekur jafnt til ferða eins og þeim er lýst í bæklingum eða verðskrám ferðaskrifstofa og þegar gerð er breyting á ferð að ósk farþega. Þá getur samsetning alferðar átt sér stað um leið og bókun er gerð og ekki skiptir máli að sala allra atriða alferðar eigi sér stað á sama tíma.
    Rökin fyrir því að nota hugtakið alferð í stað pakkaferðar eru einkum þau að hugtakið alferð hefur verið notað í íslenskum rétti um sambærilegar ferðir. Þannig var hugtakið alferð notað í reglugerð um leiguflug nr. 21/1985, sbr. II. kafla, einkum 7. og 8. gr. Í 7. gr. þeirrar reglugerðar segir: „Alferð nefnist leiguflug þar sem allt hið leigða rými skal notað eingöngu til flutnings á farþegum og farangri þeirra.“ Síðan eru talin upp í 8. gr. þau atriði er fram þurfa að koma svo að um alferð sé að ræða. Vakin er athygli á því að hugtakið er notað í þrengri merkingu í leiguflugsreglugerðinni en í frumvarpi þessu.
    Einnig notaði flugorðanefnd samgönguráðuneytisins, sem lauk störfum árið 1992, hugtakið alferð með sama hætti og gert er í þessu frumvarpi.
    Í frumvarpi þessu er notað hugtakið ferðaheildsali um þann er setur saman alferð og selur hana eða býður til sölu, hvort heldur beint eða gegnum ferðasmásala. Er það þýðing á enska hugtakinu „tour organizer“. Hugtakið ferðaheildsali í skilningi frumvarps þessa nær fremur yfir bæði ensku hugtökin „tour operator“ (ferðaskipuleggjandi) og „tour organizer“ (ferðaheildsali).
    Í fyrrnefndri tilskipun Evrópubandalagsins er ferðaheildsali sá sem setur saman alferð „oftar en stöku sinnum“. Hið sama gildir í dönsku og ensku lögunum um alferðir. Í frumvarpi þessu er hins vegar gert ráð fyrir því að um ferðaheildsala sé að ræða þó hann setji saman aðeins einungis eina ferð. Það er í samræmi við lög um skipulag ferðamála, nr. 79/1985.
    Þessi hugtök í íslenskri ferðaþjónustu hafa verið nokkuð á reiki, enda ferðamarkaðurinn lítill og sem fyrr segir hafa engin sérstök lög verið til um alferðir. Þannig hefur hugtakið „framleiðandi“ verið algeng málnotkun yfir hugtakið „tour organizer“ í íslenskri ferðaþjónustu.
    En hver er munurinn á ferðaskipuleggjanda („tour organizer“) og ferðaheildsala („tour operator“)? Munurinn er sá að hinn fyrrnefndi er skipuleggjandi alferða í öllum tilvikum. Hinn síðarnefndi er einnig í söluhlutverkinu. Í skilningi frumvarpsins er ferðaheildsali hvort tveggja.
     Ferðasmásali er sá sem selur eða býður til sölu alferð sem ferðaheildsali hefur sett saman. Í upphaflegri þýðingu tilskipunar ráðherraráðs Evrópubandalagsins nr. 90/314/EBE frá 13. júní 1990 er enska hugtakið „retailer“ þýtt sem ferðasmásali. Hugtakið ferðasmásali í frumvarpi þessu svipar til „travel agency“ í enskri hugtakanotkun.
    Hugtakið farkaupi hefur mjög sambærilega merkingu og hugtakið neytandi hefur í íslenskri málnotkun. Í tilskipun Evrópubandalagsins er hugtakið „consumer“ notað. Hins vegar var talið betra að nota hugtakið farkaupi. Vakin er athygli á því að hugtakið nær ekki einungis yfir þann aðila er gerir samning um kaup á alferð, eða þann sem aðalsamningsaðilinn semur um kaup á alferð fyrir, heldur einnig þann aðila sem aðalsamningsaðili eða sá sem samið hefur verið fyrir hefur framselt alferð til.
    Orðið farkaupi hefur ekki verið notað áður í þessari merkingu en Íslensk málstöð hefur mælt með notkun þess.
    

Um 3. gr.


    Mikilvægur þáttur verndar farkaupa í alferðarviðskiptum er að tryggja að ferðaheildsali eða ferðasmásali gefi ekki villandi upplýsingar og að bæklingar, sem farkaupi fær í hendur, veiti réttar og greinargóðar upplýsingar.
    Rétt er að taka fram að með þessu ákvæði er ekki verið að skylda ferðaheildsala eða ferðasmásala til að gefa út bæklinga. Einungis er verið að tryggja að ef slíkt upplýsingaefni er gefið út gildi um það samræmdar reglur.
    Í áðurnefndri tilskipun um ferðapakka, sumarleyfis- og skoðunarferðapakka eru settar fram ákveðnar reglur um að í upplýsingabæklingi um alferðir skuli tilgreina á læsilegan, skiljanlegan og greinargóðan hátt bæði verð og fullnægjandi upplýsingar varðandi eftirtalin atriði:
    ákvörðunarstað og þau samgöngutæki sem notuð eru, eiginleika þeirra og gæðaflokk,
    tegund gistingar, staðsetningu, gæða- eða þægindaflokk og helstu einkenni, samþykkt hennar og ferðamannaflokkun samkvæmt reglum hlutaðeigandi gistiríkis,
    ráðgerðar (innifaldar) máltíðir,
    ferðaáætlun,
    almennar upplýsingar um kröfur sem gerðar eru um vegabréf og vegabréfsáritanir fyrir ríkisborgara þeirra ríkja sem í hlut eiga og heilbrigðisráðstafanir sem krafist er fyrir ferðina og dvölina,
    fyrirframgreiðslu, tilgreinda fjárhæð eða hundraðshluta heildarverðs sem greiða þarf fyrir fram, sem og hvenær skuli greiða eftirstöðvarnar,
    hvort krafist er lágmarksfjölda fólks til þess að af ferðinni verði og í því tilviki hvenær farkaupa skuli tilkynnt um niðurfellingu ferðar í síðasta lagi.
    Í ákvæðum hér að ofan er vísað til gæða- eða þægindaflokkunar gististaða og helstu einkenni, samþykkt gististaða og ferðamannaflokkun samkvæmt reglum hlutaðeigandi gistiríkis. Á það skal bent að á Íslandi er ekki til nein gæða- eða þægindaflokkun fyrir gisti- og veitingastaði. Í 8. gr. laga um um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, eru þó gististaðir flokkaðir niður, en ekki samkvæmt gæða- eða þægindaflokkun sem um er rætt í tilskipun Evrópubandalagsins.
    Ljóst er að ekki er hægt að gera sömu kröfu um magn upplýsinga í auglýsingum og í ferðabæklingum. Þannig er krafan um að „veita allar upplýsingar sem ferðina snerta á greinargóðan og nákvæman hátt“ ekki eins rík í auglýsingum, t.d. í dagblöðum, og í útgáfu bæklinga. Aðalatriðið er að farkaupi eigi greiðan aðgang að upplýsingum um alferð. Hins vegar er eðlilegt að setja samræmdar reglur um þau atriði er taka þarf fram í auglýsingum alferða. Auglýsingar mega t.d. ekki vera villandi fyrir farkaupa; eitt sameiginlegt verð þarf að koma fram í auglýsingu alferðar, en ekki sundurliðað verð með tilvísunum og neðanmálsathugasemdum sem er til þess fallið að villa um fyrir væntanlegum farkaupum. Á sama hátt er óeðlilegt að auglýsa verð alferðar miðað við ákveðinn fjölda kaupenda eða viðbótarþjónustu sem farkaupa er skylt að kaupa með alferðinni.
    Ein gerða EES-samningsins fjallar um þetta atriði með beinum hætti. Það er tilskipun ráðherraráðs Evrópubandalagsins nr. 84/450/EBE frá 10. september 1984 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna um villandi auglýsingar. Hún er í XIX. viðauka er fjallar um neytendavernd. Er vísað til nánari ákvæða hér að lútandi í þeirri tilskipun.
    Í fskj. 4 með frumvarpi þessu eru reglur sem fyrrum Verðlagsstofnun (nú Samkeppnisstofnun) setti 1. febrúar 1992 um samræmdar verðupplýsingar o.fl. í auglýsingum á ferðum hjá ferðaskrifstofum, ferðafélögum, flugfélögum, skipafélögum og öðrum, en 3. gr. frumvarps þessa er í anda þeirra reglna.
    Í 16. gr. frumvarps þessa er gert ráð fyrir heimild til handa samgönguráðherra til að setja nánari reglur um upplýsingar er fram þurfa að koma í auglýsingum og ferðabæklingum.
    

Um 4. gr.


