Ferill 75. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 75 . mál.


392. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1994.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Minni hluti nefndarinnar getur ekki mælt með afgreiðslu frumvarps til lánsfjárlaga við þær aðstæður sem ríkja þegar meiri hlutinn leggur til afgreiðslu málsins út úr nefndinni.
    Eins og málin standa ríkir mikil óvissa um ýmsa veigamikla þætti í efnahagsmálum og ríkisfjármálum og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hefur enn ekki komið sér saman um afgreiðslu ýmissa mikilvægra tekjuöflunarfrumvarpa og hvernig haga skuli álagningu skatta á komandi ári. Alla heildarsýn yfir efnahagsmálin vantar og verður ekki séð að neinni mótaðri stefnu sé fylgt varðandi hina einstöku þætti ríkisfjármála og efnahagsmála.
    Minni hlutinn varaði sterklega við losarabrag á stjórn efnahagsmála á síðasta vetri og má í því sambandi vísa bæði í nefndarálit um frumvarp til lánsfjárlaga fyrir árið 1993, sem dagsett er 21. desember 1992, og í framhaldsnefndarálit sem minni hlutinn skilaði 12. janúar á þessu ári, en þar var við því varað að ríkisstjórninni hefði með öllu mistekist að ná tökum á efnahagsmálum og ríkisfjármálum og að greinilega stefndi í meiri halla ríkissjóðs en gefið var í skyn í fjárlögum og mikla óvissu um ýmsa þætti efnahagsmála, vaxtamála og fleira.
    Þessi gagnrýni hefur nú sannast í ljósi reynslunnar og nægir í því sambandi að vitna til þess að eitt af verkefnum efnahags- og viðskiptanefndar á undanförnum vikum hefur verið að afgreiða „lánsfjáraukalög“ eða frumvarp til laga um breytingu á lánsfjárlögum fyrir yfirstandandi ár þar sem lántökuheimildir ríkissjóðs voru auknar um u.þ.b. 5 milljarða kr. vegna stóraukins halla ríkissjóðs, en hann stefnir nú eins og kunnugt er í hátt á annan tug milljarða kr.
    Þess ber að geta að fyrir liggur fjárlagafrumvarp sem sett er upp með um 10 milljarða kr. halla og í ljósi reynslunnar undangengin ár, og ekki síst í ljósi þeirra losarataka sem einkennt hafa vinnubrögð núverandi ríkisstjórnar á þessu sviði, verður að draga þá ályktun að veruleg óvissa sé um lánsfjárþörf ríkissjóðs og ýmissa fjárfestingalánasjóða og opinberra aðila á næsta ári.
    Minni hlutinn teldi því skynsamlegast að fresta afgreiðslu lánsfjárlaga fyrir árið 1994, a.m.k. þar til meira hefur skýrst um afdrif fjáröflunarfrumvarpa og skattafrumvarpa ríkisstjórnarinnar, og í ljósi þess hversu seint slík mál eru fram komin og stjórnarmeirihlutanum hefur gengið illa að ná um þau samkomulagi, sem auðvitað er forsenda afgreiðslu þeirra á þinginu, bendir flest til þess að vænlegast væri að afgreiða lánsfjárlög í upphafi næsta árs.
    Minni hlutinn vísar því ábyrgð á afgreiðslu málsins, ef hún verður engu að síður knúin í gegn af stjórnarmeirihlutanum, alfarið á hendur ríkisstjórn og meiri hluta hennar á Alþingi.
    Um efni frumvarpsins er í ljósi þess er að framan greinir ekki ástæða til að hafa mörg orð. Það er nú sett upp með þeim hætti að enginn greinarmunur er gerður á innlendri og erlendri lántöku og sömuleiðis er frumvarpið að öðru leyti einfaldara í sniðum en áður þar sem ýmis skerðingarákvæði í svonefndum „þráttfyrirkafla“ hafa nú verið flutt yfir í annað frumvarp, frumvarp ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    Minni hlutinn gerir ekki athugasemdir við lántökuheimildir einstakra aðila í frumvarpinu. Benda má þó á að minni lántökuheimild fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna er bein afleiðing af þeim breytingum sem ríkisstjórnin hefur gert á úthlutunarreglum Lánasjóðsins og er nú að koma á daginn það sem spáð var að upptaka vaxta á námslán og hertar útlánareglur mundu flæma ungt fólk frá námi. Er það auðvitað alvarlegt áhyggjuefni, ekki síst í ljósi þess hvernig atvinnuástand er í landinu sem aftur þýðir að það unga fólk, sem verður að hverfa frá námi, á í fæstum tilvikum að miklu að hverfa út á vinnumarkaðinum.
    Þá er í öðru lagi rétt að nefna sérstaklega fjármögnun húsnæðismálanna og byggingarsjóðanna. Ljóst er að mikil óvissa ríkir um hvernig sjóðunum mun ganga að afla fjármagns á innlendum markaði miðað við þau vaxtakjör sem ríkisstjórnin hefur nú ákveðið. Reyndar er þegar uppi umræða um það vegna þess hve litlum árangri sjóðirnir hafa náð í þeim tveimur útboðum á vegum Húsnæðisstofnunar sem hafa farið fram síðan 29. október sl. að stofnunin neyðist til að fara út á erlendan lánamarkað, jafnvel í verulegum mæli, til þess að fullnægja fjárþörf sinni. Það er svo aftur sérstakt umhugsunarefni í ljósi erlendrar skuldastöðu þjóðarbúsins út á hvaða braut við Íslendingar erum að halda ef við hefjum að fjármagna almennar húsbyggingar í landinu í stórum stíl með erlendum lántökum.
    Minni hlutinn ítrekar gagnrýni sína á þau vinnubrögð sem ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti hefur ástundað nú eins og á fyrri þingum varðandi ríkisfjármál og efnahagsmál. Vísar hann ábyrgð af afleiðingunum á hendur ríkisstjórninni og mun sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. des. 1993.



Halldór Ásgrímsson,

Steingrímur J. Sigfússon,

Kristín Ástgeirsdóttir.


form.

frsm.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson.