Ferill 300. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 300 . mál.


439. Tillaga til þingsályktunar



um samþykktir Vestnorræna þingmannaráðsins 1993.

Flm.: Árni Johnsen, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Jón Helgason,


Sigbjörn Gunnarsson, Steingrímur J. Sigfússon.



    Í samræmi við 2. gr. 1. kafla samkomulagsins um Vestnorræna þingmannaráðið samþykkti Vestnorræna þingmannaráðið eftirgreind tilmæli:
    Vestnorræna þingmannaráðið mælist til þess:
    Að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands auki til muna upplýsingamiðlun í vestnorrænu löndunum, sérstaklega varðandi ferðamál. Með það að markmiði beinir fundurinn þeim tilmælum til ríkisstjórnanna að láta Vestnorræna ferðamálaráðið (Vestnorden Tourist Board) sjá um sérstaka þriggja ára upplýsingaherferð.
                  Stefnt er að því að hrinda af stað frekari aðgerðum í ferðamálum í vestnorrænu löndunum á árunum 1994–1996. Gert er ráð fyrir að vestnorrænu löndin veiti aukið fjárframlag til auglýsinga og markaðssetningar í löndunum. Ráðið mælir með að ofangreindar aðgerðir verði framkvæmdar í náinni samvinnu ferðamálaráðanna í vestnorrænu löndunum.
                  Að lokum mælir ráðið með að styrkur sá sem veittur var úr Lánasjóði Vestur-Norðurlanda til ofangreindra aðgerða með tilvísun í 1. gr. reglna um lánasjóðinn frá 1986 verði athugaður.
    Að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands hefji listræna samvinnu milli landanna þriggja með því að halda listahátíð einu sinni á ári, til skiptis í Færeyjum, Grænlandi og á Íslandi, þar sem listamenn frá Grænlandi og Íslandi fari með verk sín á listahátíð í Færeyjum, t.d. árið 1994, og því næst til annars hinna landanna árið eftir. Þannig er unnt að styrkja sambandið milli landanna á sviði myndlistar, tónlistar, bókmennta og ýmissa annarra listgreina. Haft verði samband við þau listamannasamtök og verkalýðshreyfingar í löndunum þremur þar sem slík listastarfsemi á sér stað. Eðlilegt væri að slíkar listahátíðir yrðu í náinni samvinnu við norrænu stofnanirnar í löndunum og best væri ef þær hefðu með höndum framkvæmdina að hluta til.
    Að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands skipi samráðshóp með sex fulltrúum frá menntamálaráðuneytum og verkalýðshreyfingum landanna þriggja til að athuga möguleika á því að koma á nemendaskiptum milli Íslands, Færeyja og Grænlands. Niðurstaða ætti að liggja fyrir á ársfundi Vestnorræna þingmannaráðsins sumarið 1994.
    Að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands skipi embættismannanefnd með embættismönnum frá löndunum þremum sem m.a. eigi að vinna hratt að því að:
         
    
    skýra og bera saman þá viðskiptasamninga sem löndin hafa gert við EB og hvaða áhrif norsk, sænsk og finnsk aðild að EB mundi hafa á samskipti Vestur-Norðurlanda og EB,
         
    
    reyna að meta kosti og galla þess fyrir hvert vestnorrænt land fyrir sig ef þau ganga í tollabandalag við EB eða tengjast á svipaðan hátt sem eitt tollsvæði við EB. Aðilar skiptist stöðugt á upplýsingum.
                  Greinargerð nefndarinnar verður rædd á fundi í Vestnorræna þingmannaráðinu.
    Að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands skipi samstarfsnefnd með það að markmiði að minnka áfengisneyslu og berjast gegn misnotkun áfengis og samræmi auk þess meðferð drykkjusjúkra í löndunum.
    Að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands láti athuga kjör barna og barnafjölskyldna í löndunum þremur.
    Í samræmi við 2. gr. í 1. kafla samkomulagsins um Vestnorræna þingmannaráðið samþykkti Vestnorræna þingmannaráðið eftirfarandi yfirlýsingu:
    Vestnorræna þingmannaráðið beinir þeim tilmælum sérstaklega til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórnar Grænlands með tilliti til fjárhagsstöðu Færeyja að bjóða Færeyingum öðrum fremur að nýta þá fiskveiðikvóta landanna sem eru ónýttir.
    Vestnorræna þingmannaráðið beinir þeim tilmælum til ríkis- og landsstjórna vestnorrænu landanna að leggja sitt af mörkum til að ljúka byggingu Grænlendingahússins í Þórshöfn sem fyrst og að þær standi við áður gefin loforð um fjárstyrki, sérstaklega af hálfu Grænlands og Færeyja.
    Vestnorræna þingmannaráðið beinir þeim tilmælum til landsstjórnar Færeyja að hún hefji á ný grænlenskar útsendingar í færeyska útvarpinu. Þetta er venja sem grænlenska útvarpið fylgir með því að senda út efni á færeysku í samræmi við áður gerða samninga.
    Vestnorræna þingmannaráðið beinir þeim tilmælum til landsdeildanna í vestnorrænu löndunum að þær veiti athygli og styðji starf það sem tengist Vestnorræna kvennaþinginu og auðveldi Vestnorræna þingmannaráðinu störf sín að jafnréttismálum.