    Í viðskiptum sem þessum er afar mikilvægt að samningar séu formbundnir og að tryggt sé að farkaupi fái ítarlegar upplýsingar um tilhögun ferðar. Farkaupi þarf að geta gengið að skráðum samningsskilmálum er gilda um alferðina. Auðvelt ætti að vera að koma þessu í kring með kröfu um að allir samningsskilmálar séu skráðir í því formi að skiljanlegt sé og farkaupa tiltækt og að hann fái afrit af því.
    Rökin fyrir kröfunni um skriflega alferðarsamninga eru ekki eingöngu nauðsynleg upplýsingaskylda heldur einnig þau að vegna eðlis þessara viðskipta og möguleikanum á vanefndum og hugsanlegum skaðabótakröfum þykir rétt að formbinda samningsgerðina.
    Í viðauka með tilskipun Evrópubandalagsins um alferðir eru talin upp eftirfarandi atriði sem tilgreina þarf í samningi um alferðir:
    ákvörðunarstað(i) ferðar og þar sem um dvöl er að ræða tímabil þau sem við á með dagsetningum,
    samgöngutæki sem nota á, eiginleika þeirra og gæðaflokk, dagsetningar, tímasetningar og brottfarar- og heimkomustaði,
    þegar gisting er innifalin í pakkanum, staðsetning hennar, ferðamanna- eða þægindaflokk, helstu eiginleika, hvort hún er í samræmi við reglur hlutaðeigandi ríkis og ráðgerðar máltíðir sem innifaldar eru í alferðinni,
    hvort tiltekinn fjölda þátttakenda þarf til þess að af ferðinni verði og í því tilviki, hvenær frestur til að tilkynna farkaupa um hugsanlega aflýsingu ferðarinnar rennur út,
    ferðaáætlunin/leiðin,
    heimsóknir, skoðunarferðir eða önnur þjónusta sem er í umsömdu verði heildarpakkans
    nafn og heimilisfang ferðaheildsalans, ferðasmásalans og vátryggjanda þar sem það á við,
    verð pakkans, vísbending um möguleika á endurskoðun verðs skv. 7. gr., gengi þess gjaldmiðils sem á við um alferðina og vísbending um hugsanlegar álögur, skatta eða sérstakar greiðslur fyrir tiltekna þjónustu (lendingargjöld, að ganga frá borði eða fara frá borði í höfnum og á flugvöllum, ferðamannaskattar) þegar slík útgjöld eru ekki innifalin í pakkanum,
    greiðsluáætlun og greiðslutilhögun,
    sérstakar kröfur sem farkaupi hefur kunngert ferðaheildsala eða ferðasmásala við bókun og báðir hafa samþykkt,
    frestur sá er farkaupi hefur til þess að setja fram kvörtun um vanefndir á framkvæmd eða um ranga framkvæmd samningsins.
    Í 2. mgr. er vísað til upplýsinga sem ferðaheildsala eða ferðasmásala er skylt að láta farkaupa í té, skriflega eða á annan viðeigandi hátt, fyrir samningsgerð. Um er ræða almennar upplýsingar um kröfur sem gerðar eru til vegabréfa og vegabréfsáritanir að því er varðar hlutaðeigandi ríki, og frest til að útvega slíkt, auk upplýsinga um heilbrigðisráðstafanir sem krafist er fyrir ferðina. Eðlilegt verður að teljast að slíkar upplýsingar séu veittar skriflega eða á annan ótvíræðan hátt áður en samningur er undirritaður.
    Ferðaheildsali eða ferðasmásali skal einnig veita farkaupa, áður en alferð hefst, nánari upplýsingar um þau atriði sem eru nauðsynleg til að alferð verði farin. Skulu þær veittar skriflega eða á annan ótvíræðan hátt með góðum fyrirvara fyrir brottför. Í 4. gr. áðurnefndrar tilskipunar Evrópubandalagsins um alferðir eru þessar upplýsingar taldar upp. Þessi atriði eru eftirfarandi:
    „i) tíma og staði þar sem höfð er viðdvöl á leiðinni og tengiferðir ásamt nánari upplýsingum um það rými sem ferðamanninum er ætlað, þ.e. klefa eða legurúm í skipi eða svefnklefa í lest;
    ii) nafn, heimilisfang og símanúmer fulltrúa skipuleggjanda og/eða ferðasmásala á hverjum stað eða, sé ekki um það að ræða, ferðaskrifstofur á þeim stöðum sem neytandi í erfiðleikum gæti leitað til. Þar sem ekki eru neinir slíkir fulltrúar eða ferðaskrifstofur verður engu að síður að láta neytanda í té neyðarsímanúmer eða einhverjar aðrar upplýsingar er geri honum kleift að hafa samband við ferðaheildsala og/eða ferðasmásalann;
    iii) þegar um er að ræða ferðir ólögráða barna til útlanda eða dvöl þeirra erlendis, upplýsingar er gera kleift að ná beinu sambandi við barnið eða ábyrgðaraðila á þeim stað er barnið dvelst;
    iv) upplýsingar um tryggingarsamninga er gera megi til að mæta kostnaði við aðstoð, þar með talinn flutning aftur til heimalands, ef slys eða veikindi ber að höndum.“
    Gert er ráð fyrir því í 16. gr. frumvarpsins að samgönguráðherra hafi heimild til að setja nánari ákvæði um áðurnefnd atriði í reglugerð.

