Ferill 103. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 103 . mál.


428. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum sem varða réttarfar, atvinnuréttindi o.fl. vegna aðildar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.

Frá 2. minni hluta allsherjarnefndar.



    Frumvarpið hefur verið til umfjöllunar á tveimur þingum og fengið allítarlega athugun í allsherjarnefnd.
    Í frumvarpinu ægir saman ýmsum breytingum sem talið er nauðsynlegt að gera á lögum er varða réttarfar, atvinnuréttindi o.fl. vegna aðildar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Annar minni hluti gagnrýnir harðlega slíkan sóðaskap í lagasetningu. Óhjákvæmilegt er því að fjalla um frumvarpið lið fyrir lið þar sem engan heildarsvip er að finna á því.
    Í 1., 8., 9. og 24. gr. frumvarpsins eru ákvæði er varða þau skilyrði sem sett eru fyrir atvinnuréttindum fjögurra starfsstétta: Niðurjöfnunarmanna sjótjóna, útgefenda og ritstjóra blaða og tímarita og fasteigna- og skipasala. Í umfjöllun um málið í nefndinni komu fram ábendingar um að vafi gæti leikið á því hvort ákvæði þessara greina um lögheimili standist ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um frjálsan flutning þjónustu. Samkvæmt þessum greinum er lögheimili á Íslandi gert að skilyrði fyrir þeim starfsréttindum sem um getur í greinunum. Þeim vafa, sem upp kom, tókst ekki að eyða í umræðu innan nefndarinnar. Fram kom hjá fulltrúa utanríkisráðuneytisins, sem kom á fund nefndarinnar, að ekki mætti gera kröfu um lögheimili í einu landi EES-svæðisins umfram annað nema styðja það haldgóðum rökum. Að mati 2. minni hluta tókst ekki að taka af öll tvímæli um að einstök ákvæði fyrrnefndra greina frumvarpsins stæðust slíka skoðun. Engum er greiði gerður með því að setja ákvæði í lög sem ekkert hald er í.
    Annar minni hluti vekur athygli á að í umsögn ASÍ þótti of skammt gengið í þá átt að skilyrða atvinnuréttindi samkvæmt frumvarpinu. Því þótti 2. minni hluta rétt að fá í nefndinni upplýsingar um viðhorf ASÍ til þess ef ákvæðum um lögheimili yrði sleppt úr 1., 8., 9. og 24. gr. frumvarpsins. Fram kom hjá fulltrúa ASÍ að það þætti mjög varasöm breyting á ákvæðum um atvinnuréttindi.
    Annar minni hluti tekur ekki afstöðu til þess hvort og í hvaða tilvikum sé æskilegt að lögheimili á Íslandi sé skilyrði fyrir starfsréttindum hér á landi. Annar minni hluti telur að menn megi ekki blekkja sjálfa sig með því að setja í lög skilyrði sem ekki standast.
    Í V. kafla frumvarpsins eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um eftirlit með útlendingum, nr. 45. 12. maí 1965. Í 16. gr. er það nýmæli að útlendingar geta samkvæmt greininni kært til dómsmálaráðherra: 1) Ákvörðun um að synja honum um dvalarleyfi. 2) Ákvörðun um brottfall eða afturköllun dvalarleyfis. 3) Ákvörðun eða úrskurður um að vísa honum úr landi. 4) Úrskurð skv. 4. mgr. 10. gr. laganna um þau tilvik þegar útlendingur sækir um pólitískt hæli hér á landi. Varðandi þetta mál er rétt að geta þess að nefndinni barst erindi frá Amnesty International um málefni pólitískra flóttamanna. Þar var bent á að nauðsynlegt væri að gæta þess við lagasetningu að ný lög eða lagabreytingar væru í fullkomnu samræmi við alþjóðlega viðurkenndar meginreglur um meðferð pólitískra flóttamanna. Nokkrar umræður urðu um þessi mál í nefndinni og var það niðurstaða hennar að ákvæði V. kafla væru í samræmi við þessar óskir að svo miklu leyti sem þau taka á þessum málum.
    Í 20.–23. gr. frumvarpsins eru ákvæði sem veita ríkisborgurum innan Evrópska efnahagssvæðisins sama rétt og íslenskum ríkisborgurum að því leyti sem það er nauðsynlegt til að nýta þau réttindi sem samningurinn veitir til frjálsra fólksflutninga, staðfestu og þjónustustarfsemi. Jafnframt þeirri miklu opnun er haldið skilyrðislausri heimild ráðherra til að víkja frá skilyrðum 1. mgr. 1. gr. laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19 6. apríl 1966. Er full ástæða til að fella hana niður eða þrengja mjög, m.a. með tilliti til ákvæða 68. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í athugasemdum með frumvarpinu er sagt að ráðherra setji nánari reglur um til hvaða fasteigna réttur íbúa Evrópska efnahagssvæðisins nái en engar tillögur um það liggja fyrir og því er ekki ljóst hvaða hindranir verða af þeim. Það sést a.m.k. af frumvarpi sem landbúnaðarráðherra hefur lagt fram, en ekki mælt fyrir, um að ekki sé heimilt að mismuna íbúum Evrópska efnahagssvæðisins og íslenskum ríkisborgurum við kaup á jörðum eins og áður hafði verið gefið í skyn.
    Ljóst er að í ýmsum greinum þessa frumvarps er farið út á ystu nöf lagasetningar, í fyrsta lagi með því að leggja til að sett verði lög sem álitamál er hvort standist og í öðru lagi eru dómsmálaráðherra í einstökum greinum gefnar allt of rúmar heimildir til að setja nánari ákvæði í reglugerð. Lagasetning af því tagi er ekkert annað en framsal löggjafarvaldsins til framkvæmdarvaldsins og mótmælir 2. minni hluti slíkri lagasetningu.

Alþingi, 16. des. 1993.



Anna Ólafsdóttir Björnsson,

Jón Helgason.

Ólafur Þ. Þórðarson.


frsm.



Kristinn H. Gunnarsson.