Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 150 . mál.


438. Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu breytingar á Montreal-bókun um efni sem valda rýrnun ósonlagsins.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og mælir með samþykkt hennar. Nefndin sendi tillöguna til umsagnar umhverfisnefndar sem skilaði ítarlegu áliti og er þar mælt með samþykkt hennar. Umsögnin er birt sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu.

Alþingi, 17. des. 1993.



Björn Bjarnason,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Jón Helgason.


form., frsm.



Guðmundur Bjarnason.

Ólafur Ragnar Grímsson.

Geir H. Haarde.



Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Árni R. Árnason.






Fylgiskjal.

Umsögn umhverfisnefndar.


(10. desember 1993.)



    Umhverfisnefnd hefur, sbr. bréf utanríkismálanefndar, dags. 15. nóvember sl., fjallað um 150. mál, um fullgildingu breytingar á Montreal-bókun um efni sem valda rýrnun ósonlagsins. Nefndin fékk á sinn fund við yfirferð málsins Þóri Ibsen, deildarsérfræðing í umhverfisráðuneytinu, og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur, deildarstjóra í sama ráðuneyti. Þá kom á fund nefndarinnar Sigurbjörg Gísladóttir, efnafræðingur hjá eiturefnasviði Hollustuverndar ríkisins.
    Umhverfisnefnd mælir með því að framangreind þingsályktunartillaga verði samþykkt og telur mikilvægt að Ísland standi við ákvæði Montreal-bókunarinnar.

1. Árangur Íslendinga frá 1986–1992.
    Í Montreal-bókuninni, sem gerð var við Vínarsamninginn árið 1987, skuldbinda aðildarríki samningsins sig til að draga úr notkun tiltekinna ósoneyðandi efna um 75% fyrir 1. janúar 1994. Allt bendir til þess að Íslendingum muni takast að ná þessu marki. Fyrir liggur að notkun klórflúorkolefna hefur minnkað úr 200,2 tonnum árið 1986 í 62,7 tonn árið 1992. Samkvæmt upplýsingum frá Hollustuvernd ríkisins hefur notkun ósoneyðandi efna dregist talsvert saman árið 1993 og samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 268/1993, um varnir gegn mengun af völdum klórflúorkolefna og halóna, mun notkun tiltekinna efna alfarið hætt 1. janúar 1994. Þessi árangur byggist einkum á þremur þáttum, í fyrsta lagi á fyrrnefndri reglugerð og reglugerð nr. 64/1989, um bann við innflutningi og sölu úðabrúsa sem innihalda ósoneyðandi efni, í öðru lagi á fræðslustarfsemi og í þriðja lagi á samvinnu við hagsmunaaðila. Nýlega var ráðinn til Hollustuverndar ríkisins starfsmaður í hlutastarf til að sinna þessum þætti.
    Fyrir liggur að erfiðlega hefur gengið að minnka notkun ósoneyðandi efna í kæliiðnaði. Aðilar í sjávarútvegi eru stærstu notendur kælimiðla en einnig eru margir notendur í landbúnaði og í matvælaiðnaði. Talsverðar endurbætur hafa þegar verið gerðar hjá þessum aðilum. Hluti aðila í sjávarútvegi hefur endurnýjað kælikerfi eða breytt efnanotkun en fyrir liggur að þeir þurfi að gera verulegar endurbætur í þessu efni á næstu árum. Ljóst er að endurbæturnar munu einnig leiða til sparnaðar í rekstri kælikerfanna. Höfð hefur verið samvinna við þá og aðra hagsmunaðila við framkvæmd á þessu sviði. Þá má nefna að framleiðendur tækjabúnaðar og ósoneyðandi efna, sem notuð eru í hann, eiga góðan hlut að jákvæðri þróun á þessu sviði og taka að líkindum mið af þeim takmörkunum sem fyrir dyrum eru.

2. Hertar kröfur í náinni framtíð.
    Samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu mun í lok ársins 1993 ganga í gildi reglugerð sem miðar að því að náð verði markmiðum þeirra breytinga sem 150. mál fjallar um. Í þeirri reglugerð mun verða kveðið á um hertar kröfur til kælibúnaðar og aukið eftirlit með notkun hans. Gert er ráð fyrir skyldubundnu eftirliti undir yfirstjórn Hollustuverndar ríkisins. Umhverfisnefnd leggur áherslu á mikilvægi þess að reglugerðin gangi sem fyrst í gildi.
    Að lokum skal þess getið að fram kom við meðferð málsins í umhverfisnefnd að Íslendingar hafa ásamt mörgum öðrum aðildarþjóðum Vínarsamningsins þegar sett sér strangari tímamörk en kveðið er á um í Kaupmannahafnarbókuninni sem 150. mál fjallar um. Með bókun sem gerð var á 5. fundi aðildarríkja Montreal-bókunarinnar í Bangkok 17.–19. nóvember 1993 var samþykkt fyrir Íslands hönd að hætta notkun vetnisklórflúorkolefna (HCFC) fyrir árið 2015 en ekki 2030 eins og Kaupmannahafnarbókunin gerir ráð fyrir. Þá má nefna að aðildarríki EB hafa rætt enn hraðari þróun á þessu sviði og Danir munu hafa sett sér það mark að hætta notkun þessara efna árið 2002. Með hliðsjón af þessu telur umhverfisnefnd nauðsynlegt að Íslendingar leggi sig fram um að hætta notkun ósoneyðandi efna sem fyrst.

Virðingarfyllst,



Kristín Einarsdóttir, form.