Um 5. gr.


    Eðlilegt er að farkaupi eigi rétt á því, við tilteknar aðstæður, að falla frá samningi um alferð fyrir brottför. Í greininni er gert ráð fyrir að farkaupi geti afpantað alferð sem hann hefur keypt en þó getur seljandi krafist þóknunar í ákveðnum tilvikum ef farkaupi afpantar. Skal sú upphæð ákveðin með tilliti til þess hvenær afpantað er og hvers eðlis alferðin er.
    Vegna neytendaverndar er einnig áréttuð í 1. mgr. upplýsingaskylda ferðaheildsala og ferðasmásala. Líkt og kveðið er á um í 4. gr. skal farkaupa tilkynnt áður en samningur er gerður hvaða skilmálar gilda um afpantanir alferðar.
    Þær aðstæður kunna að koma upp að farkaupa er gert ómögulegt að fullnægja skyldum sínum samkvæmt samningnum. Um er að ræða ástand á áfangastað eða nálægt honum, svo sem stríðsaðgerðir, borgarastyrjöld, lífshættulegir smitsjúkdómar eða annað sem hefur afgerandi áhrif á framkvæmd alferðar. Við slíkar aðstæður verður að teljast eðlilegt að farkaupi hafi rétt á að afpanta alferð og fá endurgreitt verð. Hér er miðað við þegar 14 dagar eða færri eru til brottfarar. Í slíkum tilvikum ætti farkaupi að eiga rétt á að fá fulla endurgreiðslu að frádregnu staðfestingargjaldi. Hafi farkaupi hins vegar mátt sjá fyrir um ofangreinda atburði og ástand er samningur var gerður, gildir þetta þó ekki.
    Í 3. mgr. 5. gr. er ítrekuð upplýsingaskylda ferðaheildala og ferðasmásala. Áður en samningur um alferð er gerður skal veita farkaupa upplýsingar um það hvaða möguleikar eru á að gera tryggingarsamning eða tryggja sig á annan hátt til að mæta fjárhagslegu tjóni í þeim tilvikum að farkaupi getur ekki tekið þátt í alferð. Þetta er enn fremur eitt þeirra atriða sem ferðaheildsala eða ferðasmásala er gert skylt að upplýsa farkaupa um skv. 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins.
    

Um 6. gr.


    Hér er sett inn ákvæði um að hægt sé að framselja bókun alferðar. Þó er gert ráð fyrir að farkaupi geti einungis framselt bókunina til aðila er uppfyllir skilyrði til þátttöku í alferðinni.
    Á framsali alferðar eru annmarkar. Hugsanlegt er að þeir aðilar er selja þjónustu í alferð hafi sett ákveðin skilyrði í upphafi og að það sé ekki á valdi ferðaheildsala eða ferðasmásala að breyta þeim. Einn helsti annmarkinn eru þær reglur er gilda um framsal flugfarseðla bæði hjá Alþjóðasambandi flugfélaga (IATA) og Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO). Samkvæmt þeim er flugfarseðill ekki framseljanlegur þegar búið er að gefa hann út, sjá einkum 1. tölul. d 3. gr., Almennir flutningsskilmálar farþega og farangurs IATA, mars 1988. Þetta er m.a. vegna þess að farseðill er ekki eingöngu staðfesting á sæti í flugvél heldur einnig kvittun fyrir tryggingu. Framsalsheimildin gildir því aðeins þangað til flugfarseðill er gefinn út. Hér er einnig vísað til athugasemda með 14. gr. frumvarps þessa.
    

Um 7. gr.


    Hér er lagt til að lögfest verði sú meginregla að ekki megi breyta umsömdu verði alferða nema við ákveðnar kringumstæður sem ekki eru á valdi ferðaheildsala eða ferðasmásala og slíkt sé beinlínis heimilað í samningnum, sbr. athugasemdir með 4. gr. frumvarpsins. Þessi atriði eru breytingar á: flutningskostnaði, þar með töldum eldsneytiskostnaði; sköttum eða gjöldum fyrir tiltekna þjónustu, svo sem lendingargjöldum eða gjöldum fyrir að fara um borð eða frá borði í höfnum og á flugvöllum, og gengi þess gjaldmiðils sem á við um hina tilteknu ferð.
    Athuga ber að heimild til verðbreytinga gildir jafnt til hækkunar eða lækkunar á umsömdu verði alferðar. Farkaupi skal þannig njóta góðs af gengisbreytingum eða öðrum breytingum á verði alferðar allt fram að tuttugu dögum fyrir brottför.
    Heimild til verðhækkunar gildir þó ekki síðustu 20 daga áður en alferð hefst. Gengisbreytingar og aðrar breytingar á því tímabili geta því ekki breytt verði alferðarinnar, nema hugsanlega til verðlækkunar. Þetta ákvæði, sem er nýlunda í íslenskum ferðaskilmálum, er þýðingarmikið skref í átt til aukinnar neytendaverndar.
    7. gr. frumvarps þessa er samhljóða 4. tölul. 4. gr. tilskipunar Evrópubandalagsins um ferðapakka, sumarleyfis- og skoðunarferðapakka.
    

Um 8. gr.


    Hér er kveðið á um að tilkynna skuli farkaupa allar breytingar sem verða á alferð áður en hún hefst. Ef breyting er veruleg á farkaupi þess kost að rifta samningnum eða gera viðbótarsamning vegna breytinganna. Ef farkaupi óskar ekki að taka þátt í breyttri alferð á hann þess ætíð kost að rifta samningnum og fá endurgreitt allt það sem hann hefur lagt út, sbr. 9. gr. og 10. gr. Ákvæði greinar þessarar er í samræmi við 5. tölul. 4. gr. tilskipunar Evrópubandalagsins.
    

Um 9. gr.


    Hér er kveðið á um að farkaupi eigi rétt á endurgreiðslu á allri upphæðinni sem hann hefur greitt ferðaheildsala eða smásala samkvæmt samningi um alferð. Þetta á þó einungis við þegar hann riftir samningi vegna breytinga á alferð skv. 8. gr. og þegar ferðaheildsali eða ferðasmásali aflýsir alferð án þess að fullnægt sé skilyrðum um lausn undan ábyrgð skv. 10. gr. Jafnframt getur farkaupi tekið í staðinn sambærilega alferð að gæðum eða betri ef ferðaheildsali eða smásali geta boðið slík skipti.
    

Um 10. gr.


