Ferill 251. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 251 . mál.


427. Nefndarálit



um frv. til l. um breytingar í skattamálum.

Frá 4. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

    Einn helsti vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs síðustu árin hefur verið í ferðaþjónustu og hafa, að minnsta kosti hingað til, verið bundnar miklar vonir við hana. Gjaldeyristekjur sem þessi atvinnuvegur skilaði til þjóðarbúsins á síðasta ári jókst um 2.500 m.kr. Áætluð neysla erlendra ferðamanna innan lands árið 1992 var metin á 7,4 milljarða kr. og fer upp í 8,3 milljarða kr. á þessu ári. Tekjur ríkisins af ferðaþjónustu eru því á bilinu 1–2 milljarðar kr. á ári. Það er álit 4. minni hluta að í þessari atvinnugrein liggi gífurlegir vaxtarmöguleikar sem ekki megi kasta fyrir róða. Í þeirri stöðu, sem atvinnulífið er í, er það auðvitað hreint glapræði að ráðast til atlögu við greinina. Miklu nær væri að vernda hana og styrkja. Ekki veitir af í þeirri hörðu samkeppni sem þessi iðnaður á í við erlenda samkeppnisaðila. Sú hækkun, sem fyrirhuguð skattlagning mun leiða af sér, mun trúlega draga úr komum erlendra ferðamanna til landsins og því draga úr gjaldeyristekjum, auka atvinnuleysið og setja rekstrargrundvöll aðila í greininni í verulega hættu. Það er því skoðun 4. minni hluta að þessi skattlagning muni snúast upp í andhverfu sína og leiða til stórtjóns fyrir þjóðarbúið en ekki til tekjuauka. Með hliðsjón af þessu telur 4. minni hluti ekki stætt á öðru en leggja til að þessi þáttur frumvarpsins verði felldur. Fjórði minni hluti mun hins vegar ekki flytja neinar breytingartillögur við frumvarpið en styður fram komnar breytingartillögur við þennan þátt þess.
    Virðisaukaskattur á innanlandsflug er vanhugsuð aðgerð og hefur sá skattur með réttu verið kallaður landsbyggðarskattur enda liggur það í augum uppi að hann leggst þyngst á þá sem lengst búa frá höfuðborginni. Auk þess er þarna um að ræða stóraukna skattlagningu á íþróttahreyfinguna í landinu þar sem fáir nota innanlandsflugið meira en íþrótta- og ungmennahreyfingin. Þá mun þessi skattur tvímælalaust veikja stöðu innlendrar ferðaþjónustu og virka sem hvati til utanlandsferða. Það hefur verið upplýst á fundum nefndarinnar að líkleg afleiðing skattlagningarinnar er niðurfelling flugs til ákveðinna staða, t.d. Sauðárkróks, þannig að ljóst er að ekki einungis mun þjónustan hækka stórlega heldur verður hún stórlega skert.
    Fjórði minni hluti leggst gegn breytingartillögu 1. minni hluta um upptöku markaðsgjalds. Tekjur af því gjaldi eiga að renna til Útflutningsráðs. Fjórði minni hluti telur að aðilar að Útflutningsráði eigi að bera þann kostnað en ekki aðrar óskyldar atvinnugreinar. Markaðsgjaldið er veltuskattur sem leggst á allar atvinnugreinar í landinu. Því vaknar spurning um hvort aðstöðugjaldið sé að ganga aftur.
    Fjórði minni hluti styður upptöku tveggja þrepa virðisaukaskatts á matvæli enda hefur hann frá upphafi barist gegn matarskattinum. Sá frestur, til áramóta, sem gefinn er til að aðlaga sig hinu nýja kerfi, er á hinn bóginn allt of stuttur og styður 4. minni hluti því breytingartillögu 3. minni hluta um frestun á upptöku þessa nýja þreps um tvo mánuði þótt æskilegra væri að lengri frestur væri gefinn. Að lokum skal bent á að allur undirbúningur varðandi upptöku þessa skatts hefur verið í molum hjá ríkisstjórn, fjármálaráðaneyti og skattyfirvöldum. Fjórði minni hluti lýsir fullri ábyrgð á því hvernig til tekst með framkvæmdina á hendur þessum aðilum.

Alþingi, 16. des. 1993.



Ingi Björn Albertsson.