    Verði farkaupi fyrir tjóni vegna verulegra breytinga á alferð skv. 8. gr. eða aflýsinga á alferð á hann rétt á bótum, en hér eru nefnd tvö tilvik þar sem ferðaheildsali eða ferðasmásali skulu leystir undan ábyrgð.
    Í fyrsta lagi um að ræða þau tilvik þegar alferð er aflýst vegna þess að færri hafa skráð sig í alferðina en nemur þeirri lágmarkstölu sem ferðaheildsali hefur tilskilið. Forsenda þess að þessu ákvæði verði beitt er sú að ferðaheildsali hafi upplýst þegar samningur er gerður að farið sé fram á lágmarkstölu þátttakenda til þess að af ferð geti orðið. Einnig að upplýst hafi verið hvaða dag ber að láta farkaupa vita í síðasta lagi ef ferðinni er aflýst. Þótt það sé ekki sagt berum orðum í tilskipuninni að skyldu beri til að upplýsa um nákvæma lágmarkstölu þátttakenda hlýtur það þó að vera skilyrði þess að ákvæðið hafi merkingu í reynd. Þetta skilyrði kemur reyndar skýrt fram í ákvæðunum um lausn undan ábyrgð þar sem notað er orðalagið „sú lágmarkstala sem ferðaheildsali hefur krafist“. Enn fremur væri mikil hætta á því að ferðaheildsalar komi sér hjá þessu ákvæði ef þeir þurfa ekki að gefa upp hvaða lágmarksþátttöku er krafist til þess að hægt sé að framkvæma alferðina. Því ber ferðaheildsalanum skylda til að gefa upp þann lágmarksfjölda sem krafist er þótt ef til vill geti verið erfitt að meta það fyrir fram. Til þess að ferðaheildsalar eða ferðasmásalar teljist lausir undan ábyrgð hlýtur að mega krefjast þess að talan sé ákvörðuð með sanngirni. Enn fremur er forsenda þess að ferðaheildsali eða ferðasmásali séu lausir undan ábyrgð að farkaupi sé upplýstur um að alferðinni hafi verið aflýst áður en sá frestur rennur út sem er veittur þegar samningur er gerður.
    Í öðru lagi er ferðaheildsali og ferðasmásali enn fremur lausir undan ábyrgð á því að alferð hafi verið aflýst, ef aflýsingin er af völdum ófyrirsjáanlegra aðstæðna (force majeure). Með ófyrirsjáanlegum aðstæðum er átt við aðstæður, sem sá er þær ber fyrir sig fær engu um ráðið og hefði ekki getað komið í veg fyrir afleiðingar. Í þessu sambandi telst yfirbókun ekki til ófyrirsjáanlegra aðstæðna.
    Dómstóll Evrópubandalagsins hefur sett það fordæmi að hugtakið „force majeure“ vísar einkum til utanaðkomandi aðstæðna, sem gera verknað óframkvæmanlegan. Þótt það sé ekki gert að skilyrði í hugtakinu að verknaðurinn sé óframkvæmanlegur með öllu, er kveðið á um að um algerlega óvenjulega og ófyrirsjáanlega erfiðleika sé að ræða, sem eru óháðir vilja viðkomandi persónu og með engu móti hægt að sjá fyrir um þótt öll sú aðgát hafi verið við höfð, sem með sanngirni má krefjast. Miklar kröfur eru gerðar til þeirrar persónu eða fyrirtækis, sem þarf að sýna fram á að um „force majeure“ sé að ræða. „Force majeure“ getur ekki byggst á mistökum starfsmanna eða annarra, sem viðkomandi ber ábyrgð á.
    Hér koma til greina skaðabætur vegna aukaútgjalda, sem og útgjalda vegna bólusetningar, vegabréfsáritunar, trygginga og fleiri atriða sem reynast óþörf. Enn fremur kemur til greina að greiða útgjöld vegna barnapössunar, gæslu dýra, afleysinga í fyrirtæki eða landbúnaði o.s.frv. að því tilskildu að farkaupi verði að standa straum af þessum kostnaði, þó svo ekkert verði af ferðinni. Farkaupa ber þó skylda til að koma í veg fyrir tjón eftir mætti.
    Á hinn bóginn má gera ráð fyrir að fylgt sé sama fordæmi og hingað til, að ekki sé hægt að krefjast skaðabóta fyrir hugsanlegt tjón sem felst í því að alferð á sér ekki stað eins og samið var um.
    

Um 11. gr.


    Grein þessi fjallar um úrræði farkaupa ef í ljós kemur eftir brottför að ferðin fullnægir ekki ákvæðum samningsins. Farkaupann skiptir það mestu að alferðin reynist í samræmi við þann samning sem gerður hefur verið og að leyst verði úr þeim hnökrum sem upp kunna að koma sem fyrst þannig að farkaupi verði fyrir sem minnstum óþægindum. Ef ekki er unnt að bæta úr því sem á vantar eða þjónustan, sem veitt er, er minna virði en sú sem samið var um á farkaupi rétt á hlutfallslegum afslætti.
    Einungis í undantekningartilvikum ber að veita farkaupa riftunarrétt eftir að ferð er hafin og þarf þá að vera um að ræða verulegar vanefndir á framkvæmd samningsins. Tækifæri til riftunar á þessum tíma getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir ferðaheildsala og ferðasmásala og því eðlilegt að farkaupi eigi frekar rétt á bótum en rétt til riftunar ef ákvæðum samnings um alferð er ekki fullnægt.
    Eðlilegt verður að teljast að farkaupi þurfi að tilkynna ferðaheildsala eða ferðasmásala eða fulltrúa þeirra eins fljótt og kostur er og á fullnægjandi hátt, um vanefndir á samningi, svo að úr megi bæta. Í 4. tölul. 5. gr. tilskipunar Evrópubandalagsins er ákvæði um þessa tilkynningarskyldu farkaupa og að þessir samningsskilmálar séu formbundnir. Þetta kemur einnig fram í k. lið viðauka, er fylgir með tilskipuninni.
    En hvert á farkaupi að beina kvörtuninni? Í 4. gr. frumvarps þessa og 4. gr. tilskipunar Evrópubandalagsins er sett fram krafa um að ferðaheildsali eða ferðasmásali veiti farkaupa, áður en alferð hefst, nánari upplýsingar um þau atriði sem eru nauðsynleg til að alferð verði farin. Til að farkaupi geti komið fram kvörtunum um vanefndir þarf ferðaheildsali eða ferðasmásali að hafa veitt þessar upplýsingar. Þessi atriði eru m.a.: nafn, heimilisfang og símanúmer fulltrúa skipuleggjanda og/ eða ferðasmásala á hverjum stað eða, sé ekki um það að ræða, ferðaskrifstofur á þeim stöðum sem farkaupi í erfiðleikum gæti leitað til. Þar sem ekki eru neinir slíkir fulltrúar eða ferðaskrifstofur verður engu að síður að láta neytenda í té neyðarsímanúmer eða einhverjar aðrar upplýsingar er geri honum kleift að hafa samband við ferðaheildsalann og/eða ferðasmásalann.
    Gert er ráð fyrir því í 16. gr. frumvarpsins að samgönguráðherra geti sett nánari ákvæði um áðurnefnd atriði í reglugerð.
    

Um 12. gr.


    Hér er skýrt kveðið á um að ferðaheildsali og ferðasmásali beri báðir ábyrgð gagnvart farkaupa á því að staðið sé við framkvæmd samningsins, óháð því hvort hún er í höndum þeirra sjálfra eða annarra þjónustuaðila. Ákvæði þetta er í samræmi við 1. tölul. 5. gr. tilskipunar Evrópubandalagsins, en þar kemur fram að aðildarríki skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að ferðaheildsali eða ferðasmásali beri ábyrgð gagnvart farkaupa á því að staðið sé við framkvæmd þeirra skuldbindinga sem samningurinn kveður á um, hvort sem ferðaheildsala eða ferðasmásala ber að annast framkvæmdina sjálfir eða hún er í höndum annars þjónustuaðila. Slíkar reglur mega ekki takmarka rétt ferðaheildsala eða ferðasmásala til þess að krefjast efnda af hálfu annarra þjónustuaðila.
    Ferðaskilmálum Félags íslenskra ferðaskrifstofa hefur þegar verið breytt til samræmis við ákvæði 12. gr., sbr. fskj. 3. Í fyrri ferðaskilmálum var skýrt kveðið á um að íslenskar ferðaskrifstofur bæru enga ábyrgð á vanefndum annarra þjónustuaðila samkvæmt samningum.
    

Um 13. gr.


    Hér verður farkaupi fyrir tjóni, af öðrum sökum en þeim sem getið er um í 10. gr. vegna þess að alferð var ófullnægjandi. Hann á þá rétt á skaðabótum nema ferðaheildsali eða ferðasmásali geti sýnt fram á að tjónið sé ekki vegna vanrækslu, hvorki af hans hálfu né nokkurs aðila sem falin hefur verið framkvæmd hluta af alferðinni, t.d. flutningsaðila eða hóteleiganda. Í þessu efni miðast við að ferðaheildsali eða ferðasmásali hafi valið viðkomandi þjónustuaðila en ekki farkaupi. Hafi farkaupi t.d. valið sérstakt hótel sem ferðaheildsali eða ferðasmásali hefur engin viðskiptatengsl við, heldur einungis pantað að ósk farkaupa, á bótaábyrgðin ekki við.
    Bætur vegna ágalla, sem koma í ljós eftir að ferð er hafin, geta náð til þeirra viðbótarútgjalda sem lenda á farkaupa vegna þeirra, t.d. útgjalda vegna flutninga, neyslu eða annarrar þjónustu sem var hluti umsaminnar alferðar, en ekki var boðið upp á eða reyndist svo ábótavant að farkaupi varð að leggja fram viðbótarútgjöld til að öðlast umsamda þjónustu. Leiði seinkun á heimkomu til þess að farkaupi glati vinnulaunum, ætti hann rétt á bótum skv. venjulegum skaðabótareglum.
    Ekki er um að ræða hvers kyns meiðsli eða tjón sem farkaupi kann að verða fyrir í alferðinni, heldur einungis þau sem farkaupi verður fyrir vegna þess að ekki hefur verið staðið við samninginn. Verði farkaupi fyrir meiðslum við að nota þjónustu sem ekki er hluti af alferðinni, t.d. bíl sem farkaupi hefur sjálfur leigt, kveða reglur tilskipunarinnar á um að ferðaheildsali eða ferðasmásali beri ekki skaðabótaábyrgð vegna þeirra meiðsla sem farkaupi kann að verða fyrir vegna galla í farartækinu.
    Ferðaheildsali eða ferðasmásali eru enn fremur leystir undan ábyrgð ef farkaupi á sjálfur sök á að ekki er staðið við samning eða um sé að ræða óviðráðanlegar aðstæður.
    Í samræmi við venjulegar reglur í skaðabótarétti ber farkaupa að sýna fram á að alferðin hafi verið gölluð, að um tjón eða slys hafi verið að ræða og að orsakasamhengi sé þarna á milli. Enn fremur ber að nota venjuleg sjónarmið um hvað er við hæfi.
    Tilskipunin segir ekkert til um það fyrir hvaða tjónaliði tjónþoli getur krafist skaðabóta og hvernig meta skal skaðabætur. Samkvæmt frumvarpi þessu getur farkaupi hins vegar krafist bóta fyrir vanefndir á samningi, þ.e. þá tjónaliði sem rekja má til vanefnda á samningi.
    

Um 14. gr.


    Samkvæmt 14. gr. er heimiluð takmörkun bóta í samræmi við landslög eða alþjóðasamninga um þjónustu þá sem felst í alferðum. Þannig er hægt að takmarka skaðabætur í samræmi við þá alþjóðlegu flutningasamninga sem Ísland hefur staðfest. Hér kemur einkum til álita Varsjársamningurinn frá 1929 um alþjóðlega loftflutninga. Með sérlögum geta skaðabætur verið takmarkaðar og má sem dæmi nefna lög um loftferðir nr. 34/1964, siglingalög nr. 34/1985 og lög um flutningasamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi nr. 24/1982.
    Enn fremur er gert ráð fyrir því í tilskipun Evrópubandalagsins, 2. mgr. 5. gr., að aðildarríkin geti takmarkað bætur samkvæmt samningum ef um er að ræða annað tjón en meiðsli á mönnnum. Tekið er sérstaklega fram í tilskipuninni að slík takmörkun megi þó ekki vera ósanngjörn.
    

Um 15. gr.


    Hér er kveðið á um skyldur farkaupa meðan á alferð stendur. Þessar skyldur, sem upp eru taldar, eru ekki tæmandi. Heimilt er að kveða nánar á um skyldur farkaupa í alferðarsamningi og þá eftir því hvers eðlis ferðin er.
    Samsvarandi ákvæði er ekki að finna í tilskipun Evrópubandalagsins, en eðlilegt er að samfara þeim réttindum sem frumvarp þetta veitir farkaupa beri hann einnig skyldur lögum samkvæmt. Jafnframt eru ákvæði í loftferða- og siglingalögum um skyldur farkaupa í þessum efnum.
    

Um 16. gr.


    Eðlilegt verður að teljast að ýmis framkvæmdaratriði laga þessara verði ákveðin með reglugerð. Í greininni er samgönguráðherra heimilað að setja nánari reglur um framkvæmdina og talin eru upp þau atriði sem helst er ástæða til að fjalla nánar um í reglugerð. Það eru t.d. ákvæði um innihald upplýsingabæklings til viðskiptavinar og þau atriði sem taka þarf fram í alferðarsamningi.
    

Um 17. gr.


    Þótt samgönguráðuneytið fari með yfirumsjón ferðamála að íslenskum lögum falla neytendamál að öllu jöfnu undir Samkeppnisstofnun, sbr. samkeppnislög nr. 8/1993. Hér er lagt til að eftirlit með framkvæmdinni verði í höndum Samkeppnisstofnunar.
    

Um 18. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki nánari skýringar.
    

Um 19. gr.


    Ákvæðið um gildistöku þarfnast ekki nánari skýringar.


..........



    Um fylgiskjöl frumvarpsins vísast til samhljóða fylgiskjala á þskj. 773, 447. mál 116. löggjafarþings, bls. 4338–4344 í A-deild Alþt. 1992–93.
    Fimm fylgiskjöl voru birt með frumvarpinu. Á fskj. 1 var birt tilskipun ráðherraráðs Evrópubandalagsins frá 13. júní 1990 um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka. Á fskj. 2 var sama tilskipun prentuð í enskri útgáfu. Á fskj. 3 voru birtir ferðaskilmálar Félags íslenskra ferðaskrifstofa, samþykktir með breytingum á fundi þess 3. febrúar 1993, og á fskj. 4 reglur sem Verðlagsstofnun (nú Samkeppnisstofnun) setti 1. febrúar 1992 um samræmdar verðupplýsingar o.fl. í auglýsingum á ferðum hjá ferðaskrifstofum, ferðafélögum, flugfélögum, skipafélögum og öðrum. Á fskj. 5 var birt umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis um frumvarpið.